Miðvikudagur 22. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Embættismannahús við tjörnina endurgert

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við Reykjavíkurtjörn stendur reisulegt timburhús frá árinu 1907 en húsið er eitt af embættismannahúsunum svokölluðu sem risu við Tjörnina á heimastjórnartímanum í byrjun 20. aldar.

Húsið fellur undir það stílbrigði sem kallast „bárujárnssveitser“ og er sá stíll einkennandi fyrir timburhúsabyggðina við Tjörnina en byggðin undir brekkunni er sérstök fyrir þær sakir að hafa varðveist í heild og nánast í upprunalegri mynd. Húsið er innflutt og er talið koma frá Noregi. Arkitekt þess er ókunnur en það var reist af Eggerti Briem, skrifstofustjóra stjórnarráðsins og síðar hæstaréttardómara, og konu hans, Guðrúnu Jónsdóttur skólastýru. Húsið var friðað árið 1991.

Ljósmyndirnar tók Nanne Springer.

Breytingar og endurgerð

Húsinu var breytt árið 1953 en þá var það stækkað til vesturs að brekkunni og viðbyggingin steypt og klædd bárujárni. Jafnframt var inngangur hússins færður á norðurhlið hússins og bíslag sem var áður að sunnanverðu fjarlægt. Sólstofuglugga var einnig bætt við á suðurhlið hússins en breytingarnar hannaði Halldór H. Jónsson arkitekt. Árið 2015 var hins vegar komið að viðhaldi og var þá tekin ákvörðun um endurgerð hússins.

Að ósk eigenda var kvisti bætt við á rishæð hússins að austanverðu en húsið var það eina í götulínunni sem ekki hafði kvist. Kvisturinn er með þrískiptan glugga, sambærilegan þeim sem voru til staðar á öðrum hliðum hússins. Með tilkomu kvistsins fékk húsið meiri reisn og féll enn betur að götumyndinni sem telst nú eitt helsta djásn byggingarlistar Reykjavíkur. Endurgerðina önnuðust Gláma Kím arkitektar.

Í takt við tíðarandann

Verkefnið var stórt og krefjandi þar sem húsið er staðsett á einum viðkvæmasta stað borgarinnar en markmiðið var að húsið héldi upprunalegri gerð sinni og gæðum. Innra skipulag hússins tók nokkrum breytingum við endurgerðina og má í því samhengi helst nefna efri hæðina og risið en kjallarinn og fyrsta hæð héldust nánast óbreytt. Á fyrstu hæð var eldhúsið endurinnréttað og má þar sjá fagurbláar, sprautulakkaðar innréttingar.

- Auglýsing -

Borðplöturnar og sólbekkur eru úr hvítum marmara og gólfefnið er íslenskt grágrýti. Í stofum var sett nýtt veggfóður á þá veggi sem höfðu verið veggfóðraðir áður. Gólfefni í stofum var látið halda sér en pússað upp og lakkað. Allir litir, bæði inni og úti, voru sérvaldir í samráði við eigendur hússins og tekið var sérstaklega mið af tíðaranda hússins við valið. Á efri hæð voru gólfin rétt af, öllum gólfefnum skipt út og nýtt eikarparkett lagt.

Með tilkomu kvistsins breyttist skipulag hæðarinnar og herbergisfyrirkomulagið, en undir kvistinum er svefnherbergi eftir endilangri austurhlið hússins. Baðherbergið var endurinnréttað og Carrara bianco-marmari settur á gólf og veggi.

- Auglýsing -

Mikilvægt að varðveita handverkið

Timburhúsaröðin við Tjörnina ber þess merki að ný stétt iðnaðarmanna var áberandi í samfélaginu og mikil vakning var í mannvirkjagerð í byrjun 20. aldarinnar. Húsin eru listilega smíðuð og má sjá í þeim einstakt handverk sem mikilvægt er að varðveita. Þegar kemur að endurgerð skiptir því sköpum að handverkinu sé sýnd virðing. Í slíkum verkefnum er sérstaklega mikilvægt að tapa ekki gæðum og krefst vinnan við framkvæmdirnar mikillar sérþekkingar og stýrðu trésmiðirnir Jakob Marinósson og Þorgeir Reynisson verkinu.

Sem dæmi má nefna að við gerð kvistsins þurfti að gæta að því að allur frágangur í kringum hann og nýjan glugga væri í samræmi við aðra upprunalega glugga hússins og þurfti því að handsmíða allt tréverk utan um hann. Allir aðrir gluggar hússins voru endurteiknaðir og mörgum þeirra skipt út þar sem sumir hverjir voru einungis með einföldu gleri. Andrés Sigurbergsson, gluggasmiður hjá Ölfusgluggum, sá um smíði allra glugga hússins.

Skipt var um klæðningar utanhúss og ráðist var í rannsóknarvinnu til þess að velja lit á húsið að utan en fyrir endurgerð var húsið gult að lit með grænu þaki. Niðurstaðan var að heppilegast væri að velja liti sem væru hógværir í götumyndinni en trúir tíðarandanum. Ágúst Garðarson, málari hjá ÁG málun, hélt utan um alla málningarvinnu jafnt innanhúss sem utan. Litavalið klæðir húsið einstaklega vel og undirstrikar þá værð sem er yfir götunni í annars annasömu borgarumhverfi. 

Húsgögnin voru valin með tilliti til byggingartíma og stíl hússins.

Fyrr, síðar, núna

Við endurgerðina tók lóðin einnig breytingum. Innkeyrslunni var breytt og var veggur hlaðinn austanmegin við húsið sem skilur að gangstéttina og lóðina sjálfa. Á veggnum má sjá listaverk eftir Kristin E. Hrafnsson myndlistarmann sem samansett er úr orðunum „fyrr, síðar, núna“. Þessi orð eru afar lýsandi fyrir umhverfið við Tjörnina og timburhúsaröðina. Verkið tengir saman fortíð, nútíð og framtíð sem endurspeglast hvað best í húsunum sjálfum sem hafa algerlega staðist tímans tönn sem velheppnuð endurgerð Glámu Kíms arkitekta undirstrikar enn frekar.

 

Ljósmyndir / Nanne Springer

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -