Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Langvarandi álag varð að sprengju

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlakonan Sirrý Arnardóttir var að gefa út bókina Þegar kona brotnar, bókina gefur hún út í samstarfi við VIRK – starfsendurhæfingarsjóð. Í bókinni er að finna viðtöl við konur sem kiknuðu undan álagi en risu aftur upp.

Í bókinni er einnig fjallað um konur fyrri tíma, hvernig þær brugðust við örmögnun. Þá er rætt við sálfræðing um hvað gerist þegar kona brotnar og hver bjargráð hennar eru.

Meðfylgjandi er brot úr viðtali Sirrýar við Helgu Ólafsdóttur.

Helga Ólafsdóttir hárgreiðslumeistari rak um árabil vinsælu hárgreiðslustofuna Monroe í hjarta miðborgarinnar. Sem atvinnurekandi með hárgreiðslufólk og nema í vinnu þurfti Helga – sem var einnig einstæð móðir – oft að sinna starfsmannahaldi á kvöldin eftir langan vinnudag á stofunni. Eftir að hafa glímt við álag og líkamlega verki í nokkur ár dró Helga sig út úr hárgreiðslunni, seldi stofuna og tók góðan tíma í að hvíla sig og endurheimta orkuna. Læknir taldi að hún ætti að hætta alveg að vinna og fara á örorkubætur en Helga ákvað að breyta lífi sínu, endurmennta sig og víkka sjóndeildarhringinn.

Hefur þú lent í að brotna niður?

„Já, en það var alls ekki þannig að ég gæfist allt í einu upp. Ég er týpískt dæmi um konu sem bjó við mikið langvarandi álag sem barn og unglingur og svo varð þetta langvarandi álag að sprengju og ég bugaðist.

Í kringum 1998 var ég farin að finna fyrir miklu álagi og vanlíðan. Ég hafði verið þjökuð af sársauka í kroppnum lengi og sætti mig bara við það. Eftir á sé ég að ég fékk síþreytu. Þetta var því ekki skyndilegt skipbrot heldur síþreyta sem erfitt var að vinna sig út úr. En ég gerði alla vega eitthvað í þessu og fyrir 16 árum hætti ég að starfa í mínu fagi.

- Auglýsing -

Mín skoðun er að þegar fólk er að tala um kulnun er það aldrei einn þáttur sem veldur kulnun. Það er ekki bara vinnan heldur margt sem safnast saman. Eins og bílslys, það er margt sem spilar inn í, röð atvika sem leiðir til áreksturs.

Ég var alltaf svo þreytt eftir daginn. Gat í raun ekki hreyft mig. Ég hafði áhyggjur af eigin rekstri. Það voru ekki peningaáhyggjur heldur fann ég fyrir miklu álagi sem fylgdi ábyrgðinni á mannaforráðum og rekstri. Ég bjó við flóknar aðstæður í prívatlífinu. Ég hafði verið í erfiðu sambandi við mann. Og svo þessi sársauki í kroppnum út af miklu vinnuálagi.

Ég hafði alltaf unnið mikið og alltaf tekið meira og meira að mér. Ég hafði endalaust mikið af kúnnum og lengdi bara vinnudaginn minn. Ég gat ekki farið að vinna hálfan daginn og hugað að sjálfri mér eins og ég þurfti á að halda. Ég áttaði mig á því að ég væri komin í strand og það var svo óþægilegt að vera fastur. Þegar ég var farin að eiga erfitt með að anda spurði ég heimilislækninn hvort það væri eitthvað að mér: „Ég á svo erfitt með að anda og líður illa í öndunarfærunum,“ sagði ég en fékk að vita að þetta var stress. Ég reyndi að gera ýmislegt fyrir mig á þessum tíma og stunda einhverja líkamsrækt en fannst erfitt að vera í reglulegri hreyfingu. Ég var svo þreytt eftir langan vinnudag, var líka einstæð móðir svo ég varð að drífa mig heim. Reyndar hafði ég búið mér til góðar aðstæður og var með ráðskonu heima. Ég náði að hafa þetta svona með því að forgangsraða en samt var þessi eilífa sektarkennd. Við bættust flókin samskipti við fyrrverandi mann minn og hans konu og það var erfitt að koma þessu heim og saman. Þó þau hafi tekið þátt þá bar ég ábyrgðina á velferð barnsins.

„Samt gat ég varla hreyft mig út af líkamlegum verkjum.“

- Auglýsing -

Líkamlega var ég orðin svo slæm að ég gat ekki lyft upp höndunum. Lengi vel setti ég mig í einhvern gír og keyrði mig áfram. Samt gat ég varla hreyft mig út af líkamlegum verkjum. Flest hárgreiðslufólk sem hefur unnið langa ævi í hárgreiðslunni kemst ekki hjálparlaust í jakka. Vinnudagurinn er iðulega mjög langur og oft er enginn matartími. Iðnaðarfólk er oft slæmt af verkjum.“

Komst ekki upp úr skurðinum

„Við rekstur hárgreiðslustofu þarf að hafa heilmikið fyrir því að ná peningum inn sem duga fyrir starfseminni. Ég bar ábyrgð á tíu manneskjum og þeirra launum og þegar einhver var veikur þurfti maður sjálfur að spýta í lófana og bæta við sig vinnu til að eiga fyrir rekstrinum. Það hefur skort aga í litlum fyrirtækjum á þann hátt að hver og einn starfsmaður getur haft mikil völd. Maður fékk alveg að heyra: „Ef ég fæ þetta ekki þá er ég nú bara hætt.“ Sem stjórnandi gat verið erfitt að vera á gólfinu með öllum hinum á daginn og vinna svo stjórnunarvinnuna ein á kvöldin.

Ég hafði því ekki tíma til að fara upp úr skurðinum og horfa yfir stöðuna. „Hvað get ég gert til að gera þetta léttara?“ – ég gat ekki stoppað og íhugað það. Viðskiptavinir voru á biðlista enda stofan vinsæl. En ég réð við þetta og hefði gert það áfram ef ekkert annað hefði komið til. En að lenda í erfiðu sambandi og hafa verið undir álagi frá bernsku safnaðist saman og hvíldi þungt á mér. Undir það síðasta var ég mjög áhyggjufull yfir starfsmannahaldinu og að standa undir launakostnaði.

Ég gerði margt gott fyrir mig eins og að fara á kvíðastillandi lyf og sækja mér sálfræðilegan stuðning. Ég er fegin því vegna þess að ég gat endað þetta ferli á hárgreiðslustofunni fallega og gengið frá mínum málum í stað þess að „krassa“ og sturlast. Þegar ég lít til baka er ég ánægð. Ég hef lent í heilmörgu en náði að leysa það vel. Þetta sá ég til dæmis þegar ég tók nýlega þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna á netinu en þar fann ég hvað ég hafði leyst margt vel í erfiðum aðstæðum. Það var til dæmis mjög skynsamlegt fyrir mig, einstæða móður, að sækja mér stuðning í sálfræðitímum og ræða þar mín mál í trúnaði.

Auk þess hef ég alltaf átt flott stuðningsnet í systkinum og vinkonum. Stuðningsnet hjálpar alveg rosalega við að taka á erfiðum málum í einkalífi og starfi. Það hlýtur að vera hrikalegt fyrir einstæða foreldra sem lenda í kulnun eða örmögnun að hafa ekki öflugt stuðningsnet.“

Bókin er gefin út í samvinnu við VIRK – starfsendurhæfingarsjóð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -