Miðvikudagur 11. september, 2024
5.8 C
Reykjavik

Hjartalæknirinn sem gat ekki sofið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Í litlu tjaldborginni á Ófeigsfjarðarheiði færðist kyrrð öræfanna smám saman yfir. Fátt rauf kyrrðina annað en brak í dýnum þegar þreytt göngufólkið velti sér til að finna rétta legu.
En svo tóku svefnhljóðin við og blönduðust kyrrðinni. Taktfastar hrotur bárust úr einu tjaldinu. Andvaka hjartaskurðlæknir í næsta tjaldi. Skyndilega hættu hroturnar og lækninum krossbrá þrátt fyrir að vera vanur að glíma við líf og dauða. Hann hélt að nágranni hans í tjaldborginni væri kannski allur. En svo heyrðust hroturnar aftur. Hann róaðist og festi svefn.

Með Fíflum

Ég var í gönguferð með Fíflunum, Félagi íslenskra fjallalækna, um heiðina sem til stóð að sökkva í þágu risastórs upptökulóns sem átti að verða grunnurinn að virkjun við neðanverða Hvalá. Fyrirliði hópsins var Tómas Guðbjartsson, hjartalæknirinn hugprúði. Við kynntumst í gegnum Ferðafélag Íslands. Við vorum með allt á bakinu. Sá ferðamáti gefur manni einstaka sjálfstæðistilfinningu. Í bakpokanum var matur til nokkurra daga og allt sem þarf til að leita skjóls fyrir vályndum veðrum vestfirsku heiðarinnar.
||
Útsýni frá Ófeigsfjarðarheiði. Kálfatindar í fjarska.
Mynd: rt
Við lögðum upp frá Ófeigsfirði og tjölduðum á svæðinu neðan við fyrirhugaða virkjun sem átti að tryggja birtu og yl og grjótnóga peninga fyrir eigendur sína. Gjaldið var að ósnortnu víðerni yrði sökkt undir risastórt lón. Vatnsmiklar ár yrðu að sprænum og fossar ekki svipur hjá sjón. Þetta yrði í lagi vegna þess að skemmdirnar sæjust ekki frá veginum, var haft eftir áhrifamanni í hreppnum. Við sópum undir teppið. Einn eigenda heiðarinnar hafði sagt að þar væri engan gróður að finna, aðeins urð og grjót sem mætti hverfa.
Tjaldborgin við vatnið.
Mynd: Tómas Guðbjartsson.
Eftir góðan nætursvefn gengum við sem leið liggur upp með Hvalá í blíðskaparveðri. Ég var með 20 kíló á bakinu en vandist fljótlega þyngdinni. Stígurinn fylgdi ánni framan af. Yfirþyrmandi fegurð var við hvert fótmál. Við okkur blasti hrikalegt gljúfrið við vatnamót Rjúkanda og Hvalár. Við vissum að ófært var seinasta legginn með fram ánni að fossinum. Skyndilega blasti við undurfagur, kraftmikill, lágur foss. Það er ekki allt fengið með stærðinni. Eftir að hafa notið návistar við nafnlausa fossinn héldum við upp í fjallið við norðanvert gljúfrið.
Greinarhöfundur við fossinn Drynjanda.

Mesta spennan var að komast í návígi við fossinn Drynjanda sem steypist tugi metra fram af snarbrattri brún og niður í gljúfrið sem hefur orðið til í aldanna rás. Aðkoman að fossinum er einstök að því leyti, að fossinn birtist ekki fyrr en göngumaðurinn er nánast kominn að honum. En þú gengur á hljóðið og heyrir taktfastar drunurnar löngu áður en náttúruundrið birtist í allri sinni dýrð.

Eftir að hafa notið návistarinnar við Drynjanda var haldið áfram upp með Hvalá. Tilgangurinn var að sjá og upplifa svæði sem hugsanlega var að hverfa. Veðrið lék við hópinn. Eftir að við komum upp á heiðina tók við grýtt og gróðursnautt land. Eftir nokkra leit ákváðum við að tjalda á mel við lítið stöðuvatn, ofan við Dagverðardal.
Hjartalæknirinn Tómas og Dagný kona hans.
Yfir morgunverðinum við spegilslétt vatnið á Ófeigsfjarðarheiði var óhljóðum næturinnar lýst í léttum dúr. Undirritaður var auðvitað sá sem rauf þögnina í óbyggðunum með þessum afgerandi hætti. Á sama tíma og mér sárnaði nærgöngul lýsing hjartalæknisins á hrotum mínum þótti mér vænt um að einhver bæri þá umhyggju fyrir mér að hrökkva við þegar lífsmörkin dvínuðu. Tómas hjartalæknir hóf þegar greiningu vandans.
Ég gerði honum grein fyrir því að árum saman hafði ég barist í gegnum dagana örþreyttur og þá gjarnan leyst málin með því að leggja mig um miðjan dag með tilheyrandi skammartilfinningu. Smám saman hafði miðdegislúr orðið nauðsynlegur. Tómas kvað upp úr um að líklega væri ég að glíma við kæfisvefn. Hann ráðlagði svefnrannsókn til að útiloka kæfisvefn.
Eftir morgunverð við himinblátt vatnið tókum við tjöldin niður og pökkuðum saman. Svo var haldið áleiðis í Eyvindarfjörð. Við fylgdum Eyvindarfjarðará eftir frá brúnum. Fjörðurinn var inni í þeirri mynd að virkja við Hvalá. Til stóð að eitt þriggja uppistöðulóna Hvalárvirkjunar myndi innbyrða Efra- og Neðra-Eyvindarfjarðarvatn. Áin yrði þar með ekki nema svipur hjá sjón á ákveðnum tímum ársins. Ítalskur greifi, Felix að nafni, hafði fyrir nokkrum árum keypt fjörðinn á 25 milljónir króna eftir að hafa upplifað dýrðina á ferð sinni í blíðviðri um Strandir. Hann hafði á orði að byggja þar hús og dvelja þar við hvert tækifæri sem gæfist. Sagan segir að seinna hafi hann komið þar þegar kalt var og þoka. Eftir nokkra hrakninga komst hann suður í Ingólfsfjörð og rómantíkin við fjörðinn var horfin. Seinna gaf hann frá sér vatnsréttindi svæðisins í þágu Hvalárvirkjunar.
Steintröllin sem standa vörð um Ófeigsfjörð og hálendið ofan hans.
Mynd: Reynir Traustason.

Fegurðin var við hvert fótmál á leiðinni niður með ánni. Fossarnir birtust hver öðrum fallegri. Þessar slóðir eru fáfarnar og fossarnir hafa fæstir nöfn. Þegar sá stærsti blasti við okkur mátti heyra undrunaróp. Fólki þótti afleitt að fossinn hefði ekkert nafn. Sú tillaga kom upp að nefna hann Greifafoss eftir hinum hrifnæma Ítala sem var búinn að marka fossinum þau örlög að verða að bunu. Skammt neðan við fossinn er að finna eitt fallegasta náttúrulega tjaldstæði landsins.

Haldið heimleiðis eftir ferðina um Ófeigsfjarðarheiði.
Mynd: rt
Hópurinn nálgaðist ós Eyvindarfjarðarár. Ákveðið hafði verið að Salómon Sig, bátur Strandferða, kæmi á tilsettum tíma til að sækja hópinn. Göngubrú er yfir ána nokkru ofan við ósinn þar sem áin er gjarnan illfær neðra.
Eftir nokkra bið birtist báturinn í fjarska. Skotið var út gúmmíbáti og hópurinn ferjaður um borð. Að baki var frábær ferð um náttúru sem er engu öðru lík. Við höfðum lært að fegurðin liggur ekki síst í grjótinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -