Laugardagur 20. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Vanstillt umvöndun sendiherra ekki úr heiðskíru lofti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sendiherra Póllands á Íslandi sendi á dögunum ritstjórn Stundarinnar harðorða athugasemd og kröfu um afsökunarbeiðni vegna fréttar sem birtist á vef miðilsins. Fréttin, sem byggði á umfjöllun stærstu fjölmiðla heims, fjallaði um fjöldagöngu í Póllandi þar sem leiðtogar landsins gengu saman með hópum sem hafa kennt sig við fasisma. Athugasemd sendiherrans rataði einnig á skrifstofur forseta Íslands og forsætisráðherra.

Það að sendiherra erlends ríkis skuli kvarta við æðstu ráðamenn landsins vegna þess sem birtist í frjálsum fjölmiðlum er fordæmalaust. Síst af öllu sendiherra ríkis sem kennir sig við lýðræði og er aðili að Evrópusambandinu, enda sú hugmynd að íslenskir ráðamenn skipti sér af efnistökum fjölmiðla fjarstæðukennd. En fyrir þá sem fylgst hafa með þróun mála í Póllandi þarf þessi umvöndun sendiherrans ekki að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Undir stjórn Laga- og réttlætisflokksins hefur markvisst verið grafið undan lýðræðislegum stofnunum í landinu, einkum og sér í lagi dómstólum og fjölmiðlum. Á sama tíma hefur daður við hvers konar nýfasísk öfl færst í aukana. Ekki er langt síðan Pólland var skólabókardæmi um vel heppnaða aðlögun fyrrum austantjaldsríkja að vestrænum lýðræðisstofnunum en framferði pólskra ráðamanna á undanförnum árum hefur reynt mjög  á kollega þeirra vestar í álfunni.

Popúlískir þjóðernissinnar ná völdum

Lög og réttlæti (PiS) hefur ráðið lögum og lofum í pólskum stjórnmálum frá 2015 þegar flokkurinn vann hreinan meirihluta á þingi. Forsetinn, Andrzej Duda, kemur einnig úr röðum flokksins. Þessi þjóðernissinnaði og popúlíski flokkur sækir fylgi sitt mikið í strjálbýlli og eystri byggðir landsins og leggur mikla rækt við kristileg gildi og kaþólsku kirkjuna. Það hefur meðal annars endurspeglast í mjög íhaldssömum frumvörpum um bann og takmarkanir við fóstureyðingum sem í tvígang hefur orðið tilefni til fjöldamótmæla. Líkt og svo víðar í Evrópu og heiminum eru pólsk stjórnmál að verða sífellt pólaríseraðri þar sem gjáin á milli frjálslyndra og íhaldssamra breikkar með tilheyrandi árekstrum.

Hreinsanir í dómskerfinu

Laga- og réttlætisflokkurinn hefur verið sakaður um að standa að baki pólitískum hreinsunum í dómskerfinu og afmá þannig skilin á milli dóms- og framkvæmdavalds, undirstöðu réttarríkisins. Um 13 lagafrumvörp sem flokkurinn hefur lagt fram eru sögð vinna að því markmiði en með þeim eru pólitísk afskipti af dómskerfinu, einkum hæstarétti og stjórnlagadómstólnum, stóraukin. Fullyrðingum pólskra ráðamanna um að tilgangurinn sé þvert á móti að draga úr spillingu og auka sjálfstæði dómstólanna hefur verið fálega tekið. Fjöldi opinberra starfsmanna og hershöfðingja í hernum hafa sömuleiðis verið rekin. Þá tóku stjórnarflokkarnir yfir ríkisfjölmiðlana með lagasetningu árið 2016 og þrengt hefur verið að rekstri hinna einkareknu.

- Auglýsing -

Ítrekaðir árekstrar við ESB

Pólland hefur allt frá inngöngu 2004 fengið gríðarlega fjármuni frá ESB til innviðauppbyggingar sem hefur reynst landinu afar farsæl. Þrátt fyrir það keyrir PiS á andófi gegn sambandinu og undanfarið hefur ítrekað komið til árekstra á milli Varsjár og Brussel. Þannig börðust Pólverjar mjög gegn því að Donald Tusk yrði endurkjörinn forseti ráðherraráðs ESB, þrátt fyrir að hann sé pólskur. Í fyrra virkjaði framkvæmdastjórn ESB í fyrsta skipti 7. greinina svokölluðu, en hún felur í sér refsiaaðgerðir gegn ríkjum sem brjóta gegn grunngildum sambandsins, í þessu tilviki alvarleg aðför gegn sjálfstæði dómstóla. Það gæti leitt til þess að Pólland verði svipt atkvæðarétti sínum innan stofnana sambandsins en til þess þarf samþykki allra aðildarríkjanna. Ólíklegt er að það gangi í gegn þar sem Ungverjaland, þar sem einnig stjórna menn með andlýðræðislegar hneigðir, hefur heitið Pólverjum stuðningi.

Daðrað við nýfasista

- Auglýsing -

PiS hefur verið sakað um daður við nýfasistahreyfingar eða í það minnsta horft viljandi fram hjá uppgangi þjóðernissinnaðra hreyfinga sem boða kynþáttahatur. Slíkir hópar voru áberandi í fjöldagöngunni sem var tilefni umfjöllunar Stundarinnar. Borgaryfirvöld í Varsjá höfðu lagt blátt bann við göngunni í ljósi reynslunnar í fyrra þar sem hvítir þjóðernissinnar voru áberandi og var lýst sem stærstu samkomu þjóðernissinna og öfgahægrimanna í heiminum á okkar tímum. Dómstólar hliðhollir stjórnvöldum úrskurðuðu bannið ólögmætt og niðurstaðan var að 200 þúsund manns fylktu liði og gengu um götur Varsjár. Vissulega voru almennir borgarar þar á meðal en það voru öfgahópar og valdamenn – og samkrull þeirra – sem stálu athyglinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -