Laugardagur 20. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Klassísk og hlýleg hönnun í Keflavík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hús og Híbýli heimsóttu þau Viktoríu Hrund Kjartansdóttur og Brynjar Guðlaugsson í sumar í fallega nýuppgerða íbúð í Keflavík. Íbúðin er 95 fermetrar að stærð í húsi sem byggt var á áttunda áratugnum. Íbúðin samanstendur af tveimur rúmgóðum herbergjum, samliggjandi opnu eldhúsi og stofu auk baðherbergis.

Viktoría var í sumar nýútskrifuð með BA-próf í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands og Brynjar starfar sem fasteignasali. Bæði eiga þau rætur að rekja til Keflavíkur en Viktoría flutti þó ung til Hafnarfjarðar og ólst þar upp að mestu leyti.

Viktoría beið lengi eftir rétta stofuborðinu en fann það í Seimei. Mottan er frá ILVA. Listaverkið er eftir Línu Rut.

„Nú í seinni tíð hafa báðir foreldrar mínir flutt aftur til Keflavíkur og ætli það sé ekki alltaf þannig að maður vill vera sem næst sínum nánustu. Hér eigum við líka stóran og skemmtilegan vinahóp, tengdó búa í næstu götu og amma og afi í götunni fyrir ofan okkur. Auk þess dreg ég það í efa að ég nái Brynjari nokkurn tíma út fyrir bæjarmörk Keflavíkur,“ segir Viktoría aðspurð að því hvers vegna þau hafi ákveðið að gera sér heimili í Keflavík.

Arco-lampinn frá Flos kemur vel út í stofunni.

Að hugsa í lausnum

Þegar Hús og Híbýli kom í heimsókn höfðu þau Viktoría og Brynjar búið í íbúðinni í eitt ár og hafði þá á stuttum tíma náð að gera miklar breytingar sem hafa aukið gæði íbúðarinnar verulega. Til að byrja með færðu þau eldhúsið í rými sem áður hafði verið stofa. Gamla eldhúsinu breyttu þau svo í skrifstofu.

„Húsið er byggt árið 1977 og þá tíðkaðist enn að hólfa öll herbergi niður, þar á meðal eldhúsið. Eldhúsið finnst okkur vera hjarta heimilisins, þar njótum við þess að borða góðan mat í góðum félagsskap og því algjör synd að hafa eldhúsið í lokuðu rými. Með þessum breytingum tókst okkur líka að samtengja eldhúsið við stofuna,“ segir Viktoría um breytingarnar á eldhúsinu.

- Auglýsing -

Í kjölfarið fylgdu fleiri breytingar og baðherbergið var tekið í gegn, var stækkað töluvert og þannig tókst þeim á sama tíma að búa til góðan andyriskrók. Hjónaherbergið var einnig stækkað og skápaplássið jókst verulega við þær breytingar.

Vasarnir á borðstofuborðinu hafa fylgt Viktoríu síða hún var 14 ára gömul.

„Auk þess breyttum við svefnherbergi í stofu, settum hita í gólf, bættum við lýsingu, skiptum um allar innréttingar og hurðar svo eitthvað sé nefnt. Sérstakar þakkir fær fósturpabbi minn fyrir að vera okkur til halds og traust í framkvæmdunum en án hans værum við enn þá að,“  segir Viktoría.

- Auglýsing -

Aðspurð segir Viktoría að námið í arkitektúr hafi nýst henni afar vel í þessum framkvæmdum og hafi það kennt henni fyrst og fremst að hugsa í lausnum.

„Að vera í skapandi námi eins og arkitektúr kennir manni svo miklu meira en bara að hanna og teikna. Skapandi og fagleg kennsla Listaháskóla Íslands hefur kennt mér mikilvægi þess að sýna samfélagslega ábyrgð, hvatt mig til að þroskast og mótað mig sem betri einstakling,“  segir hún.

Rúmgaflinn gerðu Viktoría og Brynjar sjálf. Náttborðin eru úr Heimahúsinu.

Reyna alltaf að vera útsjónarsöm

Sígilt, hlýlegt og stílhreint eru orð sem lýsa heimilinu vel. Viktoría segir að við val á húsgögnum og hlutum reyni þau Brynjar að vera útsjónarsöm. Þau hafa gert mörg góð kaup á Netinu og finnst þeim skemmtilegt að gefa gömlum hlutum nýtt líf og blanda þeim saman við nýja hluti.

Þau kaupa það sem þeim finnst fallegt hverju sinni óháð því frá hvaða merkjum vörurnar koma og óháð þeim verslunum sem selja hlutina. Hún segist þó hafa meira um það að segja hvað sé valið inn á heimilið en Brynjar, allavega að lokum.

Þegar ég vel liti heima vel ég frekar hlýja jarðliti sem eldast vel en það er þó alltaf gaman að nota aðra sterkari liti til þess að brjóta upp mynstrið.

„Brynjar segir oft að hann skilji ekki hvernig hann nennir að rökræða við mig um heimilið því ég ráði þessu hvort sem er undir lokin og ég held það sé alveg satt hjá honum,“  segir Viktoría en innblásturinn sækir hún meðal annars í fallegar hönnunarbækur sem hún kaupir á ferðum sínum erlendis.

Instagram notar hún líka mikið og finnst henni gaman að deila myndum af eigin heimili þar undir eigin nafni. Uppáhaldsliturinn er rauður en þar sem hann er sterkur og krefjandi litur fær hann ekki mikið vægi á heimilinu. „Þegar ég vel liti heima vel ég frekar hlýja jarðliti sem eldast vel en það er þó alltaf gaman að nota aðra sterkari liti til þess að brjóta upp mynstrið og þá skiptir ekki máli hver liturinn er,“ segir hún.

Hannar íbúðir fyrir aðra

Viktoría hefur ekki einungis hannað eigin íbúð heldur hefur hún tekið að sér að hanna og innrétta íbúðir fyrir aðra. Hún segir að í slíkum verkefnum sé mikilvægt að bera virðingu fyrir persónulegum stíl eiganda og að heimilið fái að endurspegla persónuleika viðkomandi. Einnig er mikilvægt að koma með lausnir af vel úthugsuðum rýmum sem eru í senn tímalaus, hlýleg og stílhrein. Algengustu mistökin sem fólk gerir þegar það innréttar heimili sín segir hún vera að lausnir sem eiga að vera til bráðabirgða eigi það til að enda sem lokaniðurstaða ef of langur tími líður. Þá skipta vönduð vinnubrögð miklu máli og því mikilvægt að fá fagmenn til aðstoðar og arkitekt til þess að leiðbeina.

Baðinnréttingin er eldhúsinnrétting frá IKEA. Flísarnar eru frá Flísabúðinni.
Baðspegillinn er frá Esja Dekor og ljósið fæst í Snúrunni.

Þess má geta að þegar við heimsóttum Viktoríu og Brynjar höfðu þau nýlokið við að selja íbúðina sem gekk hratt fyrir sig enda virkilega falleg og vel skipulögð eftir breytingarnar.

Myndir / Hallur Karlsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -