Þriðjudagur 3. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ögurstund fram undan í ferðaþjónustu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja hafa margir hverjir þegar afskrifað sumarið. Flestir þeirra sem Mannlíf hefur rætt við þessa dagana segjast geta lifað af mánuð eða tvo, með aðstoð stjórnvalda, en að svo þyngist róðurinn verulega. Þeir spá því sumir að fjölmörg fyrirtæki gætu farið í þrot. Númer hafa verið tekin af rútum og sumarstarfsfólki tilkynnt að krafta þess sé ekki þörf.

Þórir Garðarson, stjórnarformaður
Mynd / Aðsend

„Okkar áætlun gengur út á það að leggjast í híði,“ segir eigandi lítils ferðaþjónustufyrirtækis um stöðuna sem uppi er vegna COVID-19 faraldursins. Nær engir ferðamenn eru eftir á landinu og ef samtöl Mannlífs við stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja eru lýsandi fyrir greinina alla, þá eru menn nánast búnir að afskrifa sumarið. Ef þær spár rætast blasir fjöldagjaldþrot við greininni.

Mannlíf hefur undanfarna daga rætt við stóra og smáa aðila í ferðaþjónustu. Samandregið telja þeir sig flestir geta lifað apríl- og maímánuð af, með stuðningi ríkisins, en að brekkan verði afar brött ef júní, júlí og ágúst verða ónýtir. Ferðaþjónustufyrirtæki ganga því mörg hver plankann. „Það mun auðvitað ekkert vera þannig endalaust að maður geti lifað af einhverju smávegis eigin fé sem maður hefur getað safnað upp,“ segir einn þeirra sem óttast hið versta. Hann á von á því að það geti tekið hjólin sex til tólf mánuði að byrja að snúast á nýjan leik.

„Þetta var búið eftir helgina. Það er ekkert af fólki eftir. Við höfum lagt stærstum hluta okkar flota.“

Svo virðist sem flest ferðaþjónustufyrirtæki muni nýta sér úrræði stjórnvalda um hlutabætur að fullu. Í þeim felst að starfsfólkið þiggur 75 prósent atvinnuleysisbætur en vinnuveitandinn greiðir þann fjórðung sem upp á vantar, upp að ákveðnu hámarki. Á samtölum Mannlífs við stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja má heyra að þetta úrræði komi í veg fyrir ótal uppsagnir. Tveir þeirra benda þó á að til lengri tíma sé ómögulegt að greiða 25 prósent af launum starfsfólks ef ekki kemur króna í kassann.

Bílarnir teknir af númerum

Eitt af þeim úrræðum sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa gripið til er að taka hópferðabíla og aðra fyrirtækjabíla af númerum og losna þannig við kostnað af tryggingum og bifreiðagjöldum. Þetta hafa bæði stór og smá fyrirtæki gert en Mannlíf greindi einmitt frá því á vef sínum www.man.is á mánudaginn að Gray Line hefði þá þegar tekið 80 prósent flotans af númerum. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, sagði við það tækifæri að umsvif fyrirtækisins væru um eitt prósent af því sem áður var. Hann sagði að fyrirtækið yrði sennilega að reiða sig á lánardrottna til að geta staðið undir því að greiða 25 prósent af launum starfsfólks, með enga innkomu.

- Auglýsing -
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.

Fleiri fyrirtæki hafa gripið til þess ráðs að taka bíla af númerum. Þeirra á meðal er fjölskyldufyrirtækið Your Day Tours. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 og sérhæfir sig í dagsferðum. Það rekur sjö litlar rútur en rætt er við einn af eigendum fyrirtækisins í þessari umfjöllun. Sömu sögu er að segja af Reykjavík Excursions – Kynnisferðir ehf., þar sem 400 manns starfa. Um hundrað starfsmenn félagsins keyra um það bil 50 vagna fyrir Strætó bs. en önnur starfsemi liggur niðri. „Þetta var búið eftir helgina. Það er ekkert af fólki eftir. Við höfum lagt stærstum hluta okkar flota,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. Hann segir aðspurður að fyrirtækið muni nýta sér hlutabætur stjórnvalda fyrir um 300 manns.

Í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Mannlífs um afskráðar bifreiðar í eigu fyrirtækja kemur í ljós að 14 þúsund farartæki voru skráð úr umferð í byrjun mánaðarins. Gera má ráð fyrir að þessi tala hafi hækkað töluvert núna allra síðustu daga. Til samanburðar voru 13.700 bílar skráðir úr umferð í apríl í fyrra, en þess má geta að fall WOW air fyrir sléttu ári var reiðarslag fyrir ferðaþjónustuna.

Ferðalög Íslendinga geta skipt höfuðmáli

- Auglýsing -

Eitt af þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa kynnt er stafrænt gjafabréf í ferðaþjónustu innanlands. Í þetta ver ríkið hálfum öðrum milljarði. Hver íbúi á Íslandi sem náð hefur 18 ára aldri fær fimm þúsund krónur til að nota upp í kaup hjá ferðaþjónustuaðila. Þá hefur ríkið boðað mikið markaðsátak á erlendri grundu þegar rofar til í COVID-faraldrinum.

„Íslendingar munu lítið ferðast til útlanda á þessu ári. Það skiptir máli að við Íslendingar verðum duglegir að nýta okkur íslenska ferðaþjónustu.“

Þeir ferðaþjónustuaðilar sem Mannlíf hefur rætt við binda ekki miklar vonir við að Íslendingar muni flykkjast í þær ferðir sem útlendingar hafa verið duglegastir að kaupa undanfarin ár, svo sem ferð um Gullna hringinn eða að elta uppi norðurljós. Sumir benda á að þarna séu þó tækifæri og fyrirtækin þurfi að vera snjöll í að markaðssetja ferðir sem Íslendingum kunni að þykja eftirsóttar, svo sem fyrir starfsmenn fyrirtækja.

„Íslendingar munu lítið ferðast til útlanda á þessu ári. Það skiptir máli að við Íslendingar verðum duglegir að nýta okkur íslenska ferðaþjónustu,“ segir einn viðmælandi. Annar segist nú vera að leggja höfuðið í bleyti hvernig hægt sé að ná til Íslendinga. Hann gerir ekki ráð fyrir tekjum frá útlendingum næstu mánuði, svo einhverju nemi.

Tómlegt við Geysi

Mábil Gróa Másdóttir, hótelstjóri á Hótel Geysi, segir að það sé eins og að fara 20 ár aftur í tímann að horfa yfir Geysissvæðið núna. Svæðið er eitt alvinsælasta ferðamannasvæði landsins, eins og kunnugt er. Mábil segir að nú séu þar aðeins fáeinir Íslendingar á stangli. „Það er varla að maður sjái ferðamann á ferli,“ segir hún.
Hótelinu, sem hjá starfa um 50 manns, var lokað eftir að samkomubann stjórnvalda var hert í vikunni. Eigendur hótelsins reka líka veitingastaðina Geysir Glíma, Kantína og Súpa. Mábil segir að Glíma sé opin frá 10 til 17, aðallega svo að fólk geti komist á salerni, ef það heimsækir svæðið.

Sumarfólk fær enga vinnu

Nánari umfjöllun í helgarblaðinu Mannlíf.

Mábil segir aðspurð að þannig hafi hitt á að samningar við nokkuð margt starfsfólk hafi verið að renna út. Því hafi allnokkrir farið til síns heima; fólk sem hafi ætlað að hætta í mars eða apríl. „Við náðum líka að stoppa þá sem búið var að ráða fyrir sumarið,“ útskýrir hún en fleiri ferðaþjónustufyrirtæki hafa brugðið á það ráð að segja upp samningum sem þeir höfðu gert við sumarstarfsmenn. Í þeim tilvikum er uppsagnarfresturinn stuttur.

Mábil segir að útspil stjórnvalda hafi hjálpað mikið til. Hún á von á að hafa fólk í 25 prósent starfshlutfalli í apríl og maí, eins og heimild er fyrir. „Við erum búin að gera áform ef þetta heldur áfram í apríl og maí. Svo verður róðurinn þyngri því það er engin innkoma. Við verðum bara að endurmeta stöðuna þá.“ Hún bendir á að þessi staða sé uppi hjá fjölmörgum atvinnugreinum. „Það er alveg sama hvort þú horfir á stórt eða smátt fyrirtæki – já, eða mömmu þína – það eru allir í þessari stöðu.“ Hún óttast að veiran muni hafa áhrif út þetta ár og jafnvel fram á það næsta. Miklu máli skipti að viðspyrnan verði sterk.

Lestu ítarlega umfjöllun um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -