Sunnudagur 16. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Vann pottinn í póker lífsins með eintóma hunda á hendi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngleikurinn Níu líf, sem byggir á lífshlaupi Bubba Morthens, verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu 13. mars. Þetta er risasýning á allan hátt og um 60 manns sem koma að hverri sýningu, leikarar, dansarar, kór, sviðsfólk, tæknifólk og fleiri. Sjálfur kom Bubbi ekkert að handritsskrifum eða vali á tónlist en segir að það sé bæði spennandi og óþægileg upplifun að sjá atburði lífs síns svona utan frá og það hafi orðið til þess að hann sjái ýmislegt í nýju ljósi. Eiginkona hans, Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, kannist hins vegar ekkert við þennan mann sem birtist í verkinu.

 

„Þetta var bara hégómleiki af minni hálfu,“ segir Bubbi glottandi þegar ég spyr hvað hafi ráðið því að hann ákvað að gefa samþykki fyrir uppfærslunni. „Hégóminn er harður húsbóndi og hann var líka aðalástæðan fyrir því að ég ákvað strax í upphafi að vera ekkert með puttana í þessu. Ég vissi að þá færi ég að reyna að fegra myndina og láta mig líta sem best út. Það hefði aldrei gengið. Það eina sem ég bað um er að þetta yrði alvöru, mér yrði ekki hlíft á neinn hátt. Ég hef farið á nokkur rennsli á sýningunni og þar er ég bara áhorfandi úti í sal. Það sem birtist á sviðinu er alfarið sköpun Ólafs Egilssonar, sem hefur lagst í gríðarlegar rannsóknir á lífi mínu fyrir þetta verk. Hann tók nokkur viðtöl við mig og sat síðan á Þjóðarbókhlöðunni vikum saman og pældi sig í gegnum þessi þúsund viðtöl eða svo sem hafa verið tekin við mig í gegnum tíðina til að fá sem gleggsta mynd af mér.“

„Ég hélt að þegar tónlistin mín kæmi út og ég yrði frægur þá myndi ég losna við vanlíðanina og verða hamingjusamur. En það breyttist bara ekki neitt þegar það gerðist.“

Eiginkonan kannast ekki við þennan mann

En er það ekkert skrýtin tilfinning að horfa á sjálfan sig sem persónu í leikverki?

„Jú, það er mjög skrýtið,“ segir Bubbi hugsi. „Ég horfi á alla þessa Bubba sem birtast þarna á sviðinu og suma þeirra þekki ég mjög vel, en aðra kannast ég lítið við en man þó eftir og veit að þeir eru alveg jafnsannir og þeir sem ég er ánægður með. Mér finnst þessi Bubbi stundum óbærilega kjánalegur og það er óþægilegt að sjá hvað hann er oft varnarlaus og auðsæranlegur. Það tekur á en er líka spennandi og það eru ýmsir atburðir úr lífi mínu sem ég sé frá öðru sjónarhorni en áður eftir að hafa horft á verkið. Ég er ánægður með það. En þetta er auðvitað leiksýning, túlkun og endursögn, ekki heilagur sannleikur, og ef áhorfendur ganga út úr salnum með þá tilfinningu að nú viti þeir allt um það hvernig líf mitt hafi verið eru þeir á villigötum.“

Hefur eitthvað af fólkinu þínu séð sýninguna? Hvað finnst því um þetta?

- Auglýsing -

„Tolli bróðir las handritið og sagði að þetta yrði æðislegt,“ segir Bubbi og hljómar dálítið hissa. „Hrafnhildur eiginkona mín las handritið líka, lokaði því, leit á mig og sagði: „Ég þekki ekki þennan mann. Ég hef aldrei hitt hann.“ Sem er skiljanlegt. Ég er búinn að vera edrú í tuttugu og fjögur ár og hún hefur aldrei þekkt mig öðruvísi.“

„Svo er talsmaður þessara erlendu peningaafla sem koma frá Noregi fyrrverandi forseti Alþingis sem hefur beinan aðgang að öllum stjórnmálamönnum á hægri og vinstri vængnum. Auðvitað gerir það mann reiðan,“ segir Bubbi, þegar talið berst að laxeldi. Mynd / Hallur Karlsson

„Konurnar í lífi mínu þurfa engu að kvíða“

Hefurðu þá breyst svona mikið eftir að þú varðst edrú?

- Auglýsing -

„Já, ég hef breyst mjög mikið,“ segir Bubbi ákveðinn. „Ég hef unnið mikið í sjálfum mér til að verða heill og ná bata, það er margra ára vinna, tekur kannski alla ævina. Ég var svo skemmdur. Æskan var erfið, þótt hún væri líka yndisleg og ég fengi gott atlæti. Ég var bráðger, var orðinn fluglæs þegar ég byrjaði í skóla sex ára gamall, en smátt og smátt fór að halla á ógæfuhliðina. Ég ólst upp við alkóhólisma, sá föður minn beita móður mína ofbeldi, sem var gríðarlegt áfall, og var svo misnotaður kynferðislega á mjög viðkvæmum aldri. Ég vann aldrei neitt í þessu, tróð þessu bara öllu niður í undirmeðvitundina, var alltaf reiður og hræddur og í vörn. Hrafnhildur þekkir ekki þann mann og í verkinu er lögð mikil áhersla á æskuna og ungdómsárin og árin fram að edrúmennsku, en þó er stiklað á stóru fram á daginn í dag. Hún kemur auðvitað vel út úr þessu og aðrar konur í lífi mínu sem koma við sögu í verkinu þurfa ekki að kvíða neinu. Þær birtast allar sem mun sterkari og þroskaðri einstaklingar en Bubbi.“

Voru þær hafðar eitthvað með í ráðum þegar verið var að skrifa verkið?

„Nei, ertu galin? Það hefði bara orðið eins og í pólitíkinni; endalaus þöggun,“ segir Bubbi og rekur upp hláturroku. „En ég held þær verði sáttar.“

„Ég ólst upp við alkóhólisma, sá föður minn beita móður mína ofbeldi, sem var gríðarlegt áfall, og var svo misnotaður kynferðislega á mjög viðkvæmum aldri. Ég vann aldrei neitt í þessu, tróð þessu bara öllu niður í undirmeðvitundina, var alltaf reiður og hræddur og í vörn.“

Skrápurinn aldrei svo harður að vond ummæli stingi ekki

Ég hjó eftir því að þú sagðir áðan að það væri óþægilegt að sjá hvað ungi Bubbi hefði verið varnarlaus og auðsæranlegur, er það liðin tíð? Ertu kominn með harðan skráp eftir fjörutíu ár í sviðsljósinu?

„Nei, það er ég ekki,“ segir Bubbi án þess að hika. „Ég held að fólk sem segist vera það sé að ljúga, það er algjört kjaftæði. Maður lærir að brynja sig fyrir því að einhverju leyti að fólk segi eitthvað ljótt um mann, það fylgir því að vera opinber persóna, en það stingur mann alltaf, að halda öðru fram er sjálfsblekking. Ég sé stundum á samfélagsmiðlunum að einhver segir að honum eða henni finnist Bubbi ömurlegur og þoli hann ekki og það kemur alltaf við mig. Ég er hættur að láta það særa mig og missi yfirleitt ekki svefn yfir því, eins og ég gerði stundum í gamla daga en það síast inn og hefur áhrif, það er ekki hægt að neita því. Ég reyni að tækla það með því að hugsa að þessari manneskju líði eitthvað illa með sjálfa sig og hafi þörf fyrir að taka það út á öðrum. Ég þekki það, ég var svona sjálfur. Alltaf með kjaft og sagði alveg hræðilega hluti við og um fólk vegna þess hvað mér leið sjálfum illa. Ég er alveg innilega þakklátur fyrir að Netið var ekki komið á níunda áratug síðustu aldar. Það væri hræðilegt ef þetta hefði allt saman verið skráð einhvers staðar á Netinu.“

Þótt Bubbi sé búinn að vera fjörutíu ár í sviðsljósinu segist hann ekki enn vera kominn með harðan skráp. „Maður lærir að brynja sig fyrir því að einhverju leyti að fólk segi eitthvað ljótt um mann, það fylgir því að vera opinber persóna, en það stingur mann alltaf, að halda öðru fram er sjálfsblekking,“ segir hann.
Mynd / Hallur Karlsson

Væri löngu orðinn þingmaður ef áhuginn væri fyrir hendi

En þú ert nú sjálfur ófeiminn við að viðra skoðanir þínar á mönnum og málefnum á Netinu, ert að lenda í deilum um laxeldi og álver og guð má vita hvað og skefur ekkert utan af því hvað þér finnst. Sérðu einhvern tíma eftir því?

„Nei, ég hef sterkar skoðanir á ýmsum málum og þori alveg að tjá þær,“ segir Bubbi. „Sérstaklega á loftslags- og landverndarmálum. Og, já, á laxeldi. Margir halda að ég sé á móti því vegna þess að ég er stangveiðimaður en það er alls ekki ástæðan. Ég er á móti því að erlend stórfyrirtæki komi hingað og kaupi upp heilu firðina, borgi enga skatta og fari með allan gróðann úr landi. Og allt er það varið með því að einhverjir fái atvinnu. Nú eru þessi fyrirtæki farin að koma með sláturskip, moka upp úr fjörðunum og sigla burt svo það kemur enginn Íslendingur neitt að vinnslu fisksins. Það er bara alveg óásættanlegt. Og svo er talsmaður þessara erlendu peningaafla sem koma frá Noregi fyrrverandi forseti Alþingis sem hefur beinan aðgang að öllum stjórnmálamönnum á hægri og vinstri vængnum. Auðvitað gerir það mann reiðan. Svo er talað um að hér sé engin spilling eins og spilling felist bara í því að einhver komi með peninga í brúnum bréfpoka og múti einhverjum til að koma sínum málum fram eins og í gömlum bíómyndum. Spillingin hér felst í frændhygli og vinavæðingu og alls kyns makki á bak við tjöldin. Það er óþolandi.“

Það er auðheyrt að þetta er Bubba hjartans mál eins og fleiri samfélagsmálefni, hefur honum aldrei dottið í hug að fara út í pólitík?

„Nei, ef ég hefði viljað verða þingmaður væri ég löngu orðinn það. Ef ég ætla mér eitthvað þá framkvæmi ég það,“ segir hann og það liggur við að það hnussi í honum yfir þessari heimskulegu spurningu. „Ég held ég hafi bara ekki þá eiginleika sem þarf að hafa til að geta verið í pólitík. Bjarni Benediktsson hitti naglann á höfuðið um daginn þegar hann sagði það hafa kostað sig blóð, svita og tár að komast til valda. Það er það sem til þarf og markmiðið er einmitt alltaf að komast til valda, það verður einhvers konar fíkn sem þarf að fóðra með öllum ráðum eins og aðra fíkn. Ég er ekkert að dæma fólk fyrir það, en ég hef ekki þessa fíkn og langar ekkert í völd þótt ég hafi áhuga á pólitík. Við erum öll pólitísk, líka þeir sem segjast engan áhuga hafa á pólitík, en að gera stjórnmál að starfsferli og völd að markmiði er ekki eitthvað sem vekur áhuga minn eða samræmist eðli mínu. Mín áhugasvið liggja allt annars staðar.“

„Mér finnst þessi Bubbi stundum óbærilega kjánalegur og það er óþægilegt að sjá hvað hann er oft varnarlaus og auðsæranlegur.“

Faldi vandlega að ljóðin fjölluðu um eigin reynslu

Talandi um áhugasviðin, eftir að hafa verið einn mest áberandi og vinsælasti tónlistarmaður landsins í áratugi sendi Bubbi frá sér ljóðabókina Öskraðu gat á myrkrið, fyrir nokkrum árum og nú eru ljóðabækur hans orðnar fjórar. Hvernig stóð á því að hann fór inn á þá braut eftir áratuga textasmíð við lögin sín og er mikill munur á því að semja ljóð eða dægurlagatexta?

„Já, það er allt annað,“ segir hann ákveðinn. „Prósaljóð gefa manni meira frelsi, aðra nálgun og oft aðra sýn á yrkisefnin. Ljóð hafa alltaf fylgt mér og ég les óskaplega mikið af þeim en þessi skrif mín byrjuðu samt reyndar alls ekki sem tilraun til að yrkja ljóð. Mig langaði að skrifa ævisögu mína með mínum eigin orðum og var búinn að gera nokkrar tilraunir til þess en komst aldrei lengra en svona þrjátíu síður. Ég fann ekki rétta formið, náði einhvern veginn ekki utan um efnið með því móti. Þess vegna skrifaði ég Öskraðu gat á myrkrið, þar sem ég er að fjalla um tímann minn á Vogi milli tveggja heima, sendi Silju Aðalsteinsdóttur, fóstru minni, síðan ljóðin og fékk þau ummæli til baka frá henni að þetta væru frábær ljóð. Ég varð eiginlega mjög hissa, en líka mjög glaður.

Þannig byrjaði þetta nú og þar sem ég átti líka alls kyns textabrot um vertíðarárin og vinnuna í slorinu fór ég að vinna ljóð upp úr þeim og úr varð bókin Hreistur, sem fjallar um þá reynslu. Það erfiðasta sem ég hef skrifað var samt ljóðabókin Rof, þar sem ég er að vinna með þá reynslu að hafa verið misnotaður kynferðislega og annað ofbeldi sem ég hef upplifað. Ég faldi það eins og ég mögulega gat að ég væri að fjalla um eigin reynslu. Þú hefðir þurft að vera mjög fær sálfræðingur eða óskaplega mikill mannþekkjari til að sjá að ég var að tala um sjálfan mig, ekki einhverja krakka úti í bæ. Ég held að vinnan við þá bók sé það erfiðasta sem ég hef gert en það hjálpaði mér óskaplega mikið að koma þessu frá mér og var stór þáttur í því að verða heil manneskja. Á síðasta ári kom svo ljóðabókin Velkomin, sem fjallar um viðhorfið til flóttamanna og meðferðina á þeim. Ég veit ekki alveg hvaða bók kemur næst, er með tvær ljóðabækur í vinnslu í augnablikinu. Önnur þeirra fjallar um látna íslenska tónlistarmenn og heitir Nokkrar bláar nótur, en ég ætla ekkert að flýta mér að gefa hana út, mig langar að liggja meira yfir efninu og kafa dýpra.“

„Svo er talsmaður þessara erlendu peningaafla sem koma frá Noregi fyrrverandi forseti Alþingis sem hefur beinan aðgang að öllum stjórnmálamönnum á hægri og vinstri vængnum. Auðvitað gerir það mann reiðan,“ segir Bubbi, þegar talið berst að laxeldi.
Mynd / Hallur Karlsson

Vissi alltaf að hann yrði frægur maður á Íslandi

Þig hefur aldrei langað til að hætta í tónlistinni og snúa þér alfarið að skriftunum?

„Nei, aldrei. Þegar ég var lítill langaði mig að reyndar að verða þrennt þegar ég yrði stór; tónlistarmaður, rithöfundur eða fornleifafræðingur. Ég hef enn þá gríðarlegan og nördískan áhuga á fornleifafræði og er alltaf að lesa einhverja texta um hana, tölvan mín er líka troðfull af alls kyns textabrotum en ég vissi að tónlistin var gjöf sem mér var gefin og að ég ætti að helga mig henni. Ég vissi alltaf, alveg frá því ég var strákur, að ég yrði tónlistarmaður og frægur maður á Íslandi. Það var enginn vafi á því í mínum huga. Ég var búinn að semja allan Ísbjarnarblús tuttugu og eins árs og taka plötuna upp tuttugu og þriggja ára. Ég ætlaði að fylgja fordæmi Bob Dylans og gefa út fyrstu plötuna tuttugu og þriggja ára en ég átti aldrei peninga til að gera hana. Þess vegna var ég orðinn tuttugu og fjögurra ára þegar hún kom út og ég var alveg eyðilagður að vera svona seinn með hana, fannst ég vera alveg að falla á tíma,“ segir Bubbi og rekur upp eina af sínum frægu hláturrokum. „Ég hélt að þegar tónlistin mín kæmi út og ég yrði frægur þá myndi ég losna við vanlíðanina og verða hamingjusamur. En það breyttist bara ekki neitt þegar það gerðist. Mér leið alveg jafnilla innra með mér þótt mér fyndist æðislegt að sjá plötuna mína í búðargluggum og fá stórkostlega jákvæðan „loksins, loksins“ dóm um hana eftir Halldór Inga á heilli opnu í Morgunblaðinu sem endaði með þeim orðum að þessi tónlistarmaður ætti örugglega eftir að láta til sín taka í íslenska tónlistarheiminum. Sársaukinn, reiðin og vanmátturinn var samt enn þá alveg jafnsterkur og mér leið aldrei vel nema ég deyfði mig með kannabis eða kókaíni. Ég man að þegar ég reykti kannabis í fyrsta sinn þá hugsaði ég; vá ég ætla alltaf að vera í þessari vímu og það sama gerðist þegar ég prófaði kókaín fyrst. Það var eina ástandið sem mér leið þolanlega í og þótt ég færi nærri því að óverdósa í fyrsta sinn sem ég tók kók hugsaði ég strax þegar ég vaknaði; þetta var æðislegt þetta ætla ég að gera sem fyrst aftur. Ég og áfengi áttum hins vegar mjög illa saman, ég var hræðilegur undir áhrifum áfengis og sem betur fer bar ég gæfu til þess að hætta að drekka nítján ára, annars væri ég örugglega löngu dauður.“

Auður ber höfuð og herðar yfir hina

Þannig að þú sérð það fyrir þér að semja og flytja tónlist þar til þú kveður þennan heim?

„Já, það mun ég gera,“ segir Bubbi og enn og aftur er auðheyrt að honum finnst þessar spurningar mínar frekar kjánalegar. „Ég er tónlistarmaður og verð það alltaf.“

En hefur bransinn ekki breyst mikið á þessum fjörutíu árum síðan þú byrjaðir?

„Jú, hann hefur breyst gríðarlega mikið,“ segir Bubbi, staldrar svo við og fer aftur að hlæja. „Sú fullyrðing sýnir náttúrlega bara að ég er sextíu og þriggja ára en ekki tuttugu og þriggja en það hafa orðið mjög miklar breytingar í tónlistarheiminum á þessum árum, bæði til góðs og ills. Við eigum orðið alveg ótrúlega margt frábært tónlistarfólk sem er á heimsmælikvarða en meðalmennskan og draslið flýtur oft ofan á og vekur mesta athygli. Það gerist alltaf en maður huggar sig við það að til þess að draslið geti flotið ofan á verður undirstraumurinn að vera sterkur og öflugur og það er hann svo sannarlega í tónlistinni hér. Margir af þessum krökkum eru að gera frábæra hluti en mér finnst þó einn af ungu tónlistarmönnunum bera af. Það er hann Auður, hann er einstakur. Hann er menntaður í FÍH og spilar á mörg hljóðfæri og semur langbestu popptexta sinnar kynslóðar. Ég hlustaði á plötuna hans, Freðinn, og hringdi strax í hann, bað hann að hitta mig í kaffi og spjalla. Við höfum síðan orðið góðir vinir og erum að vinna ýmislegt saman sem ég er óskaplega ánægður með. Ég segi hiklaust að hann beri höfuð og herðar yfir alla aðra unga tónlistarmenn hér en hann þarf ekkert á slíkum yfirlýsingum frá mér að halda, það sem hann er og það sem hann gerir er besti vitnisburðurinn. Þið eigið eftir að sjá að ég hef rétt fyrir mér, bíddu bara.“

Er hann ekki að sumu leyti dálítið líkur þér þegar þú varst ungur?

„Jú, kannski að einhverju leyti,“ segir Bubbi eftir að hafa hugsað sig um örlitla stund. „Kannski fann ég það og hringdi þess vegna í hann, ég veit það ekki. Hann er bara svo góður.“

„Mér finnst ég æðislegur!“

Öfugt við Bubba við upptökurnar á Ísbjarnarblús erum við að falla á tíma og komið að hinni frægu lokaspurningu. Ég spyr þó ekki; eitthvað að lokum? heldur hvort kóngurinn óttist það ekkert að líf hans verði opinberað þjóðinni á fjölum Borgarleikhússins í næstu viku? Er hann ekkert hræddur við hvað fólki muni finnast um hann og líf hans og hvað það muni segja um verkið?

„Nei, ég er ekki hræddur við það,“ segir hann. „Ég er reyndar afskaplega mikill prívat maður og hleypi fáum að mér, öfugt við það sem margir halda, en ég er ekki lengur upptekinn af því hvað öðrum finnst um mig. Það sem ég einbeiti mér að núna er hvað MÉR finnst um mig. Og ég get sagt þér að mér finnst ég æðislegur,“ bætir hann við og enn brestur á með hláturroku. „Ég horfi yfir líf mitt, æskuna, unglingsárin, árin í dópinu, reiðinni og ruglinu, edrúmennskuna, alla ástina. Horfi á það sem ég hef gert og öðlast í lífinu og ég dáist að þessum strák sem byrjaði að spila póker lífsins með eintóma hunda á hendi og endaði með því að vinna allan pottinn. Það er ekkert smáræðis afrek, þótt ég segi sjálfur frá og, já, ég er bara óskaplega ánægður með sjálfan mig og líf mitt. Þá skiptir það voðalega litlu máli hvað öðrum finnst.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -