Sunnudagur 16. júní, 2024
7.8 C
Reykjavik

Partí minninganna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 10. tölublaði Gestgjafans

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að kökur og bakstur búi yfir einhverjum töfrum. Í það minnsta virðast allir elska heimabakað bakkelsi og jafnvel hörðustu töffarar af öllum kynjum lympast niður og verða auðmjúkir bara við að finna ilminn úr ofninum. Fyrir nokkrum árum var ég kennslukona í frábærum unglingaskóla, Réttarholtsskóla, þar kenndi ég meðal annars valfag sem ég kallaði kökur og kökuskreytingar. Þetta fag varð fljótt meðal þeirra vinsælustu og færri komust að en vildu. Það sem kom mér skemmtilega á óvart í fyrstu tímunum var að það voru fleiri strákar í sumum hópunum en stelpur. En ég varð þess þó fljótt áskynja að strákarnir höfðu mestan áhuga á því að baka kökuna og skella henni í sig, óskreyttri, á meðan stelpurnar voru spenntari fyrir skreytingunum og nostrinu. Vissulega voru þó undantekningar á þessu í báðar áttir. Ég velti því svolítið fyrir mér hvort þessa hegðun megi rekja til einhvers líffræðilegs munar á kynjunum eða hvort skýringin liggi hreinlega í rótum samfélagsins og gömlu hefðunum, því það var jú víst oftast konan á heimilinu sem sá um eldamennsku, bakstur og önnur heimilisstörf. En hvers vegna voru og eru þá miklu fleiri kokkar og bakarar karlar?

Þetta er spurning sem ég hef oft íhugað og sætir kynjaskiptingin þar undrun en þess ber þó að geta að konum hefur fjölgað í þessum greinum. Það er einhver þversögn í því að konur hafi átt að elda matinn heima en að karlar væru betur til þess fallnir að elda og baka á veitingastöðum. Þegar ég fór að búa fyrir um tuttugu og fimm árum, hrærði maðurinn minn til jafns við mig í pottunum og oft elduðum við saman.

Hann hlaut aftur á móti töluvert meira hrós og aðdáun fyrir … svo duglegur að elda drengurinn, enda ekki karlmannsverk. Þetta pirraði mig, jafnréttissinnann, óstjórnlega mikið, og ekki bætti úr skák þegar hann var heima með börnin og ég var spurð hvort hann væri að „passa“ … fyrir mig, sín eigin börn, dæs. En til allrar lukku hefur þetta breyst til betri vegar og það þykir sjálfsagður hlutur í dag að karlar eldi.

Ég er þó þeirrar skoðunar að konurnar séu enn í meirihluta þegar kemur að bakstrinum. Maðurinn minn hefur til dæmis bara einu sinni bakað frá því ég kynntist honum. Þá ætlaði hann að koma mér á óvart og ákvað að prófa að baka eitthvað sniðugt … sörur, já þið heyrðuð rétt, sörur! Þegar ég kom heim hafði þessi elska staðið í ströngu allan daginn og var nokkuð ánægður með sig þegar hann sýndi mér afraksturinn, fremur ólögulegar og litlar en mjög bragðgóðar sörur. Ég ætla ekkert að tala um það hvernig eldhúsið leit út, það er efni í heilan kafla en skemmst er frá því að segja að hann hefur ekki bakað síðan.

Það ættu samt eiginlega allir að baka því heimabakaðar kökur veita fólki einhverjar notalegar tilfinningar og þær vekja upp fortíðarþrána hjá mörgum. Ég á ljúfar minningar sem líða mér seint úr minni um djöflakökuna hennar ömmu, en það allra besta var samt þegar ég kom heim úr skólanum á köldum og dimmum vetrardegi með bláleitar varir, loppnar tær og rauðar kinnar og bökunarilmur mömmu tók mig í faðminn. Nú þegar okkur er gert að halda okkur heima við þá er fátt meira við hæfi en að baka og búa til einhverjar jákvæðar og góðar minningar um þessa skrítnu tíma. En nú ættu líka pabbarnir og afarnir að bretta upp ermar og brjóta á bak gamlar hefðir og taka þátt í því að búa til minningar fyrir fjölskyldumeðlimi. Kökur eru partí, partí minninganna.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Kökublað Gestgjafans er komið út – gullfallegt og stútfullt af skuggalega góðum kökum

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Eina fagtímaritið um mat og vín á Íslandi

Gestgjafinn

Tryggðu þér áskrift á 1.790 kr. á mánuði eða kauptu stakt blað á 1.890 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -