Íslendingar með þrjá dómnefndarfulltrúa á Art Directors Club Europe

Deila

- Auglýsing -

Íslendingar eiga þrjá dómnefndarfulltrúa á Art Directors Club Europe-veðlaununum sem veitt verða í nóvember. Formaður FÍT segir það ómetanlegt.

Verðlaunin Art Directors Club Europe (ADC*E) verða veitt í 29. sinn í Barselóna 8. og 9. nóvember. Verðlaunin eru ein þau stærstu á sviði grafískrar hönnunar og auglýsingagerðar í Evrópu. Félag íslenskra teiknara (FÍT) er aðili að ADC*E og heldur utan um þátttöku Íslands í keppninni.

„Verðlaunin endurspegla allt það besta í grafískri hönnun á hverjum tíma en verðlaunaverk hvers lands eru send í keppnina sem eru svo dæmd af 60 fagaðilum alls staðar að úr Evrópu,“ segir í tilkynningu um keppnina.

Kristín Eva Ólafsdóttir er formaður FÍT.

Íslendingar eiga þrjá dómnefndarfulltrúa í keppninni en þau eru Alexandra Buhl grafískur hönnuður hjá Forlaginu, Guðmundur Bjarni Sigurðsson eigandi Kosmos og Kaos og Rósa Hrund Kristjánsdóttir, hönnunarstjóri á Hvíta húsinu. Þau hafa margra ára reynslu í faginu og munu öll miðla þessari reynslu sem yfirdómarar í FÍT 2020 keppninni á Íslandi.

„Það er einstakt tækifæri fyrir íslenska hönnuði að fá að sitja í dómnefnd sem þessum, það stækkar ekki bara tengslanetið og skapar tækifæri, það er einnig mikilvægt að fá að taka þátt í rökstuddum umræðum um fagið og skoða allt það besta frá hverju landi fyrir sig sem gefur mikinn innblástur. Þessa reynslu fáum við svo heim í næstu FÍT keppni sem gerir keppnina faglegri,“ er haft eftir Kristínu Evu Ólafsdóttir, formanni FÍT, í tilkynningu FÍT.

- Advertisement -

Athugasemdir