Fimmtudagur 16. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Glæsilegt glerhýsi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steve Hermann er þekktur fyrir nútímalega hönnun og er einn sá helsti sem fína og fræga fólkið í Hollywood leitar til þegar það er í húshugleiðingum. Þrátt fyrir að vera ómenntaður hefur hann hannað hús fyrir elítuna í yfir 20 ár.

Hann lauk við The Glass Pavilion árið 2010. Húsið sem er í Santa Barbara í Kaliforníu er 1.290 fermetra lúxusvilla með fimm svefnherbergjum, fimm baðherbergjum, gestaklósetti, yfirbyggðum palli, eldhúsi með vínherbergi, stórri stofu og borðstofu og risastóru listagalleríi þar sem Steve geymir/sýnir antíkbílana sína. Listagalleríið, sem er á neðri hæð hússins, er svo stórt að þar er auðveldlega pláss fyrir 32 bíla.

„Þetta hús er mitt stærsta afrek á 20 ára ferli mínum“

Húsið stendur á einum og hálfum hektara af landi sem er mikið til skógur og sést húsið ekki frá neinum vegi né húsi og er lokað af með rafmagnshliði svo ekki sé hægt að komast inn á lóðina og er því algjörlega prívat. Það tók yfir sex ár frá því bygging hófst þar til húsið var fullklárað en notast var við sérstaka aðferð við byggingu hússins til að láta húsið líta út fyrir að svífa á grasinu og er sú aðferð bæði mjög seinleg og vandasöm. Úthliðar hússins eru að mestu leyti úr gleri og var einungis notað Star Fire-gler sem er einstaklega tært gler sem mikið er notað í skartgripaútstillingar. Það, ásamt því að húsið „svífur“, gerir það að verkum að þessi risavaxna glæsivilla virkar afar létt. Þar sem húsið er að mestu úr gleri blandast það ytra við það innra og um leið og náttúran kemur inn hættir manneskjan að vera falin inni og verður í raun partur að því ytra. Manneskjan verður því að mörgu leyti mun berskjaldaðri og gæti það virkað pínulítið ógnvekjandi fyrir suma en fyrir utan að ekki er hægt að sjá inn á lóðina eru afar tæknilegar myrkvunargardínur en með því að ýta á einn taka fara gardínurnar niður og er þannig hægt að fá algjöran frið og/eða myrkur.

Steve vildi hafa gangana og alrýmin mjög stór og ná fram ákveðinni stemningu þar sem fólk langar til að setjast niður, vera og slaka á. Til þess hannaði hann sérstaka bekki fyrir húsið og sótti innblástur í bekki frá Museum of Modern Art í New York.

Í listagalleríinu sýnir Steve antíkbílana sína.

Bekkirnir áttu að vera mjög lágir og næstum eins og legubekkir svo þeir væru þægilegir en á sama tíma myndu aldrei skyggja á útsýnið enda húsið hannað með útsýnið í huga. Eldhúsið er eitt af uppáhaldsherbergjum Steve, hann segist hafa verið innblásinn af Evrópu þar sem það er mjög algengt að öll heimilistækin séu innbyggð og falin, innréttingarnar hvítar, mínimalískar og mjög nútímalegar eins og tíðkast sérstaklega í Skandinavíu. Borðplatan er úr sjaldgæfum marmara og graníti og má finna nöfn eins og Varena, Poliform og Antonio Lupi á tækjum og tólum. Þar að auki er eldhúsið búið sérstöku vínherbergi!

Hjónasvítan er útbúin öllum þeim þægindum sem hægt er að hugsa sér.

Hjónasvítan er ekki minna glæsileg en Steve segir það nánast vera eins og að sofa úti að sofa þar. Innangengt er úr hjónasvítunni í stórt baðherbergi og eins og með annað í þessu glæsilega glerhýsi var engu til sparað og má meðal annars finna vask á baðherberginu sem kostaði 30.000 dollara.

- Auglýsing -
„Eins og að baða sig í nátturunni að hoppa í þessa sturtu.“

Baðið og sturtan eru alveg út við glervegginn svo þú upplifir þig nánast úti sem gerir baðupplifunina eins og þú sért að baða þig í náttúrunni. Steve byggði húsið upprunalega með það markmið að búa þar sjálfur en setti það síðar á sölu. Sett var á húsið 35 milljónir dollara.

Eldhúsið er innblásið af evrópskri hönnun og er með sér vínherbergi.

Texti / Linda Jóhannsdóttir
Myndir / Frá hönnuði

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -