Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

„Stúlkur sem hafa samfarir við útlendinga gera sér ekki grein fyrir í hvaða hættu þær eru“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sumarið 1985 var ríkjandi ótti hér á landi um að stærstur hluti Íslendinga gæti smitast af alnæmi.

DV fjallaði um málið á sínum tíma og ræddi meðal annars við yfirlækni á Landspítalanum; sá taldi mikla ógn steðja að:

„Mér þykir í sannleika sagt of lítið gert úr þeirri hættu er stafað gæti af alnæmi hér á landi. Menn verða að gera sér grein fyrir að mannkynið og þar með islenska þjóðin getur staðið frammi fyrir áður óþekktu ógnarástandi, hörmungum sem ekki verður séð fyrir endann á,“ sagði Þórður Harðarson, prófessor og yfirlæknir, við DV.

Hann taldi möguleika vera á því að stór hluti ungs fólks á Íslandi smitaðist:

„Fræðilega gætum við staðið frammi fyrir því að stór hluti ungs fólks væri smitaður af alnæmi eftir örfáa áratugi,“ sagði Þórður á þeim tíma.

Þegar þessi ótti var uppi hafði AIDS ekki verið greint í Íslendingi þótt mótefni hefði fundist í fjórum einstaklingum.

- Auglýsing -

Í frétt hins landsfræga blaðamanns Eiríks Jónssonar í DV er sagt að það væri einungis spurning um tíma hvenær sjúkdómurinn bærist til Íslands með þessum skelfilegu afleiðingum:

„Ég held að stúlkur sam hafa samfarir við útlendinga geri sér í 95 % tilfella ekki grein fyrir í hvaða hættu þær eru að stefna sjálfum sér,“ sagði Þórður.

- Auglýsing -

Fram kom í greininni að ástandið væri einna verst í Danmörku:

„Ekki kann ég neina skýringu á því hvers vegna Danir hafa farið svona illa út úr þessu en vera má að frjálslyndi þeirra í ástamálum á undanförnum áratugum valdi þar einhverju,“ sagði Þórður yfirlæknir, sem varaði sérstaklega við sýktum vændiskonum sem gætu valdið ægilegu tjóni, „séu þær iðnar við störf sín.“

Því er lýst í greininni að uppi hafi verið raddir um að setja smitaða einstaklinga í einangrun strax og greining liggur fyrir. Þá var því velt upp hvort mögulegt væri að lögbinda notkun á smokkum til að hefta útbreiðslu veirunnar:

„Og hugsanlega ætti fólk alls ekki að hafa samfarir við aðila sem ekki hefur farið í blóðprufu.“

Hann var spurður um það hvort ekki væri ráðlegt að taka blóðprufu af allri þjóðinni og taka upp einhvers konar skráningu. Og þá hvort ekki ætti að setja merki í nafnskírteini manna:

„Það getur komið að því að einhvers konar skráning verði nauðsynleg. Þetta er alvarlegra mál en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Stundum hef ég verið spurður að því hvort líkja mætti alnæmi við syfilis, sjúkdóm sem þótti ólæknandi í eina tíð. En þessi tvö fyrirbæri er ekki hægt að bera saman. Syfilis brennur út af sjálfu sér og hættir að smita á ákveðnu stigi. Það gerir alnæmi aftur á móti ekki. Hann smitar stöðugt og menn geta gengið með hann svo árum skiptir án þess að vita af því. Í því felst óhugnaðurinn,“ sagði hann.

Gífurlegir fordómar í garð samkynhneigðra voru allsráðandi í heiminum á 9. áratug síðustu aldar. Talað var um að Guð væri að refsa samkynhneigðum fyrir það eitt að vera þeir sjálfir.

Mikill ótti var ríkjandi fyrst eftir að fólk greindist með HIV. Rætt var um að skylda alla sýkta til að láta skrá sjúkdóminn í skilríki sín.

Þeir sem ganga með veiruna í dag lifa flestir þokkalegu lífi. Sjúkdómnum er haldið niðri með lyfjagjöf sem að vísu mun standa ævilangt, ef að líkum lætur. Lyfin gera það að verkum að veiran er ekki lengur í blóðinu og þeir því ekki smitandi. Þeir sem hafa greinst munu því geta lifað lengi og notið fullra lífsgæða. Hugmyndir um að skrásetja alla sýkta eru því fráleitar. Fólk sem tekur reglulega lyf og hefur ekki veiruna í blóðinu er nánast ósmitandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -