Fimmtudagur 18. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Dauðadeildaramman

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Beltishöggin dundu oft og tíðum á Velmu. Faðir hennar stjórnaði heimilinu með harðri hendi og snemma byrjaði Velma að hnupla hinu og þessu, enda ólst hún upp í fátækt. Með tímanum tókst henni þó að komast í náðina hjá föður sínum og með slægð tókst henni að vefja honum um fingur sér.

Velma var ekki öll þar sem hún var séð og því áttu margir eftir að kynnast þegar fram liðu stundir og einhverjir þeirra þurftu ekki að kemba hærurnar.

Velma leitaði ekki langt yfir skammt að fyrsta fórnarlambinu.

Velma Barfield fæddist 23. október árið 1932 í dreifbýli Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, en ólst upp í grennd við Fayetteville í Norður-Karólínu. Velma var næstelst barna Murphys og Lillie Bullard og elsta dóttirin. Murphy réð lögum og lofum á heimilinu og beitti ströngum reglum, en móðir Velmu var undirgefin, læddist með veggjum og blandaði sér ekki í meðferð heimilisföðurins á börnum þeirra hjónanna. Velma hafði þó ekki erft undirgefni móður sinnar og fékk fyrir vikið ófá beltishöggin af hendi föður síns. Árið 1939 hófst skólaganga Velmu og fann hún í skólanum einhverja hvíld frá þrúgandi heimili sínu, en var útilokuð af hálfu samnemenda sinna vegna fátæklegs útlits.

Vegna þess hve Velma fann til fátæktar sinnar í skólanum hóf hún að hnupla. Hún nældi sér í skotsilfur frá föður sínum, en færði út kvíarnar og var síðar staðin að hnupli frá öldruðum nágranna. En Velmu var ekki alls varnað og þegar hún var tíu ára sýndi hún ágæta hæfileika í körfuknattleik og lék með liði sem faðir hennar stýrði. Fyrir vikið varð Velma „uppáhaldsdóttirin“ og með tíð og tíma og þó nokkurri slægð tókst henni að fá frá föður sínum nánast allt það sem hugur hennar girntist, en síðar á lífsleiðinni sakaði hún hann um kynferðislegt ofbeldi.

Einkunnir Velmu í framhaldsskóla voru slakar, en hún eignaðist þar kærasta, Thomas Burke, svo ekki varð skólagangan alveg til einskis. Turtildúfurnar fóru á stefnumót samkvæmt ströngum ákvæðum föður hennar og hittust eins oft og við var komið, en að sjálfsögðu með samþykki föður Velmu. Sautján ára ákváðu Velma og Thomas að segja skilið við frekara nám og ganga í hjónaband, sem þau og gerðu þrátt fyrir andmæli föður hennar.

- Auglýsing -

Má segja að sú ákvörðun hafi komið föður Velmu í opna skjöldu og gerði hann allt sem hann gat til að koma í veg fyrir ráðahaginn. Þrátt fyrir andmæli föður síns fór Velma sínu fram.

Heimavinnandi húsmóðir

Velma og Thomas eignuðust tvö börn, Ronald Thomas og Kim, og Velma var heimavinnandi húsmóðir og naut hverrar stundar sem hún átti með börnunum. Thomas vann ýmis störf og þrátt fyrir að þau hefðu ekki mikið fé milli handanna skorti þau ekkert. Velma kenndi börnum þeirra kristin gildi og hin unga, fátæka Burke-fjölskylda naut aðdáunar vina og ættingja. Var fjölskyldan af flestum þeim sem til þekktu talin til mikillar fyrirmyndar og þá ekki síst hjónin ungu sem voru talin aldeilis aðdáunarverð í foreldrahlutverkinu. Þegar skólaganga barnanna hófst lagði Velma sig fram um að taka þátt í lífi þeirra. Hún tók þátt í skólastarfi eftir fremsta megni, gerðist sjálfboðaliði í skólaferðalögum og taldi ekkert eftir sér. En hún fann til einmanaleika þegar börnin voru í skóla og ákvað að fá sér vinnu til að fylla upp í tómarúmið og dreifa huganum.

- Auglýsing -

Árið 1963 gekkst Velma undir legnámsaðgerð. Aðgerðin tókst vel en geðslag Velmu breyttist. Geðsveiflur hennar urðu tíðar og bræðisköst algeng. Hún hafði áhyggjur af því að hún væri ekki eins eftirsóknarverð sem kona því hún gæti ekki eignast fleiri börn. Það var fleira sem Velmu gramdist og á meðal þess var útstáelsi Thomasar. Hann eyddi löngum stundum utan heimilisins og um síðir komst Velma að því að hann var farinn að halla sér að flöskunni meira en góðu hófi gegndi. Það varð kornið sem fyllti mælinn og brestir komu í stoðir hjónabandsins.

Árið 1965 lenti Thomas í bílslysi og fékk höfuðáverka. Þaðan í frá fékk hann oft og tíðum höfuðverk og drykkja hans ágerðist. Andrúmsloftið á heimilinu einkenndist af rifrildi og deilum. Velma, yfirbuguð af streitu, var lögð inn á sjúkrahús og henni gefið róandi lyf og vítamín. Eftir að hún kom heim að nýju jók hún smátt og smátt lyfjaneyslu sína og hljóp á milli lækna sem skrifuðu upp á valíum fyrir hana.

Dag einn þegar Velma kom heim úr vinnunni kom hún að heimilinu í ljósum logum og Thomas fannst andvana inni í svefnherbergi

Eldsvoðinn

Á sama tíma jókst áfengisneysla Thomasar og sjúkleg hegðun hans rak fjölskylduna djúpt í fen upplausnar. Dag einn þegar Velma kom heim úr vinnunni kom hún að heimilinu í ljósum logum og Thomas fannst andvana inni í svefnherbergi og virtist sem reykeitrun hefði orðið honum að aldurtila.

Sorg Velmu var skammlíf og þrátt fyrir að heimilið eyðilegðist fullkomlega í öðrum eldsvoða skömmu síðar virtist hún hvorki vera buguð af sorg né fullkomlega ráðalaus. Velma og börnin fluttu til foreldra Velmu og Velma beið þar spennt eftir tryggingabótunum.

Í ljósi þess hve lítil áhrif eldsvoðinn og dauði Thomasar höfðu á Velmu, var ekki undarlegt að hún biði ekki boðanna hvað nýtt hjónaband áhrærði.

Skömmu eftir lát Thomasar kynntist Velma ekklinum Jenning Barfield, en hann þjáðist meðal annars af sykursýki og veiku hjarta. Þau gengu í hjónaband en hjónabandssælan varði ekki lengi og átti aukin lyfjaneysla Velmu stóran þátt í því. Skilnaður var yfirvofandi enda nánast allt í molum í samlífi þeirra hjóna. En áður en til skilnaðar kom, gaf hjarta Jennings sig og Velma virtist óhuggandi; hafði misst tvo eiginmenn, sonurinn var í hernum, faðir hennar með lungnakrabba og til að bæta gráu ofan á svart eyðilagðist nýtt heimili hennar í eldsvoða – enn og aftur.

Endurtekið efni

Velma flutti enn á ný heim til foreldranna og skömmu síðar dró krabbameinið föður hennar til dauða. Velma og Lillie, móðir hennar, rifust stöðugt og sumarið 1974 var Lillie lögð inn á sjúkrahús vegna alvarlegra kviðverkja sem læknum tókst þó ekki að skilgreina. Eftir örfáa daga leið henni betur og hún sneri heim. Næstu jól var öll fjölskyldan saman komin, en skugga bar á jólagleðina því Lillie hafði áhyggjur af eilífum rukkunum sem hún var að drukkna í. Þær voru tilkomnar vegna bifreiðar sem hún átti og hafði reyndar greitt að fullu.

Hún bað einn sona sinna að athuga málið, en innan nokkurra daga tóku kviðverkirnir sig upp aftur, verri en áður. Áður en sonurinn hafði komist til botns í málinu var Lillie liðið lík. Árið 1975 var Velma dæmd til hálfs árs fangelsisvistar fyrir ávísanafals, en af þeirri fangelsisdvöl fer ekki miklum sögum. Þegar hún losnaði úr fangelsi fékk hún starf við umönnun aldraðra hjóna, Montgomery og Dollie. Í janúar 1977 dó Montgomery, en Velma hélt áfram að sinna um Dollie. Í febrúar lést Dollie í kjölfar sársaukafullrar magasýkingar.

Næsta starf Velmu fól í sér umönnun annarra aldraðra hjóna, Johns Henrys og eiginkonu hans, Record, en Record hafði fótbrotnað og þurfti því sérstakrar hjálpar við. Velma flutti því inn á heimili þeirra, en samskiptin einkenndust af sífelldu masi Record, sem fór afskaplega mikið í taugarnar á Velmu. Á meðal þess sem Dollie talaði um í tíma og ótíma var að fölsuð ávísun í hennar nafni hefði fundist í viðskiptabanka hennar. Hvað sem því leið þá fór John Henry að finna til slæmra kviðverkja í apríl og um tveggja mánaða skeið glímdi hann við alvarlega magasýkingu. Að lokum höfðu veikindin betur í þeirri glímu og John Henry andaðist í júní það ár.

Dularfullt símtal

Sama ár flutti Velma inn til Stuarts Taylor, ekkils sem hún hafði kynnst, en fortíð hennar, lyfjaneysla og ávísanafals gerði Stuart fráhverfan hjónabandi. Skötuhjúin eyddu miklum tíma í kirkjutengt vafstur og á leið til einnar slíkrar samkomu fékk Stuart heiftarlegan magakrampa sem fór versnandi. Innan örfárra daga lést Stuart og ráðþrota læknar mæltu með krufningu.

Áður en niðurstaða krufningar lá fyrir fékk Benson Phillips, rannsóknarlögreglumaður í Lumberton, dularfullt símtal. Kona tjáði honum gráti næst að hún væri systir Velmu Barfield og fullyrti konan að Velma hefði myrt Stuart Taylor og fleiri. Forvitni Phillips var vakin. Læknar komust fljótlega að þeirri niðurstöðu að arsenik væri líklegasta dánarorsök Stuarts, en þegar Velma var spurð út í málið var hún sakleysið uppmálað.

En síðar fór að kvarnast úr vörn hennar og hún bugaðist. Að lokum játaði hún á sig morðin á Montgomery, John Henry og móður sinni og sagðist hafa viljað koma í veg fyrir að þau kæmust að því að hún hefði stolið frá þeim peningum til að fjármagna lyfjafíkn sína. Síðar játaði hún einnig á sig fleiri morð, þeirra á meðal morðin á Stuart Thomas og Jenning Barfield. Velma var dæmd til dauða og fékk viðurnefnið Dauðadeildaramman, en hún var óþreytandi við að hjálpa samföngum sínum og gefa þeim ráð sem gerðu þeim kleift að aðlagast lífinu í fangelsinu. „Þegar ég geng inn í þetta herbergi klukkan tvö í nótt verður það himnahlið mitt,“ sagði Velma skömmu fyrir aftökuna, 2. nóvember 1984.

Hér má nálgast hlaðvarpsútgáfu frásagnarinnar um Velmu Barfield

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -