Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Svona líta fangelsi út víðs vegar um heiminn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Talið er að rúmar tíu milljónir manna sitji fyrir aftan lás og slá í fangelsum um allan heim. Fangelsin eru auðvitað jafn misjöfn og þau eru mörg, en vefsíðan Bored Panda hefur tekið saman svipmyndir af fangelsum víðs vegar um heiminn.

Hér fyrir neðan er hægt að fræðast um nokkur þeirra, en grein Bored Panda í heild sinni má lesa hér.

Kvennafangelsið El Buen Pastor, Bógóta, Kólumbía

Klefar El Buen Pastor voru hannaðir til að rýma tvo fanga hverju sinni en hýsa nú tíu til tuttugu konur að staðaldri. Mikil spilling og ofbeldi er innan veggja fangelsisins en forsvarsmenn þess reyna árlega að gera staðinn mannúðlegri með því að halda fegurðarsamkeppni og skrúðgöngu.

Bois D’arcy-fangelsið, Yvelines, Frakklandi

Í þessu fangelsi eru glæpamenn sem þurfa að afplána allt að eins árs fangelsisvist.

- Auglýsing -

Rikers Island-fangelsið, New York, Bandaríkin

Þetta fangelsið var kosið eitt af þeim tíu verstu í Bandaríkjunum af tímaritinu Mother Jones. Forsvarsmenn fangelsisins hafa oft verið gagnrýndir fyrir meðferð á föngum og blossaði upp mikil reiði árið 2015 þegar táningurinn Kalief Browder svifti sig lífi. Kalief hafði eytt þremur árum í fangelsinu að bíða eftir réttarhöldum vegna þess að hann var ákærður fyrir að stela bakpoka. Á þessu ári er tala fanga innan veggja Rikers Island undir níu þúsund í fyrsta sinn í 25 ár og það stendur til að loka fangelsinu í nánustu framtíð.

Evin-fangelsið, Tehran, Íran

Evin-fangelsið er þekkt fyrir að vera pyntingarmiðstöð þar sem fjölmargir fangar hafa látið lífið, þó írönsk stjórnvöld hafa aldrei viljað viðurkenna það. Alltof margir fangar eru í fangelsinu, hreinlæti er ábótavant og engin loftkæling er til staðar, en á sumrin getur hitinn farið upp í 45°C. Maturinn er ekkert til að hrópa húrra fyrir og fá fangar hann af skornum skammti. Til að bæta gráu ofan á svart mega fangar ekki hafa neitt samband við umheiminn og eru fjölskylduheimsóknir og símtöl bönnuð.

- Auglýsing -

Maula-fangelsið, Lilongwe, Malaví

Tæplega tvö hundruð manns var troðið inn í klefa fyrir sexíu manneskjur árið 2015 sem lýsir best ástandinu í fangelsinu. Eitt salerni er fyrir hverja 120 fanga og einn vatnskrani fyrir hverja 900 fanga. Þá fá fangar aðeins að borða einu sinni á dag. Hins vegar er lagt mikil áhersla á íþróttir og er karlmönnum heimilt að spila knattspyrnu en kvenmönnum körfubolta.

Champ-Dollon-fangelsið, Genf, Sviss

Þetta fangelsi var opnað árið 1977 og þjónar þeim tilgangi að hýsa fanga á meðan þeir bíða örlaga sinna. Fjöldi fanga fer sívaxandi sem hefur í för með sér ýmis vandamál. Árið 2010 voru fangar af 115 mismunandi þjóðernum í fangelsinu og aðeins 7,2 prósent fanganna voru Svisslendingar.

Borgaralega fangelsið á Haítí, Archaie, Haítí

Fangelsið er í strandarbæ en þekkt fyrir mannmergðina. 174 fangar sluppu úr fangelsinu árið 2016 eftir uppþot þar sem einn fangavörður lést og margir slösuðust.

Landsberg-fangelsið, Landsberg Am Lech, Þýskaland

Þetta er fangelsið þar sem Adolf Hitler skrifaði Mein Kampf og þar sem 278 nasistar voru teknir af lífi fyrir stríðsglæpi. Í dag eru aðstæður mun betri í fangelsinu og er menntun í hávegum höfð. Þannig býður fangelsið upp á 36 námsáfanga, svo sem í bakstri, list, smíði og múri.

Quezon City-fangelsið, Quezon City, Filippseyjar

Þetta fangelsi er staðsett í Manila, höfuðborg Filippseyja, og daglega er háð barátta um pláss, vatn og mat. Um 160 til 200 föngum er troðið inn í klefa sem hannaðir eru fyrir tuttugu fanga. Að auki skiptast mennirnir á að sofa á hörðu steypugólfi undir berum himni, í tröppum, undir rúmum og í hengirúmum sem búin eru til úr gömlum teppum.

Las Colinas-fangelsið, Santee, Kalifornía, Bandaríkin

Þetta er fyrsta fangelsi sinnar tegundar í Bandaríkjunum þar sem umhverfis- og atferlissálfræði er notuð til að bæta hegðun fanga og starfsmanna.

Aranjuez-fangelsið, Aranjuez, Spánn

Í Aranjuez-fangelsinu fá foreldrar og börn að dvelja með fjölskyldumeðliminum sem er á bak við lás og slá. Allt umhverfið er hannað til að börn uppgötvi ekki að foreldri þeirra sé fangi.

Bastøy-fangelsið, Horten, Noregur

Fangelsið er stærsta fangelsið í Noregi með litla öryggisgæslu. Fangelsinu er skipt í áttatíu byggingar, strandarsvæði, fótboltavöll og skóg svo fátt eitt sé nefnt. Þá er einnig verslun, bókabúð, kirkja, skóli og viti á svæðinu. Sumir fanganna eru nauðgarar og morðingjar og hefur fangelsið verið gagnrýnt fyrir að vera of kósí. Þrátt fyrir frábærar aðstæður brjóta fangar sem losna úr fangelsinu síður af sér en fangar úr öðrum fangelsum í Evrópu.

Luzira-fangelsið, Kampala, Úganda

Hér fá fangar mikla ábyrgð og þurfa að rækta sinn eiginn mat og matreiða fyrir hina fangana. Hvatt er til þess að fangar mennti sig og er lítið um árekstra á milli fanga.

Kvennafangelsið í San Diego, Cartagena, Kólumbía

Fangarnir fá smjörþef af frelsinu á hverju kvöldi þegar konurnar breytast í kokka, gengilbeinur og uppvaskara á veitingastaðnum Interno sem opinn er í fangelsinu. Konur í fangelsinu eru á bak við lás og slá fyrir glæpi á borð við þjófnað, eiturlyfjasmygl og fjárkúgun.

Norgerhaven-fangelsið, Veenhuizen, Holland

Fangar fá rúm, húsgögn, ísskáp og sjónvarp í klefunum sínum, sem og einkabaðherbergi. Glæpatíðni í Hollandi er svo lág að ekki tókst að fylla fangelsið fyrir nokkrum árum. Því gerðu Hollendingar samning við Noreg um að vista fanga í Norgerhaven-fangelsinu árið 2015 og sá samningur stendur enn.

Black Dolphin-fangelsið, Sol-Iletsk, Rússland

Þetta fangelsi er heimsfrægt og búa fangar í raun í klefa innan klefa og eru undir eftirliti allan sólarhringinn. Hér búa margir af alræmdustu glæpamönnum Rússlands, þar á meðal raðmorðingjar, mannætur og hryðjuverkamenn. National Geographic gerði heimildarmynd um fangelsið fyrir nokkru síðan. Í henni sagði fangavörður að eina leiðin til að sleppa úr fangelsinu væri að deyja. Ef reiknuð eru saman öll morð sem fangarnir hafa framið hafa þeir drepið um 3500 manns. Það er að meðaltali fimm morð per fanga.

Onomichi-fangelsið, Onomichi, Japan

Þetta er fangelsi fyrir eldri borgara, en aldraði fangar verða sífellt fleiri í Japan.

HMP Addiewell-fangelsið, Lothian, Skotland

Mikil áhersla er lögð á það í þessu fangelsi að fangar læri af brotum sínum og hvað varð til þess að þeir enduðu í fangelsi. Þetta gera fangarnir í gegnum ýmislegt, svo sem menntun og vinnu. Þá er mikil áhersla lögð á að fangar haldi góðum tengslum við fjölskyldu sína og styrki þau bönd innan veggja fangelsisins.

Penal De Ciudad Barrios-fangelsið, Ciudad Barrios, San Miguel, El Salvador

Fangaklefarnir eru agnarsmáir en hýsa vanalega meira en þrjátíu fanga. Klefarnir voru upphaflega hannaðir fyrir fólk í gæsluvarðhaldi í þrjá sólarhringa en margir fangar eyða meira en ári í þeim. Fangar eyða dögunum í að rífa fötin sín í tætlur til að búa til hengirúm. Þeir sofa síðan með því að stafla sér hver ofan á annan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -