Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Lýsir harðræði á Bjargi: „Auður Eir sagði að það ætti að ala okkur upp í þrælsótta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sonja Ingvadóttir var ein þeirra stúlkna sem vistaðar voru á stúlknaheimilinu Bjargi á árunum 1965 til 1967. Hún var 14 ára gömul þegar hún var send á heimilið og er meðal þeirra sem hefur sakað forsvarsmenn og starfskonur heimilisins um harðræði og ofbeldi.

Sonja var ein þeirra sem stóð að kæru á hendur Bjargi árið 1967. Á endanum var málið láta niður falla því ekki þóttu nægar sannanir fyrir hendi til þess að höfða opinbert mál. Bjarg varð seinna eitt þeirra vistheimila sem ríkið greiddi sanngirnisbætur vegna og þótti sennilegt að stúlkurnar sem þar voru vistaðar hefðu þurft að þola óforsvaranlega meðferð þeirra sem þar stjórnuðu og störfuðu.

Sonja og fleiri konur sem dvöldu á Bjargi hafa borið séra Auði Eiri Vilhjálmsdóttur þungum sökum, en hún átti frumkvæði að opnun Bjargs og starfaði þar þann tíma sem heimilið var opið. Hún er meðal annars sökuð um andlegt ofbeldi og að hafa vitað upp á hár hvers konar meðferð viðgekkst á Bjargi. Hún er sömuleiðis sögð hafa fyrirskipað einangrun og harkalega meðferð stúlknanna á Upptökuheimilinu í Kópavogi, þar sem þær hafi verið vistaðar fyrir veru sína á Bjargi og sendar á ef þær óhlýðnuðust.

Eftirfarandi er brot úr frásögn Sonju, sem segir sögu sína opinberlega í fyrsta sinn í nýjasta tímariti Mannlífs.

 

Séra Auður Eir á Bjargi

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir starfaði á Bjargi allan starfstíma heimilisins og var nefndarmaður í stjórn þess. Hún var fyrsta konan á Íslandi sem hlaut vígslu til prests árið 1974, en samhliða námi sínu í guðfræði starfaði hún sem lögreglukona og gegndi því starfi einnig þegar hún vann á Bjargi.

- Auglýsing -

„Auður Eir var ekki þarna á hverjum degi, en kom eins og Grýla þegar við vorum að gera eitthvað af okkur. Hún var notuð sem Grýla. Þær sögðu okkur að ef við höguðum okkur ekki vel, myndi Auður Eir koma,“ segir Sonja. Hún lýsir því að þrátt fyrir að Anna Ona hafi verið forstöðukona, hafi allir á Bjargi skynjað að það væri Auður sem hefði völdin. „Capo dei capi,“ segir Sonja. Það hugtak er almennt notað um glæpaforingja.

„Auður Eir sagði að það ætti að ala okkur upp í þrælsótta. Þetta er svo ókristið, óheiðarlegt og viðbjóðslegt. Og þarna, á Bjargi, ætlaði Auður Eir að koma sér upp. Þau fengu náttúrlega peninga með okkur. Við vorum bara gullgæsir.“

„Auður Eir sagði að það ætti að ala okkur upp í þrælsótta“

Í viðtali við DV árið 2007 sagði Gísli Gunnarsson, sem rannsakaði mál Bjargsstúlkna og hjálpaði þeim við að leggja fram kæru og leita réttar síns, að forstöðukona Upptökuheimilisins í Kópavogi hafi tjáð honum að lögreglukonurnar Auður Eir og Guðlaug Sverrisdóttir hefðu viljað hafa innilokun stúlknanna – þegar þær komu þangað í upphafi – mun strangari en hún hefði sjálf óskað. Þar má til að mynda vísa til vistunar Sonju á Upptökuheimilinu fyrstu vikuna.

- Auglýsing -

Forstöðukonan, Ólöf Þorsteinsdóttir, kom til viðtals við vistheimilanefnd þegar nokkur vistheimili voru rannsökuð með tilliti til þess hvort þar hefði harðræði verið beitt. Hún gaf einnig skýrslu hjá lögreglu 25. október árið 1967, þegar Bjarg var rannsakað í kjölfar kærunnar. Í vitnisburði sínum sagði hún meðal annars að viststúlkur af Bjargi hefðu stundum komið til dvalar á Upptökuheimilinu. Í öllum tilfellum hefði lögreglukona komið með þær þangað og að hún hefði fengið þau fyrirmæli frá lögreglukonunni að stúlkurnar skyldu sæta algerri einangrun meðan á dvöl þeirra stæði. Henni hafi þótt einangrun og innilokun stúlknanna harðneskjuleg og að henni hefði liðið illa vegna þessara ströngu fyrirskipana. Hún hefði talið að innilokunin hefði ekki góð áhrif á heilsufar stúlknanna og þess vegna hefði hún ekki alltaf farið eftir þeim fyrirmælum. Henni þótti stúlkurnar frá Bjargi ekki verðskulda þessa meðferð.

Fyrrverandi starfskona á Upptökuheimilinu í Kópavogi sagði í viðtali við vistheimilanefnd að lögreglukona, sem einnig var nefndarmaður í stjórn Bjargs, hefði gjarnan komið með stúlkur á Upptökuheimilið. Hún hafi fyrirskipað að þær skyldu sæta einangrun. Starfskonan sagði að henni hefði þótt sú ráðstöfun harkaleg.

 

Hér má lesa sögu Sonju í heild sinni í nýjasta tímariti Mannlífs. Einnig má nálgast ókeypis eintak í Hagkaup, Bónus og á N1.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -