Laugardagur 15. júní, 2024
6.8 C
Reykjavik

Nærmynd af Gylfa Þór Sigurðssyni: „Ég er trúaður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hafnfirðingurinn Gylfi Þór Sigurðsson er einn af fremstu knattspyrnumönnum Íslands og sannkölluð þjóðhetja fyrir árangur sinn.

Síðustu ár hafa þó verið honum erfið. Hann var sakaður um að hafa misnotað stúlku undir lögaldri og var í raun settur á ís; missti samning sinn hjá Everton.

Sjálfur hélt Gylfi alltaf fram sakleysi sín, og nú er hann loksins laus allra mála eftir hörmungar síðustu ára.

Gylfi Þór Sigurðsson

Mannlíf fer hér yfir glæsilegan feril Gylfa.

Foreldrar hans eru þau Sigurður Aðalsteinsson og Margrét Guðmundsdóttir. Hann á einn bróður, Ólaf Má og eina systur, Fjólu Rún.

Fjóla Rún er systir Gylfa.

Gylfi þótti strax sem smápatti afar efnilegur knattspyrnumaður. Hann hóf ferilinn hjá FH, og er reyndar uppalinn FH-ingur.

- Auglýsing -

Árið 2003 gekk Gylfi í raðir Breiðabliks, en sagt hefur verið að faðir hans hafi viljað það fyrst og fremst vegna þess að í þá daga var aðstaðan hjá Breiðablik mun betri en í Kaplakrika.

Þegar Gylfi var sextán ár samdi hann við lið Reading og á árunum 2005 til 2008 lék hann með U-21 árs liði félagsins.

Árið 2008 og til ársins 2010 lék Gylfi með Reading í ensku meistaradeildinni; var lánaður í skamman tíma til Crewe Alexandra og Shrewsbury Town í neðri deildum.

- Auglýsing -

Árið 2010 fékk Gylfi stóra tækifærið er hann var keyptur til þýska úrvalsdeildarliðsins Hoffenheim og lék með félaginu í tvö ár og kom sér á kortið sem meira en bara efnilegur knattspyrnumaður.

Eftir það lék hann með Swansea City, Tottenham Hotspur, Swansea aftur og er Gylfi markahæsti leikmaður Swansea í úrvalsdeildinni frá upphafi; skoraði 34 mörk.

Árið 2017 var Gylfi seldur frá Swansea City til Everton fyrir 45 milljónir punda, og er hann enn þann dag í dag dýrasti leikmaður Everton frá upphafi.

Gylfi er þekktur fyrir aukaspyrnur sínar; hefur skorað úr flestum aukaspyrnum í ensku úrvalsdeildinni frá því hann hóf að spila þar.

Hann hóf leik með A-landsliði karla árið 2010 og sá ferill er líklega sá glæsilegasti í sögu íslenska karlalandsliðsins; hefur leitt Ísland á tvö stórmót, EM 2016 og HM 2018.

Gylfi var valinn Íþróttamaður ársins árin 2013 og 2016. Hann er markahæsti Íslendingur í ensku úrvalsdeildinni með tæp 70 mörk og einnig með flestar stoðsendingar, 50 talsins.

Líf Gylfa hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum. Faðir Gylfa, Sigurður, hefur margoft rekið fyrirtæki sín í þrot og eru gjaldþrotin um tuttugu talsins, flest ef ekki öll tengd fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Sigurður Aðalsteinsson.

Gylfi hefur sagt frá því í viðtölum að faðir hans sé skapmikill og hafi hvatt hann og nánast rekið hann áfram í að æfa á degi hverjum frá því að hann var gutti. Svona til gamans má geta þess að faðir Gylfa gengur undir gælunafninu Siggi Frekja, í Hafnarfirði, þar sem allir þekkja alla aðeins betur en annars staðar á landinu; alveg óhætt að segja að Sigurður sé mjög umdeildur.

Það hafa því ekki alltaf verið jólin hjá Gylfa og fjölskyldu.

Sárindi hafa verið í fjölskyldu hans vegna misheppnaðra fjárhagsgjörninga föður hans.

Líklegt er talið að vegna þessara fjárhagsörðugleika fjölskyldunnar, vegna allra gjaldþrotanna, hafi Gylfi alltaf verið með fæturnar á jörðinni, þrátt fyrir að hafa efnast gríðarlega á knattspyrnuferli sínum; hann þykir afar klókur og skynsamur þegar kemur að fjárfestingum og þrátt fyrir að hann hafi ungur fjárfest fyrir föður sinn í sjávarútvegi hefur hann aldrei látið einn né neinn vaða yfir sig þegar að peningum kemur.

Gylfi vann aldrei hefðbundna sumarvinnu sem unglingur, heldur lét faðir hans hann æfa allt sem viðkemur knattspyrnu á hverjum degi á meðan vinirnir voru að reita arfa í unglingavinnunni í Hafnarfirði.

Gylfi æfði sem barn, unglingur og ungur maður á hverjum degi, klukkutímum saman. Þetta skilaði sér í því að hann varð sannkallaður snillingur á sviði knattspyrnu.

Gylfi lauk grunnskólanámi en stundaði ekki framhaldsnám. Hann hefur sagt frá því að honum langi að mennta sig eftir að ferlinum lýkur, en einnig að hann sjái ekki fyrir sér að flytja alfarið til Íslands þegar hann leggur skóna á hilluna.

Gylfi stefnir á að ljúka knattspyrnuferlinum í Bandaríkjunum – spila þar í eitt eða tvö ár, og hugnast honum vel að setjast að í Bandaríkjunum til frambúðar.

Einu íslensku félögin sem Gylfi hefur æft með og leikið fyrir eru FH og Breiðablik, en hann hefur aldrei spilað deildarleik í meistaraflokki hér á landi. Hann hefur sagt frá því að þótt hann eigi góðar minningar frá þeim tíma sem hann lék með Breiðablik sé hjarta hans ávallt svarthvítt.

Alexandra Helga Ívarsdóttir.

Gylfi er kvæntur Alexöndru Helgu Ívarsdóttur, sem kjörin var Ungfrú Ísland árið 2008. Gylfi er stakur reglumaður og hefur aldrei drukkið áfengi eða neitt annarra eiturlyfja.

Gylfi er ekki mikið fyrir athygli, allavega ef miðað er við margar skærar, myndarlegar og moldríkar knattspyrnustjörnur; er lítill áhugamaður um viðtöl.

Gylfi er nokkuð trúaður og fer með bænir og í viðtali við DV árið 2018 lýsti hann þessu:

„Ég er alveg trúaður. Ég er ekki alveg á sama stalli og Emil Hallfreðsson. Ég er trúaður, ég fer ekki með bænir fyrir leiki en geri það á kvöldin.“

Óhætt er með öllu að fullyrða að Gylfi er einn besti knattspyrnumaður Íslands fyrr og síðar; hann hefur alla tíð verið rólegur, yfirvegaður og kurteis í framkomu og hreinlega fyrirmynd í alla staði. Ímynd hans hefur verið fáguð og „elegant“ og lítið verið um slúður eða orðróm um að hann tengist einhverju vafasömu.

Það kom því eins og blaut tuska framan í íslensku þjóðina að Gylfi hefði verið handtekinn nýlega grunaður um barnaníð. Þetta eru einhverjar óvæntustu og verstu fréttir sem landsmenn hafa fengið í langan tíma.

Gulldrengurinn Gylfi féll af stalli sem konungur íslenskra knattspyrnumanna, en nú er máli hans loksins lokið.

Hér má sjá helstu viðurkenningar Gylfa á ferli hans:

Leikmaður mánaðarins, enska úrvalsdeildin, mars 2012.

Leikmaður mánaðarins, enska meistaradeildin, mars 2010.

Leikmaður tímabilsins, Reading FC: 2009–10.

Leikmaður tímabilsins, Hoffenheim: 2010–11.

Knattspyrnumaður ársins, Ísland: 2010, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017.

Íþróttamaður ársins: 2013 og 2016.

Leikmaður tímabilsins, Swansea City: 2015–16 og 2016–17.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -