Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Steinunn Ólína minnist Stefáns Karls: „Ekki líður sá dagur að ég hugsi ekki til hans“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það eru tæp tvö ár síðan hann dó. Ekki líður sá dagur að ég hugsi ekki til hans, oftar en ekki er það vegna einhvers hversdagslegs sem ég veit að hann hefði fundið ástæðu til að snúa upp í grenjandi fyndið grínatriði,“ skrifar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona og ritstjóri í pistli á vef sínum, Kvennablaðinu. Þar minnist Steinunn eiginmannsins Stefáns Karls Stefánssonar leikara, sem hefði orðið 45 ára í dag, væri hann á lífi, en Stefán lést árið 2018, 43 ára að aldri eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein.

Segir Steinunn Ólína Stefán Karl hafa haft þann fágæta eiginleika að geta vaknað hvern dag eins og honum hefði verið gefið nýtt tækifæri. „Ekki skyldi dvelja andartak við hið liðna þótt illa gengi eða að hann hefði hlaupið eitthvað á sig. Stundum stappaði þessi eiginleiki hans nærri ábyrgðarleysi,“ skrifar hún, „en ég veit að nákvæmlega þessi hæfileiki til að hugsa alltaf fram á við og berja sig ekki niður fyrir mistök eða fljótfærni var líka hans gæfa. Hann áorkaði svo miklu á stuttum tíma, eilíflega áhugasamur um að skapa eitthvað nýtt og spennandi með þessar góðu gáfur og einstaklega frumlegu og frjóu hugsun í farteskinu.“

„Að elska og vera elskaður er það eina sem skiptir máli. Allt annað er drasl.“

Segist henni verða þungt fyrir brjóstinu þegar hún um baráttu Stefáns við gallgangakrabbann sem dregur nær alla sem fá þann dóm til dauða, henni hrylli við þeirri líkamlegu þjáningu sem hann þurfti að þola í veikindum sínum. „Þar stendur upp úr meðlíðan með honum og hans óuppfylltu draumum fremur en sjálfsvorkunn. Ég hef ekkert leyfi til að vorkenna sjálfri mér, ég fékk að lifa áfram og ég hef fyrir börnum að sjá.

Mín sátt nú, ef það er hægt að kalla það sátt, felst held ég í því að ég veit að ég lagði mig fram í ómögulegum aðstæðum, ég gerði það sem ég gat til að vera honum góð á erfiðum stundum, lét allt eftir honum og lagði nánast allt annað til hliðar. Það gerði ég ekki bara hans vegna heldur ekki síður mín vegna. Brjóstvitið sagði mér að ég gæti ekki lifað áfram með sjálfri mér og börnunum okkar og orðið framar til nokkurs gagns ef ég gerði ekki veikindi hans og baráttu að algjöru aðalatriði.“

Steinunn Ólína kveðst ekki sjá eftir því, engu hafi hún áorkað um daganna sem er lærdómsríkara og gjöfulla. „Og ef einhver velkist í vafa hvers vegna við yfirleitt fæðumst þá er svarið: Við erum hér til að vera eins góð og við getum við þá sem þurfa á okkur að halda. Ég hef sagt þetta áður. Að elska og vera elskaður er það eina sem skiptir máli. Allt annað er drasl.“

Hvetur hún fólk til að fá sér súkkulaðiköku. Í tilefni af fæðingardegi Stefáns ætli fjölskyldan að baka „Betty Fucker“ súkkulaðiköku sem hún geti ekki gert eins vel og hann þrátt fyrir að fara eftir skotheldum leiðbeiningum á pakkanum. „Hún verður bökuð og við fáum okkur sneið og drekkum kalda mjólk með.“

- Auglýsing -

Hægt er að lesa pistilinn í heild sinni á vef Kvennablaðsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -