Mánudagur 22. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Í góðum málum/Í slæmum málum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í góðum málum

Sýklar eru í blússandi góðum málum um þessar mundir eftir að veirur og bakteríur hafa legið í dvala í tvö ár. Það er að segja fyrir utan einu stóru veiruna sem kennd er við kórónu. Undanfarnar vikur og mánuði hafa mýmargir Íslendingar, börn sem gamalmenni og allir þar á milli, legið í flensu og kvefpest svo dögum skiptir. Er talað um faraldur í fjölmiðlum. Dæmi eru um flensueinkenni sem endast í nokkrar vikur, sem eru góðar fréttir. Þá á ég við að það séu góðar fréttir fyrir sýklana sem valda veikindunum, ekki fólkið sem fyrir þeim verður. Nú þegar landsmenn gleðjast yfir því að Covid-faraldurinn sé nánast horfinn halda sýklarnir partí í líkama landans sem liggur í valnum á meðan. Nú eða þrjóskast áfram eins og sönnum víkingum sæmir og dreifa þannig partíinu til allra í kring. Og nú berast fréttir um nýjan og bráðhuggulegan faraldur, eða hitt þó heldur. Þá er ég að tala um apakattabóluna (e. Monkeypox) sem ranglega hefur verið kölluð apabólan. Hún hefur sem betur fer ekki borist til landsins enn þá, en miðað við fjölda ferðamanna sem væntanlegir eru til landsins á næstunni má nær örugglega fullyrða að um tímaspursmál sé að ræða. Og þá gleðjast sýklarnir aldeilis á meðan við hin leggjumst í gamalkunnar veikindastellingar og einangrum okkur fyrir framan Netflix. 

Í slæmum málum

Ríkisstjórn Íslands er í slæmum málum, ég held að það leynist engum. Undanfarnar vikur og mánuði hefur hvert rekaldið komið í netið hjá þjóðarskútunni, ef svo má að orði komast. Ef ég sleppi að slá um mig með kjánalegum myndlíkingum get ég sagt að hvert hneykslunarmálið á eftir öðru hefur komið upp hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur undanfarin misseri. Fyrst var það brot Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á sóttvarnarlögum, er hann mætti í yfirfulla veislu í Ásmundarsal rétt fyrir síðustu jól. Þá voru það ásakanir um rasisma hjá Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra. Þá var hann staddur í veislu Framsóknarflokksins til heiðurs Bændasamtökunum þar sem hann átti að taka þátt í þeim sérkennilega gjörningi að halda á Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, fyrir myndatöku. Eins og frægt er orðið viðurkenndi hann að hafa spurt hvort hann ætti að halda á „þessari svörtu“. Næsta fíaskóið var svo salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar kom í ljós að góðkunningjar Sjálfstæðisflokksins, sumir hverjir „hrunsmenn“, fengu að kaupa hlut á niðurgreiddu verði. Meira að segja keypti pabbi Bjarna Ben hlut, svo óforskömmuð var salan. Næst var það svo sú frétt að senda ætti 200 hælisleitendur út á Guð og gaddinn (eða Satan og hitann) í Grikklandi, nú eða beint til Hvíta-Rússlands eða Sómalíu. Vakti það athygli er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra mætti í beina útsendingu í fréttatíma RÚV þar sem hann furðaði sig á fyrirætlun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Nýjasta málið (er þetta er skrifað) er opinbert rifrildi Bjarna Ben og Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra vegna frumvarps hennar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Jafnvel þó að ráðherrunum hafi hingað til tekist að komast upp með allt sem upp er talið hér að framan, hafa vinsældir ríkisstjórnarinnar dalað hægt en örugglega undanfarin misseri og hlýtur það að valda Katrínu og Bjarna áhyggjum, þótt þau segi annað í fjölmiðlum.

Sjá má blaðið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -