Þriðjudagur 19. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sjarmerandi sumarhús í Skorradal

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á votum og frískandi föstudagsmorgni lá leið blaðamanns og ljósmyndara í hlýlegt sumarhús í Skorradalnum. Hjónin sem við heimsóttum festu kaup á bústaðnum síðla sumars árið 2016 og var hann þá nýsmíðaður. Hann er rúmir 80 fermetrar, þriggja svefnherbergja og er staðsettur á gróinni lóð með útsýni yfir Skorradalsvatn.

Smávægilegar breytingar gerðu gæfumuninn

Það fyrsta sem lagst var í þegar þau fengu sumarhúsið afhent var að fjarlægja vegg sem lokaði stofurýminu frá svefnherbergjunum og myndaði mjóan gang. „Að fjarlægja þennan vegg gjörbreytti bústaðnum og opnaði hann gríðarlega mikið.“ Hjónin segja að sá sem byggði húsið hafi verið með ákveðna uppröðun húsgagna í huga og fastur á því að hornsófi skyldi passa upp við vegginn. „Fólk virðist oft smeykt við að hafa frístandandi sófa og finnst þeir verða að vera upp við vegg – ég hef séð þetta í mörgum bústöðum, að fólk setji bak sófans upp við gluggann og fær þá ekki að njóta útsýnisins en það sem heillaði okkur við þennan bústað voru einmitt gólfsíðu gluggarnir og útsýnið yfir vatnið.“

Mynd/Unnur Magna

Hlýlegur rustic-stíll

Blaðamaður er forvitinn að vita meira um fallega litatóninn á veggjunum. „Við fórum með eina spýtu úr veggnum sem við rifum í bæinn til að gera smávegis prufu en okkur langaði svo að ná rustic-útliti á viðinn. Þeir hjá Flugger gerðu prufu fyrir okkur sem var hvíttun með gráum tóni en furan á veggjunum hafði fengið að standa og var orðin örlítið gul sem hleypti ákveðnum hlýleika í gegn. Við eru rosalega ánægð með útkomuna.“

Mynd/Unnur Magna

Aðspurð um húsgögnin segjast þau hafa keypt nánast allt í Heimili og hugmyndum sem ljær bústaðnum ákveðinn heildarbrag. „Þetta var mjög hentugt, það fór allt saman í einum bíl beint hingað í bústaðinn. Við erum hægt og rólega að skipta út þessu hvíta en þetta er fljótt að vinda upp á sig, við erum búin að mála gluggakarma, spreia ofna og skipta úr rafmagnstenglum og næsta mál á dagskrá er að skipta hurðarhúnunum út fyrir húna sem eru meira í takt við bústaðinn.“ Hjónin segjast hafa fengið góð ráð frá þeim í Heimili og hugmyndum, til dæmis að vera ekki með lokaða skápa í sumarhúsum, heldur frekar að hafa snaga og glerskápa eða opnar hillur í svefnherbergjunum því þá gleymi maður síður hlutunum. „Eins og sjá má höfum við gleymt páskaeggi,“ segir annar húsráðenda og opnar eina lokaða skápinn í svefnherberginu. Þau segjast einnig vera með töluvert af bekkjum en hugmyndin sé sú að auðvelt sé að kippa þeim út á pall þegar veður leyfi.

Mynd/Unnur Magna

„Stíllinn hér er afar ólíkur stílnum heima fyrir og það var sérstaklega skemmtilegt að innrétta bústaðinn svona á einu bretti eins og við gerðum. Öll húsgögnin komu í einum sendiferðabíl og á um tveimur tímum var bústaðurinn orðinn eins og hann er núna.“ Undir lok heimsóknarinnar bjóða hjónin upp á dýrindis kaffibolla og gamaldags möndluköku, við kveðjum sveitina og sjarmerandi sumarhúsið í Skorradal og þökkum fyrir okkur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -