Laugardagur 7. desember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Endurkoma Gylfa og fall Bjarna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í góðum málum

Gylfi Þór Sigurðsson er í stórgóðum málum þessi dægrin, því verður ekki neitað. Gylfi Þór er heldur betur kominn aftur með hvelli, eftir að hafa horfið af sjónarsviðinu síðustu tvö árin vegna rannsóknar lögreglunnar í Manchester, á meintu kynferðisbroti gegn barni. Málinu var að lokum vísað frá eins og þekkt er og hóf Gylfi fljótlega að vinna að endurkomu. Það gerði hann meðal annars með því að æfa með Val en svo fór að Gylfi var keyptur til Lyngby Boldklub í Danmörku. Á dögunum lék Gylfi Þór fyrsta landsleik sinn fyrir Íslands hönd í tvö ár, er Ísland gerði jafntefli við Lúxemborg í undankeppni EM 2024. Ísland sigraði svo Liechtenstein á afar sannfærandi hátt, 4-0, en þar kom Gylfi Þór, sá og sigraði en hann skoraði tvö mörk í leiknum og varð þannig markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi, með 27 mörk. Gylfi Þór er sem sagt kominn aftur með látum.

Í slæmum málum

Bjarni Benediktsson hefur átt betri daga, svo mikið er víst. Bjarni, sem gárungar hafa stundum kallað Teflon-Bjarna því ekkert festist við hann, náði ekki að hrista af sér áfellisdóm umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að Bjarni hefði verið óhæfur til að samþykkja sölu á hlut ríkissins í Íslandsbanka. Sá fjármálaráðherrann sæng sína upp reidda í ráðuneytinu og tilkynnti afsögn sína á dramatískum blaðamannafundi. Þrátt fyrir að Bjarni hafi ekki fært sig mjög langt frá fjármálaráðuneytinu, með því að skipta um sæti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, er ljóst að hann hefur beðið pólitískan skaða. Og ekki mátti hann við því, þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem hann gegnir formennsku í, hefur mælst í sögulegu lágmarki mánuð eftir mánuð þetta árið. Segja mætti að Bjarni hafi náð að lenda á fótunum en að hann hafi tognað á ökkla. Þarna missti hann næsthæsta stólinn við ríkisstjórnarborðið, sem fjármálaráðherra, og fór niður í þann þriðja stærsta. Nú er bara að bíða og sjá hvort þessi hrókering hjálpi flokknum eða gangi af honum dauðum, eins mikið og það er hægt.

Pistill þessi er úr nýjasta tölublaði Mannlífs sem lesa má hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -