Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Pétur með ólæknandi krabbamein: „Brúðguminn á ekki langt jarðlíf framundan“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við Svanfríður höfum lifað í synd í sex ár. Okkur fannst nóg komið af því og að stundin núna væri rétt svo við giftum okkur í gærkveldi að viðstöddum 6 manns og hundinum. Það er meiri reisn yfir því að vera ekkja heldur en fyrrverandi ástkona,” skrifar Pétur Einarsson, fyrrverandi hótelstjóri og flugmálastjóri sem glímir þessa dagana við ólæknandi krabbamein. Það er engan bilbug að finna á Pétri sem stofnaði síðuna Dagbók krabbameinssjúklings. Léttleiki í bland við dauðans alvöru svífur yfir vötnum. Pétur segir meðal annars frá því þegar hann og sambýliskona hans, Svanfríður Ingvadóttir sem búa á Dalvík, ákváðu að ganga í hjónaband í síðustu viku. Pétur hafði verið útskrifaður af sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem ekki var talin von um lækningu. Og það var veisla.

„Fyrst var matarveisla sem Sindri sonur okkar undirbjó. Snilld hans á sér varla samsvörun. Okkur kom saman um að aðalréttur sem við fengum væri ekki undir 6.500 á veitingarhúsi og vorum einstaklega ánægð með þá hugsun. Giftingin sjálf var seiðandi dramatísk. Magnús Gunnarson prestur flutti ræðu sem var svo yndisleg að tárin runnu hjá viðstöddum og Svanfríður og Pétur stóðu í faðmlögum ófær um að halda aftur af tilfinningum”.

Pétur fékk lagið My way með Frank Sinatra. Hann lýsti þeirri tilfinningu að ganga í hjónavand á endstöð lífsins.

„Einkennileg tilfinning að vita að brúðguminn á ekki langt jarðlíf framundan, ef ekki gerist ómögulegt kraftaverk. Brúðkaupsveislan fór fram með miklum ágætum fram eftir nóttu. Veislan var með Symphosium sniði. En hundurinn hvarf og presturinn fór svo heldur fækkaði veislugestum. En eins og við vitum þá eru gæðin betri en magnið,” skrifar Pétur um veisluna í síðustu viku.

Hann fer þess á leit við aðra sem glíma við krabbamein að þeir segi sögu sína á síðunni Dagbók krabbameinssjúklings.

„Ég mun því draga úr skrifum mínum, en óska eftir fleiri skrifum þar sem menn, karlar og konur, segja reynslu sína hvort sem aðstandendur eða sjúklingar. Ég trúi því að öflug umræða efli skilning og þekkingu, sem svo aftur gerir það að verkum að það er sjálfsagður hlutur að tala um krabbamein og dauðann – en auðvitað er ég ekki að hvetja til þess að menn drekki sér í viðfangsefninu.Fyrst og fremst eigum við að tala um jarðlífið og hvernig við getum lifað saman í sátt og samlyndi á þessari jörð”.

- Auglýsing -

Pétur er fullkomlega æðrulaus í aðstæðum sínum.

„Dauðinn á að verða okkur eins eðlileg og fæðingin,” skrifar hann.

Hann segir að nú sé spennufall. Tíðum ferðum á sjúkrahúsið sé lokið. Fjölmörgum símtölum við lækna lokið.

- Auglýsing -

„Fjölmörgum heimsóknum barna, barnabarna, ættingja, kunningja og vina að mestu lokið. Allar þessar heimsóknir voru, af minni hálfu, túlkaðar sem hinsta kveðja, svo þettað er orðin nokkuð löng jarðarför. Ég veit orðið allt sem ég þarf að vita um sjúkdóminn. Ég hef nánast lokið öllum verkefnum sem ég taldi mig verða að ljúka fyrir dauða minn. Það er kominn friður og ró. Enginn veit hvað næstu dagar bera í skauti sér,” skrifar Pétur á síðu sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -