Mánudagur 17. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Jákvæðar hliðar COVID-19 faraldursins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við getum fagnað því, og litið á það sem jákvætt teikn, að víða um heim eru viðbrögð okkar lofuð og talin til eftirbreytni. Þessu megum við fagna og muna að þrátt fyrir allt sem hér má gera enn betur er gott að búa á Íslandi, ekki síst þegar fólk tekst á við vanda í sameiningu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann er spurður um hvort einhver jákvæð teikn megi finna á tímum COVID-19. Forsetinn segir að ýmis jákvæð teikn megi finna og hrósar íslensku þjóðinni fyrir lofsverða samstöðu á mæðusömum tímum meðan þjóðin sé annars ekki þekkt fyrir að lúta aga mjög vel. Guðni og aðrir viðmælendur Mannlífs velta hér fyrir sér björtu hliðunum í veirufaraldrinum.

Ekki má gleyma því að Íslendingar hafa látið lífið í faraldrinum, fjöldi fólks hefur misst atvinnu sína og efnahagserfiðleikar blasa við fjölda fyrirtækja og heilu atvinnugreinunum. Guðni leggur á það áherslu um leið og hann veltir fyrir sér þeim jákvæðu teiknum sem faraldurinn geymir. „Það segir sig sjálft að ekkert, nákvæmlega ekkert, er jákvætt við farsótt sem leggur fólk að velli víða um heim. Þar að auki valda nauðsynlegar aðgerðir til að vernda líf og heilsu okkar miklum efnahagslegum skakkaföllum. Enn er langt í að veiran skæða verði yfirbuguð og lyf eða bóluefni fundin sem duga gegn henni. Og hagtjónið verður enn meira áður en yfir lýkur,“ segir Guðni. „En það mun birta til. Í því liggur vonin. Von sem er byggð á raunsæi, þrátt fyrir allt, og þá getum við líka horft til þess hvernig brugðist hefur verið við vágestinum, ekki síst hér á landi. Hér má finna mörg jákvæð teikn. Við erum sjálfstæð í hugsun á þessu landi og ekki þekkt fyrir að lúta aga sérlega vel. Engu að síður hefur þjóðin sýnt lofsverða samstöðu þessa erfiðu og mæðusömu daga. Almennt hefur fólk ákveðið að fylgja reglum, tilmælum og leiðbeiningum um varnir gegn veirunni. Við höfum áður sýnt og sýnum það aftur nú að þegar á þarf að halda stöndum við saman.“

Þakklátur Móður Jörð

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur er sammála forsetanum að ekki megi gleyma neikvæðum hliðum faraldursins á meðan jákvæðar hliðar hans séu skoðaðar. Hann vonast til að þjóðin læri sína lexíu inn í framtíðina. „Þetta ástand skaðar flesta fjárhagslega, fer illa með suma en reynsla mín segir að allt leiti jafnvægis. Við förum hægar yfir, lítum oftar í kringum okkur, stöldrum við, spjöllum við ókunnuga. Þetta opnar fyrir hjartastöðina og samhugur og auðmýkt eykst,“ segir Þorgrímur sem telur að margir Íslendingar hugsi nú um að breyta til hjá sér. „Við þurfum að endurmeta margt í lífi okkar og einhverjir hafa hugrekki til að stökkva á ný tækifæri. Farvegur sköpunar opnast og þegar upp er staðið verðum við þakklát Móður Jörð fyrir að slá okkur utan undir. Hún lætur ekki leika sig grátt áratugum saman. Vonandi höfum við lært okkar lexíu.“

Fjölgun í faraldri

Á meðan kórónuveirufaraldurinn hefur gengið yfir landið hafa um það bil helm – ingi fleiri Íslendingar fæðst heldur en látist. Yfir 620 einstaklingar hafa látið lífið hér á landi á fyrsta ársfjórðungi ársins og af þeim eru 10 einstaklingar sem hafa látist vegna COVID-19. Þetta gefa tölur Hagstofunnar til kynna og á sama tímabili fæddust 1.080 Íslendingar. Í samanburði við síðustu þrjú ár hafa færri Íslendingar látist í ár þrátt fyrir faraldurinn. Á þeim tíma sem faraldurinn hefur gengið yfir landið fjölgaði Íslendingum um 1.870 manns þegar tekið er tillit til fjölda aðfluttra umfram brottflutta. Íslendingum fjölgaði þannig um 0,5 prósent í byrjun árs 2020. Athygli vekur að á meðan kórónuveirufaraldurinn hefur gengið yfir heimsbyggðina hafa færri Íslendingar látist heldur en á síðustu árum. Þannig hafa að meðaltali ríflega 44 Íslendingar látist vikulega fyrsta ársfjórðunginn í ár á meðan þeir voru nærri 46 árin þrjú þar á undan. Flestir hinna látnu voru í aldursflokknum 85 ára og eldri.

- Auglýsing -

Lífið heldur áfram

Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, gleðst yfir því að Íslendingum hafi fjölgað en ekki fækkað í faraldrinum. Hann vonast til að fólk haldi áfram að horfa inn á við sem hjálpi því við gildin. „Það eru jákvæð teikn að Íslendingum hefur fjölgað á þessu tímabili og það kennir okkur þá lexíu að lífið heldur áfram. Mér finnst raunar margt jákvætt. Umfram allt hefur fólkið í landinu staðið sig vel með því að sýna ábyrgð og samstöðu. Ég hef ekki séð neitt annað en að fólk hafi farið varlega og farið að tilmælum sem er jákvætt því landinn er ekkert alltaf mjög þegnlegur,“ segir Geir. „Allt í einu eru allir Íslendingar nokkuð sammála í jákvæðni og það er sannarlega gott. Það mikilvægasta tel ég vera að þetta hjálpi mönnum vonandi með gildin. Núna hefur fólk náð að taka aftur upp hjá sér þau gildi sem snúa inn á við og að fjölskyldunni. Það er mjög gott.“

Plánetan fagnar

- Auglýsing -

Eyþór Eðvarðsson, hjá París 1.5, hópi áhugafólks um loftslagsmál, segir kórónuveiru – faraldurinn vera góðar fréttir fyrir plánetuna. Hann óttast hins vegar að allt kunni að fara aftur í sama horf. „Þótt það sé skelfilegt að segja þetta þá er það svo. Það er kannski slæmt að segja það að maður sé bara ánægður með þetta en það eru klárlega jákvæð áhrif af þessari veiru. Hún hefur hægt svo á hagkerfum heimsins að það sést úr geimnum. Í Kína hefur verið allt að 25% samdráttur á losun gróðurhúsaloftegunda. Ef við spilum þetta vel hér eftir þá er hægt að ná miklum árangri,“ segir Eyþór.

Settu sig ekki á háan hest

Guðni forseti sér tilefni til að hrósa stjórnmálamönnum fyrir að hafa staðist þá freistingu að nýta faraldurinn til að auka eigin vinsældir. „Ráðamenn hafa ekki heldur nýtt ástandið til að auka eigin völd og taumhald á borgurunum. Sú hætta er alltaf fyrir hendi við aðstæður af þessu tagi að valdhafar sækist eftir sviðsljósinu til að afla sér fylgis og atkvæða. Þegar fullnaðarsigur hefur unnist hér eigum við að þakka fólkinu í fylkingarbrjósti og fólkinu sem stóð í ströngu, heilbrigðisliði okkar og öðrum sem sinntu sínum störfum af mikilli samviskusemi við erfiðar aðstæður,“ segir Guðni. „Við höfum einnig sýnt að við erum reiðubúin að treysta ráðgjöf og forystu þeirra sem best þekkja til í almanna- og veiruvörnum. Þetta höfum við gert óháð því hvort valdboði var beitt, og kunn – um því vel að sérfræðingar okkar settu sig ekki á háan hest. Þetta er líka jákvætt teikn sem gott er að muna þegar fram líða stundir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -