Eiginmaður Áslaugar Thelmu sendir nýjum forstjóra OR tóninn.
„Í dag erum við á sextánda degi frá því að Áslaug Thelma var rekin frá ON. Ennþá hefur hún ekki fengið skýringar á því af hverjum henni var sagt upp. Framkvæmdastjóranum sem sagði henni upp hefur verið sagt upp, forstjóranum sem reyndi að hylma yfir með honum hefur verið boðið að sitja í fríi tvo mánuði allavega til að byrja með. Framtíð og framfærsla lítillar fjölskyldu sett í fullkomið óvissu á engum réttlætanlegum forsendum,“ segir Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, í nýjum pistli á Facebook-síðu sinni. Áslaug Thelma var eins og kunnugt er rekin vegna kvartana um óviðeigandi framkomu forstjóra ON, Bjarna Más Júlíussonar. Honum hefur verið vikið frá störfum og forstjóri OR, Bjarni Bjarnason, hefur stigið tímabundið til hliðar vegna málsins. Helga Jónsdóttir, sem tók við forstjórastólnum hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hún ætli að ræða við Áslaugu um hennar mál, en ekki hefur enn orðið af því, að sögn Einars og hann furðar sig á því.
„Okkur sem þykir vænt um Áslaugu og stöndum með henni í gegnum þetta fíaskó finnst það allavega hafa dottið eitthvað neðar á forgangslistann hjá nýja forstjóranum að heyra frá Áslaugu. En svo því sé haldið til haga þá hefur engin frá ON/OR talað við hana ennþá eftir að þessi atburðarás komst upp á yfirborðið og ON og OR neyddust til að fara að vinna eftir gildum sínum og loforðum,“ segir hann í pistlinum og bendir á að Áslaug Thelma hafi ekki fengið að halda starfskjörum sínum út samningsbundinn uppsagnarfrest. Þykir honum það heldur súr húmor hjá nýja forstjóranum eða þá að hún hafi bara ekki kynnt sér málið:
„Það er kannski einhverskonar svartur húmor hins nýja forstjóra eða kannski hefur hún bara í raun EKKERT kynnt sér mál Áslaugar … EN EINMITT um helgina LOKAR OR/ON símanum hennar Áslaugar þannig að nú verður spennandi sjá hvort þeim tekst að ná í hana fyrir þann tíma,“ segir Einar.
Pistil hans í heild má lesa hér: https://www.facebook.com/einarbardar
Mynd/skjáskot af Rúv