Föstudagur 6. desember, 2024
-6.2 C
Reykjavik

Frjáls eins og fuglinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fallegt húsgagn sem á sér áhugaverða sögu.

Hanging Egg Chair kom á markað árið 1959 og var hannaður af Jørgen og Nönnu Ditzel, sem sést hér á myndinni.

Hanging Egg Chair kom á markað árið 1959 og var hannaður af Nönnu og Jørgen Ditzel. Nanna var fædd árið 1923 í Kaupmannahöfn. Hún lauk námi í húsgagnahönnun frá Konunglegu akademíunni í Kaupmannahöfn árið 1946. Í skólanum kynntist hún Jørgen, sem einnig nam húsgagnahönnun og gengu þau í hjónaband um sumarið 1946. Síðar sama ár stofnuðu þau eigin hönnunarstofu í Kaupmannahöfn.

Samstarf þeirra var farsælt og þau afköstuðu miklu á árunum 1946-1961 eða allt þar til Jørgen lést skyndilega aðeins fertugur að aldri. Þau komu víða við á hönnunarferlinum en auk húsgagna hönnuðu þau textíl, veggfóður, skartgripi og ýmsar heimilisvörur líkt og glervörur. Eftir andlát Jørgens hélt Nanna áfram með verkefni sem þau hjónin höfðu tekið að sér.

Árið 1968 giftist hún svo húsgagnasalanum Kurt Heide sem var búsettur í London og flutti Nanna hönnunarstofu sína til borgarinnar í kjölfarið. Kurt og Nanna sameinuðu svo krafta sína og stofnuðu húsgagnafyrirtækið Interspace sem fljótlega varð heimsþekkt. Fyrirtækið seldi mestmegnis ítölsk húsgögn auk húsgagna og textíls sem hannaður var af Nönnu. Þrátt fyrir að vera búsett í London átti Nanna í samstarfi við mörg þekkt og rótgróin hönnunarhús í Danmörku þar á meðal Georg Jensen, Kvadrat og Brdr.Krüger. Árið 1984 ákváðu hjónin að selja Interspace þar sem þau hugðust fara á eftirlaun en ári síðar lést Kurt. Eftir nokkra umhugsun ákvað Nanna að flytja aftur til Danmerkur en í stað þess að fara á eftirlaun opnaði hún nýja hönnunarstofu í Kaupmannahöfn sem hún starfrækti allt þar til hún lést árið 2005.

Um hönnunina sagði Nanna að hún hafi alltaf heillast af því sem svífur, líkt og fuglar, en það gefi til kynna ákveðið frelsi og var það lykilhugtak í hönnunarferlinu.

Efnisvalið í Hanging Egg Chair endurspeglar tíðarandann en mikill efnisskortur var til staðar eftir seinna stríð sem varð til þess að hönnuðir þurftu að leita í auknum mæli í nærumhverfi sitt. Grind stólsins er gerð úr áli en rattan (sefgras) er fléttað utan um grindina. Setan er laus og ofin úr bómull.

Um hönnunina sagði Nanna að hún hafi alltaf heillast af því sem svífur, líkt og fuglar, en það gefi til kynna ákveðið frelsi og var það lykilhugtak í hönnunarferlinu. Einnig hafði hún það ávallt sem reglu að einskorða sig ekki við fyrirfram ákveðnar hugmyndir heldur leyfði þeim að þróast óhindrað og þannig leiða hana áfram í hönnunarferlinu.

- Auglýsing -

Árið 2013 hóf danski húsgagnaframleiðandinn Sika Design endurframleiðslu á stólnum en fyrirtækið á sér margra áratuga hefð í framleiðslu á húsgögnum úr rattani. Stólinn má bæði nota innandyra sem utan.

Myndir / Frá framleiðanda

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -