Þriðjudagur 3. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Ragnar segir ekki sama hvernig stolið er: „Glæpirnir finna sér annan farveg, eins og vatnið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það skipta sköpum í íslensku samfélagi hverju er stolið og hvernig því er stolið. Hann segir skattaundanskot, mútugreiðslur, umhverfisglæpi og peningaþvætti því miður sett í litríka búninga eðlilegra hversdagsviðskipta.

Ragnar gerir launaþjófnað á íslenskum vinnumarkaði að umtalsefni í nýrri færslu sinni á Facebook. Þar segir hann íslenska elítu vilja viðhalda þjófnaði svo ekki fari að ískra í hjólum atvinnulífsins. „Það er ekki sama hvernig þú stelur og hverju er stolið. Sjálftaka og snúningar innan fjármálakerfisins eru viðtekin venja. Innherjaviðskipti og vinadílar á kostnað almenningshlutafélaga eru flokkaðir sem „djöfullsins snilld“ fína fólksins enda of mikið vesen að gera veður úr slíku þegar undirfjármagnaðar rannsóknarstofnanir eða gagnslausir eftirlitsaðilar mega sín lítils gegn fjársterkum hagsmunaöflum. Fjárveitingar stjórnvalda ramma inn löggjafann til að eltast frekar við lambalæri og snúða en milljarða undanskot,“ segir Ragnar.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fjallaði einnig nýlega um launaþjófnað á vinnumakaði. Benjamín Halldór Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins brást þá ókvæða við og sakaði verkalýðsfélögin ómálefnalegan og veruleikafirrtan málflutning.

„Á meðan launum og lífeyrissparnaði er stolið af vinnandi fólki án afleiðinga getum við verið viss um að lítið muni breytast í okkar samfélagi.“

Ragnar segir aðstöðumuninn í þjóðfélaginu hrópandi þar sem fjármunaöflin eru höfundar kerfisins. „Of langt mál er að telja upp þá snúninga sem útrásarprinsarnir tóku á eftirlaunasjóðum almennings fyrir hrun, og eingöngu var sakfellt fyrir brot af þeim málum, á meðan heimilum og einstaklingum blæddi út. Sú sorglega staðreynd er að lítið sem ekkert hefur breyst og margt sem bendir til að staðan hafi versnað til muna. Spillingin og glæpirnir taka á sig önnur form og finna sér annan farveg, eins og vatnið,“ segir Ragnar og bætir við.

„Launaþjófnað verðum við að hafa óáreittan, segja sérhagsmunaöflin, sem beita sér af mikilli hörku gegn því að refsilögum verði komið yfir eitt af fjölmörgum tólum sem sérhagsmunaöflin hafa notað til að græða eða koma ábyrgðinni yfir á aðra ef braskið fer illa. Skattaundanskot, mútugreiðslur, umhverfisglæpir og peningaþvætti eru settir í litríka búninga eðlilegra hversdagsviðskipta sem elítan verður að fá að hafa fyrir sig svo ekki fari að ískra í hjólum atvinnulífsins. Á meðan launum og lífeyrissparnaði er stolið af vinnandi fólki án afleiðinga getum við verið viss um að lítið muni breytast í okkar samfélagi og munum við áfram búa við tvöfalt siðferði og tvöfalt dómskerfi þar sem skilgreiningin á því hvernig þú stelur er túlkuð eftir stétt og stöðu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -