Miðvikudagur 17. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Skipstjórinn sem gerðist skæruliði: Páll Steingrímsson lagði nafn sitt við skrif annarra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Varla er til það mannsbarn á Íslandi í dag sem ekki hefur rekið augun í harðvítugar en næsta eðlilegar opinberar vangaveltur eftir það offors sem kunnugir segja hafa ríkt í ætluðum áróðurs- og harðlínuskrifum Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja, undanfarna mánuði sem svo reyndust að miklu leyti ritaðar af öðrum starfsmanni Samherja, Þorbirni Þórðarsyni, lögmanni og fyrrverandi fréttamanni.

Fæstir þekkja til Páls sem nú er alræmdur fyrir að vera hluti Skæruliðasveitar Samherja og hafa sett nafn sitt ítrekað við greinar og athugasemdir sem aðrir höfðu samið. Þetta varð opinbert þegar Stundin og Kjarninn birtu gögn sem fengin voru úr síma Páls. Þar kemur fram að svonefnd Skæruliðasveit Samherja skipulagði aðför að fréttamönnum og vildi hafa áhrif á kjör formanns í Blaðamannfélagi Íslands. Þá vildu skæruliðarnir, með velþóknum forstjóra Samherja, tryggja að Njáll Trausti Friðbertsson fengi ekki oddvitasæti hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi.

Sjálfur hefur Páll fullyrt að síma hans hafi verið stolið þegar hann lá fárveikur í öndunarvéla á sjúkrabeði. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur ítrekað svarið af sér þann þjófnað og segir að gögnin séu frá þriðja aðila. 

En hver er þessi Páll Steingrímsson sem hóf störf sem skipstjóri og gerðist síðar leppur yfirboðara sinna? Páll sagðist í hlaðvarpinu Sjóarinn sannfærður um að í lagi væri að taka einn daginn frá linnulausum Samherjaumfjöllunum. Þessi orð og fleiri lét skipstjórinn falla í ítalegu viðtali við Steingrím Helgu Jóhannesson nú í desember þar sem hann rekur meðal annars uppvöxt sinn á Raufarhöfn, segir frá fyrstu togaraferðinni með föður sínum, Garðari Friðgeirssyni heitnum, þá níu eða tíu ára gamall og segir sjóinn hafa fangað hug sinn strax á barnsaldri. 

Samherjaævintýrið byggir á þrjátíu ára grunni

Þorstein Má Baldvinsson ber á góma í viðtalinu og kemur meðal annars fram að forstjórinn var forðum daga jafnt hvati þess að Páll réði sig sem stýrimann á frystitogara en þó ekki fyrr en að skyldunámi loknu, gekk hart á eftir því að Páll lyki prófum hið snarasta þegar námsárið var yfirstaðið í Stýrimannaskólanum og lét sig ekki fyrr en sá síðarnefndi hafði samþykkt að taka öll þrjú lokaprófin á einum og sama deginum. Var tilvonandi stýrimanni í kjölfarið ekið upp að landgangi togarans og þar hófst þriggja áratuga ferill sem ekki sér með öllu enn fyrir endann á og Páll segir hafa haldið lífi sínu í föstum skorðum bróðurpart fullorðinsára sinna.

Þorsteinn Már helsti hvatinn að stýrimannanámi Páls skipstjóra 

Upphaf alls segir Páll í viðtali hafa verið árið 1991. „Ég fer á grásleppu með vini mínum og á þeirri vertíð fæ ég símtalið sem hefur haldið lífi mínu í föstum skorðum í þrjátíu ár. Þá hringir Þorsteinn Már í mig og spyr hvort ég vilji koma á Víði. Þá voru þeir rétt búnir að fá hann úr breytingunum í Póllandi. Sem frystitogara. Ég er þar árin 1991 til 1993 og þá er ég að brasa um borð, skipin voru öll við bryggju fyrir Sjómannadaginn. Þá kemur Þorsteinn Már til mín á bryggjunni og segir: „Þú þarft að gera svolítið fyrir mig. Þú þarft að fara í Stýrimannskólann. Ha, – segi ég og hann segir – Já, mig er farið að vanta stýrimann. Ég held að þú ættir að skoða þetta”.   

- Auglýsing -
Ætlaði að hafa það huggulegt á Íslandi í kjölfar fimmtán ára fjarveru 

Í viðtalinu kemur einnig fram að síðasta túr Páls skipstjóra á vegum Samherja ætti hann að taka um síðustu áramótin og sagðist hann þá ekki vita með vissu hvað tæki við þegar togarinn loks kæmi í land. Að eftir fimmtán ára dvöl erlendis á vegum vinnunnar yrði gott að snúa heim. 

Lítt hefur Páli sennilega grunað í desember að fáeinum mánuðum seinna yrði nafn hans á allra vitorði skömmu eftir að hann ræddi skeleggur búferlaflutninga heim eftir fimmtán ára úthald á sjó frá erlendum hafnarbökkum. 

Sjómennskan átt hug skipstjórans allt frá ellefu ára aldri 

„Ég hafði alltaf áhuga á sjónum, krakkar byrja snemma að vinna þarna á þessum slóðum,” klykkir Páll út með í upphafi viðtals og á þar við Raufarhöfn þar sem hann bjó til tvítugs. „Svo var ég að vinna hjá fyrirtæki eins og gerist á þessum stöðum, 11 eða 12 ára gamall og var að landa úr trillum,” heldur Páll áfram. “Svo lognast það fyrirtæki út af en sá sem var áður eigandi þar fer sem verkstjóri á frystihúsi í Raufarhöfn. Hann dregur sig með sér og ég ákvað í framhaldinu að fara í Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði.” 

- Auglýsing -

Sextán ára gamall fluttist Páll suður og eyddi tveimur árum í höfuðborginni, sneri svo aftur heim, tók við vinnu sem útiverkstjóri í frystihúsi og hljóp í skarðið sem háseti á togara að beiðni Valdimars heitins Þorvaldssonar, sem þá fór með framkvæmdarstjórn Jökuls. „Ég fer þarna sem háseti með minn fyrsta túr og ég held ég hafi nánast aldrei unnið launaða vinnu í landi síðan.” 

Segir íslenska vélstjóra frábæra starfskrafta og njóta virðingar erlendis

Ekki hafði Páll þó enn sagt skilið við skólabækurnar, en skipstjórinn lauk grunndeild rafiðnaða og er með lítil vélstjóraréttindi. „Ég hef dundað mér við ýmislegt meðfram því að vera á sjó. Þetta er nauðsynlegt, að stökkva í flest verk um borð, þegar maður hefur verið í erlenda hluta af Samherja þar sem margir vélstjórarnir eru ekki með sömu þekkingu og menntun og íslenskir vélstjórar. Íslenskir vélstjórar eru frábærir starfskraftar.” 

Þá segir Páll íslenska sjómenn með stýrimannapróf njóta virðingar í erlendum skipshöfnum þar sem íslensk vélstjóramenntun og slysavarnanám okkar hér sé framúrskarandi og langtum ítarlegra en þekkist í nágrannalöndum okkar. 

Mig vantar stýrimann – taktu bara þrjú próf í einu og komdu strax

Ekki fékk Páll þó að ljúka burtfararprófum úr Stýrimannaskólanum með eðlilegum hraða forðum daga, því forstjórinn gekk hart á eftir útskrift. „Hann [Þorsteinn Már] hringir í mig og spyr mig hvenær ég sé búinn í prófunum og ég átti þrjú próf eftir. Hvað hann væri að spá? Hann spyr mig þá hvort ég geti ekki tekið þrjú próf í einu á sama degi.” Páll segist hafa dregið úr orðum Þorsteins enda hafi hann haft metnað til að skila góðum einkunnum. Hann hafi þó rætt við kennarann og að lokum hafi orðið að samkomulagi að öll skyldu prófin tekin samdægurs. 

„Ég hringi svo aftur í Þorstein og segi honum að ég geti fengið þetta í gegn en að ég verði ekki búinn fyrr en 4 eða fimm þann daginn, en skipið átti að fara klukkan tvö. Hann [Þorsteinn Már] hlustar og segir svo bíddu ég hringi eftir smá. Hann hringir svo aftur og segir – Heyrðu, settu bara dótið þitt um borð. Þeir pikka þig bara upp og senda svo sódíakinn og sækja þig þegar þú ert búinn í prófunum.” 

Þreytti þrefalt lokapróf samdægurs að beiðni Þorsteins Más 

Þar með var framtíðin ráðin, Páll sættist á að þreyta þrefalt lokapróf í Stýrimannaskólanum einn og sama daginn, var sóttur af áhöfn og um borð fór hann og hefur verið á sjó síðan að upplagi Þorsteins Más, forstjóra Samherja. Staðan sem nú er komin upp hefur hins vegar engum órað fyrir í upphafi og það þrátt fyrir umdeild áróðursskrif Samherja með tilheyrandi pompi og prakt. Páll skipstjóri fer hins vegar hvetjandi orðum um slysavarnaskóla sjómanna hér á landi í viðtalinu og segir meðal annars: 

„Slysavarnir sjómanna hafa batnað síðustu ár. Menn eru meira meðvitaðir um kröfur til sjálfs síns og útgerðinnar og yfirmanna sinna í brú. Það sem mér finnst skemmtilegast eftir fimmtán ár erlendis er að ég mæti þessum sömu skoðunum t.d. í Bretlandi. Þegar menn þar sjá skírteinin þín þá færðu þetta viðmót; við vitum að það er eitthvað á bak við skírteinin þín því þú ert frá Samherja.” Því fer ekki á milli mála að Páll er stoltur af stöðu sinni hjá útgerðarfélaginu og þeirri menntun sem sjómönnum á þeirra vegum býðst. 

Vildi ekki svara hvað tæki við þegar heim til Íslands kæmi 

Þá segir Páll einnig frá því að allir skipstjórnarmenn Samherja sem starfi erlendis og jafnvel þeir sem ekki séu búsettir á Íslandi fari alltaf í íslenska slysavarnaskólann. „Það er ákveðið garantí á bak við íslensk skírteini. Það er svona pínu skrýtið hvað þessi skóli [Slysavarnaskóli sjómanna] er búinn að skapa sér gott orð og líka erlendis. Það finnst mér líka ákveðinn gæðastimpill á skólann, óháð því hvað menn segja. Þú getur skoðað þetta úr fjarlægð þó þú takir ekki tölfræðina inn í myndina. Hvert sem þú kemur, hvernig viðmótið er í Bretlandi, Þýskalandi, Póllandi, hvert sem þú kemur þegar þú flaggar þínum [íslensku] skírteinum”. 

Aðspurður sagðist Páll telja tímaleysið helsta vanda nútímans og að hann hefði séð unga menn á sjó berjast við að taka eina kríu á túrum. „Ég hef ekki verið heima í fimmtán ár,” sagði skipstjórinn nú í desember. „Nú er ég að fara að taka minn síðasta túr en ég er að hætta úti”. 

Umræddur túr Páls Steingrímssonar um síðustu áramót var til Falklandseyja en þegar spurningin var borin upp var honum ekki svaravant. 

„Veistu, ég veit ekki hvað ég er að fara að gera. Ég er að koma heim.” 

Viðtal Steingríms Helgu Jóhannessonar þar sem ferðalag þeirra Þorsteins Más forstjóra er rakið, ásamt frásögn af starfi Páls skipstjóra hjá útgerðarfélaginu Samherja til þrjátíu ára er nokkuð litríkt og fróðlegt á köflum. Viðtalið er á Spotify: Smellið HÉR

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -