Laugardagur 20. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Íslenskar konur bíða enn eftir skaðabótum vegna PIP-brjóstapúða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rúmlega tvö hundruð íslenskar konur unnu hópmálssókn á hendur þýsku fyrirtæki í PIP-brjóstapúðamálinu í fyrra. Aðeins hluti skaðabóta hefur skilað sér. Lögmaður kvennanna segir allt að tvö ár í málalyktir.

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.

Um 200 íslenskar konur sem höfðu betur í skaðabótamáli fyrir frönskum dómsstólum gegn þýska eftirlitsfyrirtækinu TÜV Rheinland í PIP-sílikonpúðamálinu svokallaða bíða enn eftir að fá megnið af þeim bótum sem þeim voru dæmdar í fyrra. Hluti bótanna var greiddur í fyrrahaust. Lögmaður TÜV Rheinland áfrýjaði málinu og er útlit fyrir að endanleg niðurstaða í málinu geti dregist í eitt til tvö ár til viðbótar við þau ár sem málið hefur tekið.

„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár. Ef endanleg niðurstaða kemur fyrr, er það auðvitað frábært en aðalatriðið er að hún verði íslenskum konum í hag,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.

Aðeins fengið brot af bótum
Talið er að um 300.000 konur í 65 lönd¬um um allan heim hafi fengið gallaða brjósta¬púða frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prosthése (PIP). Þar á meðal voru um 400 íslenskar konur sem fengu púðana á árunum 2000 til 2010. Sextán þúsund konur létu fjarlægja púðana eftir að upp komst að iðnaðarsílikon var notað við gerð þeirra og hafði þá þegar valdið hluta þeirra heilsutjóni.
Um mitt ár 2015 hófst aðalmeðferð í máli um 9.000 kvenna og 204 frá Íslandi gegn TÜV Rhein¬land en fyrirtækið veitti PIP vottun um að púðarnir stæðust evrópskar kröfur. Í dómi gegn fyrirtækinu kom fram að fyrirtækið hafi vanrækt skyldur sínar um eftirlit og árverkni. Þetta er stærsta dómsmál í franskri réttarsögu og er því hvergi nærri lokið.
Meðalbætur sem hver kona átti að fá nam um tveimur milljónum króna. Konurnar fengu einungis brot af dæmdum bótum í fyrra eða um 3.000 evrur, jafnvirði 386 þúsund íslenskra króna. Frá innborguninni voru dregnar 500 evrur í málskostnað og stærsti hluti íslenskra kvenna lét að auki draga 500 evrur í matskostnað. Fengu konurnar því til sín milli 2.000 og 2.500 evrur eða 250.000 – 313.000 krónur hver.

„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár.“

Biðin orsakast af umfangi málsins
Saga segir biðina skýrast af umfangi málsins en vekur athygli á því hversu frábrugðnir franskir dómstólar eru þeim íslensku. „Réttarkerfið í Frakklandi er mjög ólíkt því sem maður þekkir hér og maður verður að aðlaga sig að því. En það verður einnig að hafa hugfast að ferlið í þessu máli er án efa frábrugðið hefðbundinni málsmeðferð í Frakklandi vegna umfangs þess. Þetta getur reynt á þolinmæðina hjá íslenskum konum sem eru aðilar að málinu, eðlilega, og auðvitað hjá okkur lögmönnunum,“ segir hún og bætir við að málinu hafi verið frestað mjög oft hjá frönskum dómstólum. Lögfræðingar hafi ítrekað farið í dómshúsið til að vera viðstaddir dómsuppsögu en fengið þær upplýsingar að málinu hafi verið frestað. Alveg þar til dómur var á endanum kveðinn upp.

PIP-brjóstpúðamálið í hnotskurn

2010

- Auglýsing -

Mars: Frönsk stofnun sem hefur eftirlit með lækningatækjum bannar markaðssetningu, dreifingu, útflutning og notkun á sílikonbrjóstapúðum sem franska fyrirtækið Poly Implant Prosthése framleiðir. Ástæðan eru ýmis frávik, svo sem leki úr púðunum.

Apríl: Tilkynnt að framleiðandi brjóstapúðanna hafi notað iðnaðarsílikon, annað en vottað hefur verið við framleiðsluferlið.

2011

- Auglýsing -

Desember: Franska eftirlitsstofnunin segir grun leika á að PIP-púðarnir tengist auknum líkum á krabbameini. Það er dregið til baka nokkrum dögum síðar. Lyfjastofnun á Íslandi greinir frá því að hún fylgist með málinu. Frönsk heilbrigðisyfirvöld gefa út tilmæli um að konur með PIP-brjóstapúða láti fjarlægja þá í forvarnarskyni.

2012

Febrúar: Vísindanefnd Evrópuráðsins segir PIP-púðana innihalda iðnaðarsílikon og vísbendingar um að þeir rofni frekar en brjóstapúðar annarra framleiðenda. Velferðarráðuneyti og Embætti landlæknis mæla með því að öllum konum með PIP-brjóstapúða verði boðið að láta fjarlægja þá, hvort sem þeir væru rofnir eða heilir.

2013

Nóvember: Úrskurðað að TUV Rhein­land hafi vanrækt skyldur sínar. Dreifingarfyrirtæki víða um heim fara í mál við TUV og krefjast milljarða í bætur.

Desember: Jean-Clau­de Mas, stofn­andi og eig­andi PIP-brjósta­búðafram­leiðand­ans, dæmdur í fjögurra ára fang­elsi fyr­ir svik og til greiðslu sektar. Fjórir framkvæmdastjórar PIP eru líka fundnir sekir um svik og hljóta dóma.

2015

Júlí: Aðalmeðferð hefst í undirrétti í Frakklandi í máli um 9.000 kvenna gegn TÜV Rhein­land.

 2017

Janúar: Undirréttur dæmir konunum bætur.

September: Konurnar fá innborgun bóta upp á 3.000 evrur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -