Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Mun taka langan tíma að vinna okkur úr þessari kreppu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Kostnaðurinn verður verulegur. Það mun taka langan tíma að vinna okkur úr þessari kreppu.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, á upplýsingafundi núna fyrir hádegi þegar næstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna efnahagsáhrifa kórónuveirunnar voru kynntar.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt þrjár tillögur um stuðning við launafólk og fyrirtæki. Markmið þeirra er að draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot valda þannig að staðinn verði vörður um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verði að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins.

Fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti til að tryggja réttindi launafólks og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Hlutastarfaleiðin verður framlengd til hausts með breytingum og settar verða einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem miða að því þau geti komist í skjól með einföldum hætti.

Hlutastarfaleiðina mikilvægasta aðgerðin

Katrín segir hlutastarfaleiðina hafa nýst vel en 35 þúsund manns hafa skráð sig á bætur á móti skertu starfshlutfalli, um 14 þúsund koma úr ferðaþjónustunni.

Katrín segir einhverja gagnrýni hafa komið upp síðan úrræðið var kynnt. „En það breytir því ekki að þetta er mikilvægasta aðgerðin sem við gátum gripið til,“ sagði Katrín.

„Þessi stuðningur mun skipta ferðaþjónustuna verulegu máli, ekki síst Icelandair.“

- Auglýsing -

Ferðaþjónustan hefur kallað eftir frekari aðgerðum síðan fyrstu tveir aðgerðarpakkar ríkisstjórnarinnar voru kynntir. Aðspurð hvort að þessi þriðji pakki muni nýtast fyrirtækjum í ferðaþjónustunni, og var sérstaklega spurt út í Icelandair, sagði Katrín: „Þessi stuðningur mun skipta ferðaþjónustuna verulegu máli, ekki síst Icelandair.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra voru á fundinum ásamt Katrínu til að svara spurningum fjölmiðla.

Þórdís Kolbrún tók undir með Katrínu eftir fundinn og sagði að þessi nýi aðgerðapakki muni koma sér vel fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustinni, að þau séu ekki öll í sömu stöðu en með pakkanum sé boðið upp á ýmsa valkosti.

- Auglýsing -

Katrín kynnti þessar þrjár aðgerðir á fundinum:

1.Hlutastarfaleið verður framlengd en hefði að óbreyttu fallið úr gildi þann 1. júní nk. Afkoma tugþúsunda launafólks hefur verið varin frá því að leiðin tók gildi en ljóst er að efnahagshorfur hafa breyst umtalsvert á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá gildistöku hennar. Hlutastarfaleiðin verður því framlengd án breytinga með 25% lágmarksstarfshlutfalli út júní en lágmarkið hækkar í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Sækja þarf um framlengingu leiðarinnar og skilyrði fyrir þátttöku verða endurskoðuð.

2.Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og uns meiri vissa fæst um framtíðarhorfur. Breytingar lúta m.a. að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestum, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda.

3.Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er verður fyrirtækjum gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn verður í formi greiðslu að hámarki 633 þús.kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Áætlað er að um fjórðungur fyrirtækja hafi orðið fyrir slíku tekjutapi. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85%. Starfsmenn skulu eiga forgang til starfs þegar starfsemi hefst að nýju og halda tilteknum áunnum réttindum. Sett verði nánari skilyrði, til að mynda um rekstrarhæfi fyrirtækis, fyrir aðild að þessu úrræði og um endurkröfurétt. Leiðin er í boði frá 1. maí til 30. september.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -