Miðvikudagur 22. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

„Ég er eins og smákrakki með fiðrildi í maganum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eva Ruza er háttvirtur jólaálfur. Þegar hún var lítil fékk hún gjafir frá jólaálfunum og hún elskar jólamatinn hennar mömmu, sérstaklega sveppasúpuna.

 

Hvenær dregur þú fyrsta jólaskrautið fram úr geymslunni?

„Ég dreg þetta allt fram eftir 25. nóvember, helst ekki miklu fyrr. Ég er samt alveg hrikalega mikil jólakerling og jólafílingurinn steypist yfir mig af fullum krafti ef ég finn ég lykt af einhverju sem minnir mig á jólin. Ég segi samt pass við jólunum alveg fram yfir miðjan nóvember. En þá set ég líka í fimmta gír og tek þessa hátíð með trompi, ég er eins og smákrakki með fiðrildi í maganum.“

Áttu jólaskraut sem tengist góðum minningum og er þér sérstaklega kært?

„Elsku pakkadagatalið sem hékk alltaf heima hjá mömmu og pabba. „Jólaálfar“ mættu með litla pakka á nóttunni sem þeir hengdu á það. Það var ekkert meira spennandi þegar við systurnar vorum yngri en að hlaupa niður og grandskoða pakkann sem hafði komið um nóttina. Pakkana fengum við svo að opna á aðfangadag á meðan mamma og pabbi vöskuðu upp eftir jólamatinn. Við vorum reyndar orðnar fullorðnar þegar mamma tók dagatalið niður, lét „jólaálfana“ vita að þeirra væri ekki þörf lengur og afhenti mér fyrir mín börn.“

Hvaða jólalag kemur þér í jólafíling?

- Auglýsing -

„Það er eitthvað við lagið hans Helga Björns, Ef ég nenni, sem bara hellir yfir mig jólunum. Ég hækka í botn og góla með. Ég er mjög mikið í því, að syngja hástöfum með.“

Syngur þú yfir þig eða borðar þú yfir þig um jólin?

„Ég er ekki ein af þeim sem borða yfir sig um jólin, en forðið ykkur þegar ég kveiki á vini mínum Michael Bublé og þen raddböndin. Ég ímynda mér alltaf að ég gæti vel tekið gigg með honum á sviði og sungið dúett. Við tvö, gervisnjór allt í kring og fullur salur af fólki að hlusta á hugljúfa tóna með Michael Bublé og Evu Ruzu. En um leið og einhver lækkar í útvarpinu og einungis röddin mín heyrist, að þá deyr sá draumur mjög hratt. Held að Bublé ætti samt að hugleiða að fá mig með. Þó að það væri ekki nema að kynna hann á svið. Ég mundi alveg sætta mig við það líka.“

„Ég er reyndar þekktur hamfarakokkur í fjölskyldunni og fékk þess vegna í upphafi ekkert val um það hvað ég vildi gera.“

- Auglýsing -

Uppáhaldsjólahefðin?

„Þessa hefð bjuggum við systurnar til þegar við urðum sjálfar húsmæður. Á milli jóla og nýárs bjóðum við mömmu og pabba heim til einhverrar okkar í humarveislu. Við gætum næstum því keppt í Masterchéf hjá Gordon Ramsay, svo flott er þetta hjá okkur. Ég sé um humarsúpuna, Debbý sér um humarinn og Tinna eftirréttinn. Við komum sjálfum okkur á óvart á hverju einasta ári. Mamma og pabbi fá ekki að lyfta litla fingri. Ég er reyndar þekktur hamfarakokkur í fjölskyldunni og fékk þess vegna í upphafi ekkert val um það hvað ég vildi gera. Mér var úthlutað súpunni og ég hef svoleiðis rúllað henni upp að ég er næstum eins og nafna mín, Eva Laufey. En bara næstum því. Höldum því til haga.“

Piparkökur eða laufabrauð?

„Þetta er eins og að gera upp á milli barnanna. Ég skelli þessu bara líka saman í skál með konfektinu og smákökunum og gúffa þessu öllu í mig.“

Hvað er ómissandi á aðfangadag?

„Sveppasúpan hennar mömmu. Hún er next level; eitthvert töfrabragð í henni sem segir mér að jólin séu komin. Að sitja við stofuborðið hjá mömmu og pabba með alla fjölskylduna, kertaljós og mömmumat. Held að mamma greyið neyðist til að elda að eilífu. Ég meina, ég hef tvisvar eldar hamborgarhrygg með plastinu utan um án þess að fatta það. Flugeldar eða kampavín um áramótin? Sprengjum árið í burtu með stæl. Það eru mjög sprengjuglaðir karlmenn í fjölskyldunni sem halda flugeldasýningu um hver áramót við mikla lukku annarra í götunni. Ég er hins vegar sultuslök og skála í Sprite í fancy kampavínsglasi þar sem ég hef aldrei bragðað áfengi.“

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -