Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Yfirlæknir smitsjúkdómalækninga: „Vonandi verður þetta ekki með viðlíka hraða og á Ítalíu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala, segir Íslendinga óvarða fyrir veirunni og allar forsendur fyrir því að hraði útbreiðslunnar geti orðið sá sami og t.d. á Ítalíu og Spáni, ef skimun Íslenskrar erfðagreiningar leiðir í ljós að útbreiðsla veirunnar er meiri en hefur verið talið.

Mannlíf hafði samband við Má Kristjánsson, yfirlækni smitsjúkdómalækninga á Landspítala, og spurði hvort búast mætti við að í ljós komi, þegar Íslensk erfðagreining færi að skima, að útbreiðsla veirunnar hér sé meiri en hefur verið talið. Már segir að ef niðurstaða úr skimuninni verði sú að það sé fjöldinn allur af smituðum einstaklingum úti í samfélaginu þá sé íslenska þjóðin óvarin fyrir veirunni og allar forsendur fyrir því að hraði útbreiðslunnar geti verið sá sami og t.d. á Ítalíu og Spáni.

„Hins vegar erum við í litlu samfélagi sem er vel upplýst og ríkur skilningur á aðgerðum stjórnvalda og það gæti orðið okkur til bjargræðis við að tempra hraða útbreiðslunnar sem allar aðgerðir miða að,“ segir Már.

Hann telur að aðgerðirnar hafa tekist ágætlega en bendir á hversu hratt hlutirnir gerast. „Við sáum fyrsta smitið fyrir um hálfum mánuði en smitum fjölgar og við erum að sjá þriðju gráðu smit, þ.e. í gegum þriðja aðila frá upphafslindinni, sem er táknrænt fyrir dreifingu veirunnar í samfélaginu og undanfari þess að hún dreifir sér hraðar. Vonandi verður þetta ekki með viðlíka hraða og á Ítalíu og Spáni.“

„Við höfum ekki endalaust þanþol“

Már segir að hér hafi verið stífari ráðstafanir en sést hafi í flestum öðrum löndum og að fólk taki almennt tilmælunum alvarlega.

- Auglýsing -

Hversu mikilvæg telur hann að skimunin fyrir veirunni sé fyrir næstu skref og við að varpa ljósi á hvernig hún hegðar sér og dreifir sér? „Ég held að það sé mikilvægt að reyna að finna þetta út og ef niðurstaðan úr skimuninni verður sú að það sé fjöldinn allur af ógreindum einkennalausum einstaklingum úti í samfélaginu þá mun það gjörbreyta vörnum sóttvarnarlæknis sem byggja á sóttkví og einangrun fólks.“ Og hann tekur fram að það að setja útsetta í sóttkví hafi þá jafnvel engan tilgang.

Hvernig er Landspítalinn í stakk búinn til að taka við sjúklingum sem þurfa þá að leggjast inn eða fá aðhlynningu? „Við erum með viðbragðsáætlun um að hagnýta þær bjargir sem við höfum; lyf, tæki, mannskap og innra skipulag. Við höfum ekki endalaust þanþol en reynum að draga úr fjölda einstaklinga sem eru veikir á hverjum tíma. Ef 10% veikjast alvarlega er mikilvægt að draga úr fjölda þeirra á hverjum tíma og lengja frekar veikindatímann,“ útskýrir Már.

Aðspurður um hvort líklegt sé að þróunin hér verði á endanum svipuð og á Ítalíu eða í öðrum löndum á meginlandi Evrópu, svarar Már: „Dánartíðni á Ítalíu er 3% en rétt innan við 1% í Suður-Kóreu. Ég tel að tölurnar endurspegli hvernig þjóðunum hefur gengið að glíma við farsóttina. Við viljum vera Suður-Kóreu megin á þessum ás og höfum farið svolítið eftir því sem þeir gera; að draga þetta á langinn, beita stífum sóttvörnum, hagnýta bjargir sem við höfum á spítalanum og senda fólk heim í sóttkví. Ég held að þetta ásamt handþvotti og að fara í hvívetna að fyrirmælum Landlæknis ætti að gera gott,“ segir Már.

- Auglýsing -

Ítarlegri umfjöllun er um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -