Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Sérþekking og listræn nálgun skila einstakri upplifun í verslun BIOEFFECT í Hafnarstræti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Verslun BIOEFFECT í Hafnarstræti 19 var nýverið opnuð í sögufrægu húsi sem reist var árið 1925 en margir þekkja það sem hús Rammagerðarinnar og eiga þaðan margar góðar minningar. Byggingin er sérstök að forminu til og minnir um margt á straujárnið í New York.

 

Verslun BIOEFFECT í Hafnarstræti. Mynd/Hallur Karlsson

Sóley Þórisdóttir vöruhönnuður er aðalhönnuður fyrirtækisins og hefur hún starfað hjá fyrirtækinu um átta ára skeið eða allt frá því að fyrstu vörur fyrirtækisins komu á markað. Hún segir að BIOEFFECT hafi boðist rýmið við Hafnarstræti og hafi þau fljótt séð að þarna væri gott tækifæri.

Byggingin sé sérstök á þessum reit, hefur sögulegt yfirbragð og að fólk þekki staðinn mjög vel. Sóley segir einnig að tíminn hafi verið knappur en frá því að hönnunarferlið við verslunina hófst og þar til því var lokið hafi aðeins liðið um tveir mánuðir. Þar hafi þó reynslan skipt miklu máli en hún segir að þau hjá fyrirtækinu búi yfir mikilli og góðri reynslu, allt frá því að hanna einstaka umbúðir yfir í heildstæðar upplifanir og rými. Þau hafi einnig ákveðið að leita til Basalts arkitekta og því hafi þar sameinast góð sérþekking og reynsla sem skilaði frábærri útkomu.

Mynd/Hallur Karlsson

Hvað hönnun rýmisins varðar voru Sóley og hönnuðir Basalts, þau Marcos Zotes og Rut Sigurmonsdóttir, strax sammála um að hafa efnisvalið einfalt.

„Basalt kemur inn með sína góðu reynslu, sérþekkingu og listræna nálgun og gekk samstarfið vonum framar. Hugmyndin að vinna með ylplast spratt upp frá gróðurhúsunum okkar í Grindavík en útveggirnir í þeim húsum eru úr ylplasti og gleri. Okkur fannst mjög spennandi að skoða hvernig hægt væri að nýta efnið í hönnunina og setur það sterkan svip á rýmið. Plastþræðirnir búa til hálfgerða sjónhverfingu inni í rýminu og auka lofthæðina sjónrænt. Þeir tengja okkur líka við líftæknina og vísindin sem við notumst við í vöruþróun okkar og framleiðslu en það starf fer fram í hátæknigróðurhúsi í Grindavík og í höfuðstöðvunum í Víkurhvarfi, Kópavogi. Rýmið sjálft var töluverð áskorun en veggplássið er lítið og gluggarnir stórir en lögun þess lagði línurnar fyrir hönnun innréttinganna,“ segir Sóley og bætir við að hillurnar þjóni til að mynda þeim tilgangi að vera venjulegar hillur fyrir útstillingar og séu einnig hluti af rýminu en ýmis tæknileg atriði líkt og innbyggð sérhönnuð lýsing setji svo punktinn yfir i-ið og nái að draga fram þá eiginleika og auðkenni sem varan býr yfir.

„Plastþræðirnir búa til hálfgerða sjónhverfingu inni í rýminu og auka lofthæðina sjónrænt.“

Mynd/Hallur Karlsson

Sérþekking og alþjóðleg sérstaða Basalts nýttist vel

- Auglýsing -

Basalt Arkitektar hafa markað sér mikla sérstöðu hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi þegar kemur að hönnun tengdri heilsu og vellíðan og eru Bláa Lónið, Jarðböðin við Mývatn, Vök og GeoSea gott dæmi um það. Því má segja að það hafi verið rökrétt ákvörðun hjá BIOEFFECT að leita til Basalts þar sem sérþekkingin sem þar hefur skapast í gegnum árin er gríðarleg. Marcos Zotes arkitekt og meðeigandi Basalts og Rut Sigurmonsdóttir hönnuður hjá fyrirtækinu sáu um hönnun verslunarinnar fyrir hönd Basalts. Við spurðum þau Marcos og Rut nánar út í hönnunina og tæknilegar útfærslur. Þau segja einnig að samstarfið hafi verið sérlega ánægjulegt.

Hverjar voru helstu hugmyndirnar varðandi efnis- og litaval?

Þegar BIOEFFECT leitaði til okkar til að hanna flaggskipsverslun þeirra í Reykjavík, var það okkar fyrsta verk að heimsækja gróðurhús ORF líftækni í Grindavík og rannsóknarstofur þeirra til að glöggva okkur á grunngildum og framleiðsluferli BIOEFFECT. Við lærðum um ímynd vörumerkisins og ferlið við að rækta og vinna úr byggi sem er notað í BIOEFFECT-vörunum. Við gerðum okkur strax grein fyrir því að nýja verslunin ætti að endurspegla þetta einstaka ferli með því að nota byggverksmiðjuna sem innblástur og efnis- og litapallettur gróðurhússins til að skapa sterka ímynd fyrir verslunina og vörumerkið.

- Auglýsing -
Mynd/Hallur Karlsson

Hver var upprunalega hugmyndin og breyttist hún eitthvað í ferlinu?

Upprunalega hönnunarhugmyndin var að skapa mjög létt andrúmsloft, hengja sýningarmuni niður úr loftinu og búa til leikandi samspil efna, lita og gagnsæis. Grænir, strekktir þræðir eru tilvísun í byggplöntuna en langar týtur sem teygja sig úr axi hennar eru einkennandi fyrir hana. Þræðirnir þekja ýmsa innanhússfleti verslunarinnar, svo sem húsgögn, veggi, skápa og lýsingarmuni. Með því að vinna náið með BIOEFFECT, þróuðum við þessar hugmyndir áfram í gegnum tilraunavinnu með þéttleika þráðanna, efni og liti, þar til við náðum fram fullkomnu jafnvægi sem hentaði bæði rýminu og vörumerkinu.

Mynd/Hallur Karlsson

Lögun rýmisins er heldur óhefðbundin og veggpláss lítið. Hverjar voru helstu áskoranirnar varðandi rýmið?

Innanhússhönnun og skipulag verslunarinnar ræðst af þríhyrningslaga rýminu. Flæði gesta er skipulagt í kringum einingu í því miðju, þar sem hægt er að skoða vörurnar, fá upplýsingar um þær og prófa þær. Þar er líka hægt að fá sér sæti og einnig virkar hún sem hirsla þar sem vörurnar eru geymdar. Plöntur hanga niður úr stóru þríhyrningslaga ljósi og stuðla enn frekar að almennri vellíðan.

Útstillingarhillur eru í öllum gluggum verslunarinnar. Þær hanga niður úr loftinu og snerta því hvergi gólfið. Þetta skapar léttleika og rýmin inni og úti renna saman. Lýsingarhönnunin var unnin í samstarfi við Lisku en lýsingin er innfelld í öll útstillingarhúsgögn sem gefur heildstætt yfirbragð lýsingar án óæskilegra skuggamyndana.

Mynd/Hallur Karlsson

Hvaða atriði finnst ykkur skipta mestu máli í hönnun þegar kemur að því að endurspegla vörumerki og þau gildi sem það stendur fyrir og hvaða leiðir ákváðuð þið að fara til að ná því fram?

Fyrir okkur er mjög mikilvægt að öðlast djúpan skilning á ímynd fyrirtækisins og vörumerki þess áður en við byrjum á hönnunarferlinu. Þetta gefur okkur tækifæri til að meðhöndla hvaða rými sem er sem vörumerkisupplifun (e. branding experience), þar sem fólki finnst það tilfinningalega tengt vörumerkinu, samþætta lykilgildi þess og stuðla að hollustu við fyrirtækið. Í því felast fleiri atriði en bara að setja upp skilti því allir þættir verða að vinna saman að því að mynda grípandi skynjunarupplifun sem er einstök fyrir vörumerkið.

Við hönnun flaggskipsverslunar BIOEFFECT, veltum við því vandlega fyrir okkur hvernig koma mætti vörumerkinu á framfæri með skipulagi, upplifun viðskiptavina, vöruútstillingu, efnisnotkun, litum og lýsingarhönnun til að ná fram lokahlekknum í því sem vöruímyndin byggist á. Hver einasta hönnunarákvörðun hefur að lokum áhrif á viðskiptavini og starfsfólk og sendir sterk skilaboð um fyrir hvað Bioeffect stendur sem fyrirtæki.

„Við hjá Basalt arkitektum erum afar þakklát fyrir samstarf okkar við BIOEFFECT og viljum óska þeim til hamingju með árangur þeirra fram til þessa og í framtíðinni,“ segja Marcos og Rut að lokum.

Viðtalið í heild sinni birtist í 5. tölublaði Húsa og híbýla 2020.

Kaupa blað í vefverslun

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -