Laugardagur 15. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Íslendinganna sárt saknað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margar íslenskar fjölskyldur sitja í sárum á Tenerife eftir að allir íslenskir ferðamenn voru reknir af eyjunni í síðasta mánuði. Fjölskyldurnar hafa lífsviðurværi sitt af þjónustu við Íslendinga og bíða spenntar eftir því að þeir fari að streyma aftur til þessa vinsæla viðkomustaðar þjóðarinnar.

Föstudaginn 20. mars fór síðasta vélin með íslenska ferðalanga frá Tenerife til Íslands en þá viku höfðu íslensku ferðaskrifstofurnar skipulagt nokkrar neyðarflugferðir frá eyjunni spænsku í samráði við Neytendastofu og íslensk ferðamálayfirvöld. Spænsk yfirvöld höfðu þá fyrirskipað brottflutning allra ferðamanna frá Tenerife og í kjölfarið lokað fyrir flug með ferðamenn til eyjunnar. Nærri 400 þúsund erlendir ferðamenn þurftu því að stytta dvöl sína og halda til síns heima. Útgöngubann var síðan sett á og þeir fjölmörgu Íslendingar sem búa á Tenerife eru innilokaðir heima hjá sér og bíða spenntir eftir að banninu ljúki. Þeir bíða þó ekki síður spenntir eftir því að íslenskir ferðamenn fjölmenni aftur til eyjunnar blómlegu.

Óvíst með framhaldið

Enn sem komið er hafa íslensku ferðaskrifstofurnar ekki fellt niður flugáætlun sumarsins til Tenerife en plönuð eru nokkrar ferðir í viku í allt sumar. Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vita, segir öryggi farþeganna ávallt haft í fyrirrúmi og er sannfærður um að Íslendingar muni aftur flykkjast til eyjunnar. „Varðandi þróunina í sumar munum við bíða og sjá hvernig dregið verður úr takmörkunum bæði hérlendis og erlendis. Við lögum okkur að ástandinu og fellum niður þær ferðir sem ekki er raunhæft að hafa í sölu. Við höfum ávallt öryggi okkar farþega í fyrirrúmi og bjóðum öllum okkar farþegum að endurbóka og breyta bókunum sínum án kostnaðar,“ segir Þráinn.

„Það hefur gengið ágætlega að bóka veturinn á Tenerife og er nú þegar t.d. uppselt í jóla- og áramótaferðina okkar. Ég held að þegar ástandið lagast og fólk geti farið að ferðast aftur verði komin nokkur uppsöfnuð þörf hjá fólki að komast í sól og hita. Þannig að við erum bjartsýn á framtíðina og að ferðalög verði áfram eitthvað sem fólk lætur eftir sér.“

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir ferðaskrifstofuna í startholunum og beðið sé í ofvæni eftir að hægt verði að hefja flug til Tenerife á nýjan leik. „Við erum í raun að bíða eftir viðbrögðum stjórnvalda. Upphaflega vorum við að íhuga að byrja í maí, en það mjög ósennilegt að það verði. Núna virðist staðan hérlendis að vera batna mjög mikið, þannig að við erum enn þá að líta til sumarsins en bíðum átekta. Þetta veltur ekki síður á því hvernig hlutirnir þróast á Spáni á næstu dögum og vikum,“ segir Tómas.

- Auglýsing -

Veit ekki hvað tekur við

Jóhann K. Kristjánsson hefur rekið hjólaleigu og skoðunarferðafyrirtæki á Tenerife og heldur úti vefsíðunni www.toursandbikes.com

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá veit ég bara ekki hvað tekur við. Það verður alveg ferlega súrt ef landinn kemur ekkert til okkar því það mun klárlega ekki hjálpa til,“ segir Jóhann K. Kristjánsson sem rekið hefur hjólaleigu og skoðunarferðafyrirtæki á Tenerife frá því sumarið 2018.
Jóhann hefur fram til þessa treyst mikið á viðskipti við íslenska ferðamenn og saknar þeirra mjög. Það sem gæti hjálpað til á árinu, að mati Jóhanns, er nýleg þjónusta fyrirtækisins við að selja miða í ýmsa afþreyingu og mikill vöxtur hefur verið þar, að hans sögn. „Kúnnahópurinn er sífellt að stækka hjá okkur og það er jákvætt að hluti viðskiptavinanna eru erlendir ferðamenn. Núna er staðan bara þannig að maður þarf að hafa fyrirtækið lokað og framhaldið er mjög óljóst. Það er alveg óhætt að segja að við söknum Íslendinganna,“ segir Jóhann.

„Við reynum að sjá þetta þannig fyrir okkur að þetta sé ekki búið spil.“

Aðspurður vonast hann til að komast með fjölskylduna til Íslands sem fyrst og ferðast innanlands í sumar.
„Við reynum að sjá þetta þannig fyrir okkur að þetta sé ekki búið spil. Fjárfestingin er svo sannarlega gífurleg og maður er ekki tilbúinn til þess að kasta því bara frá sér án þess að þrjóskast eitthvað við.“

- Auglýsing -

Gæti tapað ævisparnaðnum

Halla Birgisdóttir veitingamaður opnaði veitingastaðinn Bambú fyrir Íslendinga á Tenerife síðasta sumar.

„Þetta er auðvitað mikið sjokk og rosalega erfitt andlega. Ég er hreinlega með allan ævisparnaðinn undir og hef lagt allt mitt í þetta,“ segir Halla Birgisdóttir veitingamaður sem i síðasta sumar opnaði veitingastaðinn Bambú fyrir Íslendinga á Tenerife. Halla óttast að fá til sín fáa sem enga Íslendinga það sem eftir lifir ársins.

„Mér finnst hræðilegt að vera nýbúin að stofna fyrirtæki og þetta er gríðarleg fjárfesting. Það hefur tekið mikinn tíma og tekið mikið á að koma staðnum af stað. Ég var mjög sátt við viðtökurnar og það var bjart fram undan. Síðan kom bara þessi skellur og óvissan er mjög óþægileg,“ segir Halla og óttast að þurfa að fara aftur á byrjunarreit þegar ferðaþjónustan fer af stað á eyjunni á nýjan leik.

„Ég mun aldrei skella í lás, uppgjöf er ekki í boði og ég skal ekki horfa upp á bátinn minn sökkva.“

„Ég sakna Íslendinganna verulega mikið og mér hefur fundist ofboðslega gaman að vinna við þetta. Nú veit ég ekki hvort ég þurfi að byrja allt upp á nýtt við að koma staðnum á flug eða jafnvel að finna upp alveg nýtt konsept fyrir annan kúnnahóp. Við tilhugsunina fæ ég hroll niður hrygginn en ég er engu að síður reynslunni ríkari eftir þetta. Ég mun aldrei skella í lás, uppgjöf er ekki í boði og ég skal ekki horfa upp á bátinn minn sökkva.“

Snúa aftur með fyrsta flugi

Herdís Hrönn Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson eru par og reka saman Íslendingabarinn Nostalgíu á Tenerife.

Veitingamennirnir Herdís Hrönn Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson reka Íslendingabarinn Nostalgíu á Tenerife og hafa nú lokað staðnum í bili. Þau ætla að skella sér til Íslands við fyrsta tækifæri og snúa aftur á barinn um leið og fyrstu Íslendingarnir mæta.

„Við höfum það ágætt. Sumarið er rólegasti tíminn hjá okkur þannig að þetta kemur svo sem niður á skásta tímanum upp á reksturinn. Ég er bjartsýnismanneskja en ég sé ekki möguleika á að opna aftur fyrr en í fyrsta lagi í haust,“ segir Herdís Hrönn sem vonar að Íslendingarnir hræðist ekki að sækja barina þegar þeim verður aftur hleypt til Tenerife.

„Ég er bjartsýnismanneskja en ég sé ekki möguleika á að opna aftur fyrr en í fyrsta lagi í haust.“

„Við vorum sem betur fer að klára okkar besta rekstrarár og þökkum vel fyrir það. Fyrir vikið höfum við það mikið í bakpokanum að við náum að lifa þetta af. Það er fullt af föstum kostnaði sem borga þarf. Við söknum Íslendinganna mjög enda stærsti kúnnahópurinn okkar og því er tilgangslítið að opna fyrr en þeir koma aftur. Óvissan um hvenær þeir koma er hins vegar erfið en það er alveg klárt að við ætlum ekkert að hætta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -