Fimmtudagur 18. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

„Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Halldóra Baldursdóttur, móðir Helgu Elínar, furðar sig á viðbrögðum embættis ríkislögreglustjóra. Hún segir ekkert vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn innan lögreglunnar.

Mæðgurnar Halldóra og Helga. Halldóra var í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs en þar greinir hún frá því að árið dóttir hennar hafi verið misnotuð á barnsaldri. Meintur gerandi starfar enn innan lögreglunnar.

„Þetta er mín upplifun og mitt mat, og er mér óskiljanlegt að ríkislögreglustjóri telji sig geta mótmælt því.“ Þetta segir Halldóra Baldursdóttir í bréfi sem hún sendi rétt í þessu á ritstjórn Mannlífs.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Halldóra var í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs en þar greinir Halldóra frá því að árið 2007 hafi dóttur hennar, Helgu Elínu sem þá var tíu ára gömul, verið boðið í sumarbústaðaferð með skólasystur sinni, móður hennar og stjúpföður. Í kjölfar þessarar ferðar hafi breytingar orðið á hegðun Helgu en Halldóra tengdi þær ekki við ferðina. Fjórum árum eftir umrædda sumarbústaðaferð, þann 5. október 2011 var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar. Þar kom í ljós að dóttir hennar hafði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður. Málið var strax sett í farveg, það kært til lögreglu og rannsókn hófst, en um það bil einu ári eftir að málið var kært var það fellt niður og gerir Halldóra ýmsar athugasemdir við rannsókn þess. Meðal annars að sakborningur, sem var starfandi lögreglumaður, hafi ekki verið leystur frá störfum meðan á rannsókn málsins stóð. Hún segir að ríkislögreglustjóri hafi algjörlega brugðist þeim mæðgum í málinu.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru

Þessu andmælti embætti ríkislögreglustjóra, eins og Mannlíf greindi frá. Eru þau andmæli tilefni skrifa Halldóru nú. „Nú hefur ríkislögreglustjóri andmælt því að hafa brugðist dóttur minni eins og ég lýsi í viðtali við Mannlíf sem birtist s.l. föstudag. Í þessu viðtali er ég að segja frá upplifun minni og þrautagöngu okkar mæðgnanna. Í viðtalinu segi ég: „Þegar málið kom upp sendi ég póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem vísaði erindinu á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, sem algerlega brást okkur að mínu mati og vildi ekkert fyrir okkur gera.“

„Það er meðal annars á þessum bréfum sem upplifun mín byggir á að ríkilögreglustjóri hafi brugðist okkur í þessu máli. Hann tók ekki af skarið, sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu eins og hann hafði samkvæmt þessum bréfum vald til.“

Halldóra heldur áfram: „Ég ætla mér ekki að standa í orðaskaki við ríkislögreglustjóra í fjölmiðlum vegna upplifunar minnar á þessu máli en vegna ummæla hans, sem birtist í fjölmiðlum, tel ég rétt að koma eftirfarandi á framfæri: Í bréfi Innanríkisráðuneytisins til mín dags. 08. júní 2012 segir:

- Auglýsing -

„Samkv. 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn til starfa til fimm ára í senn. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundasakir. Þannig er það á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundasakir eða að fullu. Svo sem fram kemur í gögnum málsins taldi embætti ríkislögreglustjóra sér ómögulegt að veita viðkomandi lögreglumanni lausn um stundasakir þar sem embættinu var synjað um upplýsingar um rannsókn sakamáls á hendur honum.

Embætti ríkislögreglustjóra upplýsti ráðuneytið um ofangreint með bréfi dags. 21. nóvember sl. Með bréfi dags 13. mars sl. upplýsti ráðuneytið embætti ríkislögreglustjóra um þá afstöðu sína að það væri mat ráðuneytisins að engin réttarfarsleg rök væru fyrir hendi sem réttlætt gætu afhendingu rannsóknargagna í málum sem þessum. Þá kom það fram það mat ráðuneytisins að synjun á afhendingu gagna sakamáls leiði ekki til þess að ómögulegt verði fyrir veitingarvaldshafann að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundasakir ….. „

Einnig kemur fram í bréfi Umboðsmanns alþingis til mín vegna málsins dagsett 5. mars 2012 að: „….Samkvæmt framangreindu er það innanríkisráðherra sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Það er hins vegar á herðum ríkislögreglustjóra að veita lögreglumönnum lausn frá embætti en lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fara með daglega stjórn lögreglunnar í sínu umdæmi.“

- Auglýsing -
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafnar því að hafa brugðist Helgu Elínu dóttur Halldóru.

Sjá einnig: Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

Halldóra segir því ekkert vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn þann dag í dag innan lögreglunnar. „Það er meðal annars á þessum bréfum sem upplifun mín byggir á að ríkilögreglustjóri hafi brugðist okkur í þessu máli. Hann tók ekki af skarið, sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu eins og hann hafði samkvæmt þessum bréfum vald til.

Hann setti þar með ekki þær kröfur til sinna manna að það sé óásættanlegt með öllu að starfandi lögreglumenn fái á sig ítrekaðar kærur fyrir barnaníð. Hins vegar hefur embættisskipun mannsins verið endurnýjuð.“

Halldóra segir að í kjölfarið hafi fylgt bréfaskriftir og ráðaleysi í öllu kerfinu. „Á meðan sat dóttir mín og beið réttlætis sem aldrei kom. Málinu lauk með niðurfellingu málsins þar sem rannsókn þess var, að mínu mati og margra annarra, mjög ábótavant.

Málið í heild sinni er enn og aftur að mínu mati stór áfellisdómur á allt kerfið, þar með talinn sjálfan ríkislögreglustjóra sem enn firrir sig ábyrgð í stað þess að vinna að réttlæti í málinu.“

Hún segir að þetta sé sér óskiljanlegt og sárara en orð fá lýst. Að lokum, þá segir ríkislögreglustjóri í fréttatilkynningu sinni: „Embættið fékk fyrst fregnir af málinu í fjölmiðlum og átti frumkvæði af því að óska upplýsinga um málið frá ríkissaksóknara, en embættinu hafði ekki verið tilkynnt um málið.“ Hið rétta er að 4. nóvember 2011 sendi ég ríkislögreglustjóra tölvupóst um málið en það var ekki fyrr en 7. nóvember 2011, eða þrem dögum síðar, sem fjölmiðlar fjölluðu fyrst um málið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -