Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Jóhanna býr ein í Svansvík: Sefur hjá ljósavélinni í óveðrum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ætli það hafi ekki verið 1987 sem ég tók við búinu af pabba og mömmu. Þá var búið á öllum bæjum hér um allt Ísafjarðardjúp,“ segir Jóhanna Rannveig Kristjánsdóttir sem býr ásamt Kristjáni syni sínum 18 ára gömlum með 300 fjár í Svansvík við Ísafjarðardjúp.
Þrátt fyrir að vegurinn um Djúpið hafi mikið batnað á síðustu árum er vetrarfærð á vestfirskum vegum og þá ekki síst fjallvegum. Jóhanna hefur alla tíð búið ein og staðið fyrir sínu  búi.

Í eldhúsinu í Svansvík. Jóhanna og Sigríður Sigmundsdóttir, vinkona hennar.

Árum saman ók Jóhanna syni sínum nokkrum sinnum í viku í skóla á Hólmavík sem er um 90 kílómetral eið og yfir sjálfa Steingrímsfjarðarheiðina að fara. Veður þurfa ekki að verða neitt sérlega válynd til að heiðin verði farartálmi.
„Þetta gekk ótrúlega vel hjá okkur, við lentum aldrei í neinum vandræðum, ekki sem ég man eftir núna. Pabbi kenndi mér ungri að ég myndi komast vel af í samspili við náttúruna ef ég bara bæri virðingu fyrir henni og ætlaði mér ekki um of. Þetta heilræði hefur reynst mér vel,“ segir Jóhanna íbyggin og hugsar til heiðarinnar hvar hún mátti læðast um af varfærni í frosti byl og myrkri árum saman.

Tvö þorrablót í vetur

Þrátt fyrir að búskap hafi verið brugðið á fjölda bæja við Djúp undanfarin ár og fólki fækkað mikið er samgangur á milli bæja eftir atvikum.
„Það eru ekki nema 30 kílómetrar í næsta bæ þannig að það er ekkert þrekvirki að skjótast í kaffisopa og hitta fólk. Svo erum við búin að halda tvö þorrablót í vetur. Við erum svo fá eftir hérna að fjöldatakmarkanir Þórólfs trufla okkur ekkert. Að öllu jöfnu höfum við haldið smalahittinga þar sem allir koma saman sem að smölun koma, það hefur verið alveg upp í 70 manns. En í haust var ekki hægt að gera neitt slíkt. Það er eina tilfellið sem fjöldatakmarkanir hafa truflað hér í sveit.“

Stundum hefur Jóhanna þurft að bregða við þegar veður og ófærð hefta för fólks á vegum um Djúpið enda varla fyrir óvana að fara þar um að næturlagi í viðsjárverðum veðrum.
„Ég man eftir útlendingi sem festi sig hérna upp á hjallanum rétt ofan við bæinn. Ég fór og bjargaði manngarminum í hús og gaf honum heitt að drekka og eitthvað í svanginn og bjó honum hlýtt rúm. Við vöknuðum svo um nóttina við lætin þegar flutningabíll kom á 90 kílómetra hraða í skaflinn þar sem bíllinn hans var fastur. Það var ekki mikið eftir af fólksbílnum eftir að vörubíllinn hafði farið yfir hann. Það slasaðir enginn sem betur fer og þá er flest í lagi,“ segir björgunarkonan í Svansvík.

Rafmagnstruflanir

Rafmagn er á tíðum gloppótt í vetrarveðrum í afskekktum byggðum og yfirleitt verður straumlaust þegar síst skyldi. Í dimmum vetrarveðrum þegar skafbylurinn hleður upp sköflum og byrgir nær alla sýn láta loftlínurnar gjarnan undan. Jóhanna er starfsmaður Orkubús Vestfjarða og þarf að bregðast við þegar straumrof verður, í Reykjanesi utan við Svansvík eru varaaflsvélar fyrir Djúpið. Í rafmagnsleysi verður Jóhanna að girða sig í brók og halda út í sortann til að koma rafmagni á sveitina. Nútíminn gerir ekki mikið án rafmagns, jafnvel ekki við Ísafjarðardjúp þar sem tíminn gengur um margt ögn öðruvísi en í þéttbýlinu.
„Ég verð að fara og koma rafmagni á áður en kólnar í húsum og svo þarf fólk eitthvað að sjá til líka. Ef veður eru mjög vond á ég til að leggja mig á bekk við hlið ljósavélarinnar og fara heim morguninn eftir ef veður hefur eitthvað gengið niður,“ segir þessi harðgerða kona sem hjálpar sveitungunum með yl og birtu í líf sitt.

- Auglýsing -

Byggðinni hnignar

Jóhanna er hugsi yfir framtíð byggðar við Djúp og telur að byggðinni muni hnigna hratt héðan í frá.

„Við unga fólkið í Djúpinu erum öll komin yfir sextugt held ég að mér sé óhætt að segja. Eftir 10 ár verður þetta kannski orðið eins og Hornstrandir. Ég reikna með að Svansvík verði bara sumarhús þegar ég bregð búi og svo er um marga aðra bæi. Enda hefur þróunin verið í þá átt. En ég mun kveðja búskapinn sátt við guð og menn. Hér hefur mér liðið vel, þetta er sveitin sem ól mig og mér hefur alltaf liðið vel hérna. Líka þegar veður er svo vond að því verður ekki með orðum lýst,“ segir náttúrubarnið í Svansvík og býður kaffi og kleinur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -