Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

„Þá gilti að þekkja konu, sem þekkti aðra konu og svo framvegis“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrirlesturinn Íslenska lesbían verður í Tjarnarbíói í dag milli 17 og 19, í tengslum við Hinsegin daga, þar sem spjallað verður um upphafsár Samtakanna ’78 frá sjónarhóli lesbía en þær voru teljandi á fingrum annarrar handar á fyrstu árunum. Hanna María Karlsdóttir rifjar upp fámennið og fordómana hér áður fyrr en Lana Kolbrún Eddudóttir nefnir spjallið sitt „Kona sem þekkir konu, sem þekkir konu: Tengslanet níunda áratugarins.“

Lana Kolbrún var þrettán ára þegar Samtökin ’78 voru stofnuð og hefur eftir heimildum að konurnar hafi verið afar fáar fyrst um sinn. „Það má fastlega reikna með því að margar af eldri kynslóðum hafi verið búnar að flýja land, hafi þær á annað borð komið úr felum. Íslenskar lesbíur bjuggu gjarnan í gömlu höfuðborginni okkar, Kaupmannahöfn, og fluttu líka til fyrirheitnu borgarinnar San Francisco. Þegar ég gekk í félagið 1987 voru ýmsar konur komnar á vettvang og hlutverk kvenna í félaginu jókst mjög á næstu 10 árum, þar af urðu þrjár konur formenn. Ekki veitti af vöskum konum í félagsstarfið því baráttan gegn alnæmi kostaði okkur öll mikið þrek.“

Lana Kolbrún Eddudóttir sagnfræðinemi. Mynd/Dagur Gunnarsson

Hún segir að lesbíur hafi átt nokkuð auðvelt með að „dyljast meðal almennings“, ef svo má segja. „En það var býsna erfitt og þurfti að fara allskonar krókaleiðir til að kynnast öðrum konum á þessum árum. Vissulega hjálpaði félagsmiðstöðin á Lindargötu 49 mikið en samkvæmi í heimahúsum voru lengi vel einn helsti vettvangur félagslífs lesbía á Íslandi. Og þá gilti að þekkja konu, sem þekkti aðra konu og svo framvegis.

„En það var býsna erfitt og þurfti að fara allskonar krókaleiðir til að kynnast öðrum konum á þessum árum.“

Fordómar gegn lesbíum birtust á vinnustöðum, athugasemdum við klæðaburð og hár, meðal leigusala sem vildu ekki leigja samkynhneigðum, á skemmtistöðum þar sem okkur var gjarnan fleygt út fyrir að kyssast og dansa og síðast en ekki síst innan fjölskyldunnar. Þar urðu margir fyrir þungum árásum og djúpum sárum sem oftar en ekki leiddu til þess að fólk sleit algjörlega samskiptum við blóðfjölskyldur sínar. Ég vona heitt og innilega að lesbíur dagsins í dag þurfi ekki að þola sama mótlæti og við eldri kynslóðirnar,“ segir Lana Kolbrún og hvetur fólk til að mæta í dag.

„Það verður hægt að drekka kaffisopa eða hvítvínsglas, hlusta á okkur Hönnu Maríu og bæta eigin sögum í safnið í spjallinu á eftir. Viðburðurinn fer fram á íslensku, ókeypis inn og öll velkomin.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -