Þegar kemur að kvikmyndum er Þórir Snær Sigurðarson hafsjór af fróðleik. Mannlíf kom því ekki að tómum kofa þegar Þórir var beðinn um að nefna ofmetnustu og vantmetnustu mynd allra tíma.
Die Hard 1
Die Hard 1 (1998) er meðal vinsælustu hasarmynda allra tíma. Þó fyrirfinnast nokkrir sem þykir lítið til hennar koma og er ég meðal þeirra. Í myndinni reynir John McClane, lögreglumaður í New York, að bjarga gíslum úr klóm hryðjuverkamanna í jólaboði í Nakatomi Plaza. Die Hard átti vissulega sinn þátt í þróun hasarmynda á gósentíð þeirra á níunda áratugnum, en þar sem svo margar myndir hafa síðan verið byggðar á svipaðri hugmynd hverfur Die Hard oft inn í fjölda miðlungsheppnaðra hasarmynda. Myndin er að nokkru leyti ótrúverðug, atburðarásin hæg og söguþráður heldur þunnur. Leikararnir gera þó það besta mögulega úr því sem þeir hafa úr að moða. Bruce Willis og James Shigeta eru þeir sem helst standa upp úr.
The Pink Panther 2
Endurgerðir hinna sígildu gamanmynda um lögreglumanninn Jacques Clouseau, þar sem Steve Martin leikur aðalhlutverkið, fengu ekki sérlega góða dóma. Þó þykir mér meira í þær varið en gagnrýnendum þótti á sínum tíma. Í annarri mynd þessarrar nýrri myndaraðar gengur Clouseau til liðs við alþjóðlega sveit einkaspæjara, sem fá það verkefni að stöðva alræmdan þjóf sem sérhæfir sig í því að stela sögufrægum munum.
https://youtu.be/_bKw1XfJppI
Auk Steve kemur fjöldi þekktra leikara fram í myndinni, svo sem John Cleese og Andy Garcia. Myndum eins og þessari er auðvitað ekki ætlað að marka tímamót í kvikmyndasögunni, heldur er hún fyrst og fremst skemmtileg. Sagan er hjartnæm og falleg, sem gefur henni meira vægi. Steve Martin kemst þó ekki með tærnar þar sem Peter heitinn Sellers hafði hælana.