Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Rúturnar teknar af númerum: „Þetta er mikið áfall“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gray Line ætlar ekki að segja upp starfsfólki. Stjórnarformaður fyrirtækisins er ánægður með útspil stjórnvalda. Umsvif fyrirtækisins hafa dregist saman um 99% og hópferðabílarnir hafa verið teknir af númerum.

Eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, Gray Line, hefur tekið 80 prósent af rútum sínum af númerum. Þórir Garðarsson stjórnarformaður segir í samtali við Mannlíf að umsvif félagsins séu í dag eitt prósent af því sem áður var.

Gray Line
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hjá Gray Line starfa um 120 manns. Þórir segir að ekki standi til að segja upp fólki og þar muni mikið um það útspil stjórnvalda að gefa fólki kost á greiðslu 75% launa í gegnum atvinnuleysistryggingasjóð. „Það fara allir í 25% laun hjá okkur,“ segir Þórir um stöðuna. Hann segir að þegar þriggja mánaða uppsagnarfresti væri lokið þyrfti fyrirtækið sennilega á sínu góða starfsfólki að halda á nýjan leik. „Þannig að það er ekki á stefnuskrá hjá okkur.“

„Svo förum við inn í hýðið okkar og bíðum þetta af okkur“

Þórir segir að langflestir starfsmenn Gray Line séu fastráðnir. Hann segir að fáeinar ferðir hafi ekki verið blásnar af og fyrirtækið reyni að koma til móts við þá ferðamenn sem enn séu hér á landi. „Svo förum við inn í hýðið okkar og bíðum þetta af okkur,“ segir hann um COVID-19. Þórir er bjartsýnn á góða viðspyrnu og að ferðamannastraumurinn aukist hratt um leið og það versta er yfirstaðið. Aðspurður segir hann að ferðamenn eigi i langflestum tilvikum rétt á endurgreiðslu á þeim ferðum sem bókaðar hafi verið. Hann segir að þeir séu almennt skilningsríkir vegna þeirrar stöðu sem upp sé komin.

Þórir Garðarson
Mynd / Aðsend

Þurfa lánsfé fyrir launum

Spurður hvernig Gray Line hyggist standa undir 25% af launakostnaði með aðeins 1% umsvif svarar Þórir því til að út úr því verði að finna. „Við verðum að fá fullan launakostnað í mars, apríl og maí. 50% af innkomunni fer í laun. Það þarf að vera einhver innkoma til að borga fyrir það.“ Hann nefnir að sennilega muni fyrirtækið leita að lánsfé þegar línur skýrist. Hjá því verði ekki komist.

- Auglýsing -

„Þetta er eitthvað sem enginn átti von á. Við erum búnir að taka númerin af 80% af flotanum okkar. Það munar um hverja krónu þegar svona gerist; tryggingar og bifreiðagjöld.“ Samkvæmt upplýsingum á vef fyrirtækisins á Gray Line 70 hópferðabíla.

„Þetta er eitthvað sem enginn átti von á. Við erum búnir að taka númerin af 80% af flotanum okkar. Það munar um hverja krónu þegar svona gerist; tryggingar og bifreiðagjöld.“

Þórir segir að greiðslufall erlendis, vegna ferða sem þegar hafa verið farnar, geri fyrirtækinu stjórnvsömuleiðis erfitt fyrir. Ferðabransinn sé ein stór keðja. „Reikningar sem voru á eindaga í febrúar hafa sumir hverjir ekki verið greiddir. En við erum ekkert að örvænta. Þetta er ákveðin keðja og þessi fyrirtæki úti eru líka að fá afbókanir. Þá kemur hökt á greiðsluflæðið þeirra.“ Hann segist hafa skilning á þeirri stöðu. Öll fyrirtæki séu að leita leiða til að fjármagna sig.

Gray Line
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Áfall á áfall ofan

- Auglýsing -

Þórir rifjar upp að í fyrra hafi ferðaþjónustufyrirtæki orðið fyrir miklu áfalli með falli WOW air. Þá hafi verkfallsboðun sett strik í reikninginn. „Svo kemur þetta í ár. Þetta er mikið áfall en við vonum það besta.“ Hann segist ekki hafa kynnt sér útspil stjórnvalda til hlítar en er ánægður með það sem hann hefur séð. „Þetta úrræði stjórnvalda er algjört lykilatriði.“

Spurður hvernig sumarið lítur út, svarar Þórir því til að staðan breytist ört þessa daganna. „Þetta er alltaf að ganga lengra og lengra inn í vertíðina.“ Hann bendir á að flestar sumarferðirnar séu bókaðar að vori til. Því sé skaðinn nú þegar nokkur, hvað sumarið varðar.

„Apríl og maí eru farnir. Júní er í voðalega litlum takti,“ segir Þórir þegar hann rýnir í komandi mánuði. Hann segist vonast til þess að markaðurinn taki við sér þegar það versta er yfirstaðið og bindur miklar vonir við markaðsátakið sem stjórnvöld hafa boðað.
Þórir segir jákvætt viðhorf einkennandi hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og starfsfólki þeirra, á þessum erfiðu tímum. „Það ganga allir í takt og saman erum við sterkari.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -