Föstudagur 24. maí, 2024
9.3 C
Reykjavik

Sjálfbær hönnun sem stenst tímans tönn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Danska hönnunarfyrirtækið Gejst var stofnað í Óðinsvéum í Danmörku árið 2013 af hönnuðunum Søren Nielsen og Niels Grubak Iversen. Ástríða fyrir endingargóðri hönnun var kveikjan að stofnun fyrirtækisins en fyrirtækið einsetur sér að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Markmiðið var að skora á hefðbundna nálgun og hönnunaraðferðir og skapa vörur sem stæðust tímans tönn bæði hvað varðar hönnunina sjálfa og efnisval.

Orðið gejst merkir eldmóður og er það grundvöllur fyrirtækisins sem endurspeglast í hönnuninni á metnaðarfullan hátt. Hönnun fyrirtækisins er innblásin af skandinavískum lífsstíl og samanstendur af alls kyns heimilisvörum sem fjölgar ár hvert.

Árið 2017 urðu breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins en þá gekk Thomas Heunicke til liðs við Gejst en hann hafði áður starfað fyrir By Lassen sem flestir þekkja. Á sama tíma seldi Niels Grubak Iversen hlut sinn í fyrirtækinu og leitaði á önnur mið. Snemma árs 2018 bættust svo Nadia Lassen og Peter Østerberg í hópinn en þau voru bæði hluthafar í By Lassen til ársins 2016. Gejst hefur einnig fengið til samstarfs við sig þekkta hönnuði á borð við Michael Rem og hönnunarteymið Böttcher & Kayser.

Vegglistaverk og segulmagnaður verðlaunastjaki

Ein fyrsta varan sem Gejst setti á markað er Underground-snaginn. Eins og nafn snagans gefur til kynna er hann innblásinn af neðanjarðarlestarkerfi Lundúna og sést það glögglega á lögun hans. Að sögn Gejst er ekki um neinn venjulegan snaga að ræða heldur þjónar hann tilgangi vegglistaverks á sama tíma og notagildið er ótvírætt. Snagarnir koma í mattri áferð, ýmist hvítir eða svartir og með eikarhnúðum.

Á undanförnum árum hefur Gejst verið hvað þekktast fyrir hönnun Michael Rem á Molekyl-kertastjakanum sem samanstendur af 40 stálkúlum í tveimur stærðum. Kúlurnar eru segulmagnaðar og er hægt að raða þeim saman á marga vegu. Hugmyndaflugið eitt ræður för og verða því engir tveir stjakar eins en einnig er hægt að raða fjórum stjökum saman og mynda prýðilegan aðventukrans. Stjakarnir koma í þremur litum; svörtu, króm og brass. Michael hlaut hönnunarverðlaunin German Design Award árið 2017 fyrir Molekyl-stjakann.

- Auglýsing -

Smáhlutahillur og dulúðleg gróðurhús

Nýjustu vörurnar úr smiðju Gejst eru meðal annars Nivo-vegghillur, Nebl-gróðurhús og nýir litir og aukahlutir fyrir Flex-skipulagshillurnar. Allar þessar vörur eru nýkomnar á markaðinn eða væntanlegar á næstu vikum.

Nivo-vegghillurnar eru fyrsta hönnun þýska teymisins Böttcher & Kayser fyrir Gejst.

- Auglýsing -
Nivo-vegghillurnar eru hannaðar af þýska teyminu Böttcher & Kayser fyrir Gejst.

Hreinar línur einkenna hönnunina og eru þær án alls óþarfaskrauts. Festingar eru úthugsaðar og hvergi sjáanlegar sem gefur hillunum fágaðra og stílhreinna yfirbragð.

Nebl er nokkurs konar gróðurhús hannað af Michael Rem. Nafnið er dregið af þýska orðinu Nebel sem merkir þoka og er hún aðalinnblástur hönnunarinnar. Gróðurhúsið samanstendur af keramikbotni sem plantan stendur á og kúpli úr möttu gleri og koma gróðurhúsin í tveimur stærðum og litum, svörtu og gráu. Gróðurhúsin hafa yfir sér dulúðlegt yfirbragð og verða fáanleg frá og með nóvember næstkomandi.

Flex-skipulagshillurnar koma nú í fleiri litum og til þess að svara eftirspurninni hafa fleiri aukahlutir litið dagsins ljós. Hillurnar eru segulmagnaðar og því auðvelt að festa hluti við þær en einnig er hægt að raða ofan á þær. Megintilgangurinn er að finna smáhlutum heimilisins pláss svo þeir fái að njóta sín hvað best á smekklegan hátt. Hillurnar henta vel í hvaða rými sem er, eldhúsið, skrifstofuna eða svefnherbergið svo eitthvað sé nefnt.

Gejst er ungt og upprennandi fyrirtæki sem vert er að fylgjast með en nú þegar hefur það skapað sér stóran sess í hönnunarheiminum og hlotið mikið lof fyrir vörur sínar.

Flex-skipulagshillurnar eru segulmagnaðar og því auðvelt að koma skikk á hlutina.
Underground-snaginn vísar í neðanjarðarlestarkerfi Lundúna.

 

Texti / Stefanía Albertsdóttir
Myndir / Frá framleiðendum

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -