Laugardagur 7. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Sjarmi í Vesturbænum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Blaðamaður og ljósmyndari heimsóttu fallegt heimili í Vesturbæ Reykjavíkur á köldum degi í október. Þar búa þau Íris Ósk, flugfreyja og Fannar, íþróttastjóri Víkings. Húsið var byggt 1945, teiknað af Einari Sveinssyni arkitekt og hafa þau Íris og Fannar tekið íbúðina í gegn að miklu leyti.

Íbúðin er á þriðju hæð með útsýni til allra átta; að Esjunni, Keili og Bessastöðum og það er þetta fallega útsýni sem fangar athyglina samstundis þegar inn er komið. Hún er um 90 fermetrar að stærð og Íris og Fannar fengu hana afhenta í júnímánuði árið 2017. Þau segjast hafa byrjað á því að rífa allt út nema gólfefni í stofu og fataskápa í svefnherbergi. „Íbúðin varð nánast fokheld,“ segir Íris og bætir við: „Við tókum niður vegg sem var milli eldhúss og gangs og annan sem var á milli stofu og borðstofu því við vildum hafa íbúðina bjarta og opna.“

Þegar þau fluttu inn var strax hafist handa og öll fjölskyldan lagðist á eitt við að hjálpa. „Pabbi er þúsundþjalasmiður, hann getur allt!“ segir Íris. „Við áttum ótrúlega góðar stundir saman og þarna bættust við margar góðar minningar í minningabankann. Þolinmóðari maður en pabbi minn er vandfundinn, held ég,“ segir Íris og hlær. „Við ætluðum ekki að gera of mikið til að byrja með, heldur gera þetta smátt og smátt þar sem við vorum ekki búin að ákveða hvað við vildum. Baðherbergið tók lengstan tíma, mig langaði að hafa það öðruvísi en ekki þannig að ég yrði leið á því.

Pabbi er þúsundþjalasmiður, hann getur allt!

Ég sá gólfflísar sem heilluðu mig mikið og sendi hinum ýmsu fyrirtækjum mynd af þeim til að reyna að fá eins, og þeir hjá Agli Árnasyni fundu loksins það sem við leituðum að,“ segir Íris ánægð og þegar hún er spurð hvar hún sæki sér innblástur fyrir heimilið segist hún hafa legið yfir tímaritum og Instagram til að fá hugmyndir þegar þau stóðu í þessum miklu framkvæmdum.

Er framkvæmdum þá lokið? „Nei, ekki alveg, næst á dagskrá er að skipta út gólfefnum á stofu og svefnherbergi, lakka gereft og hurðir og hengja upp ljós. Annað er nokkuð tilbúið,“ segir Íris sátt.

Blaðamaður heillaðist af fallegum glugga á baðherberginu sem er hringlaga og setur skemmtilegan svip á rýmið.

- Auglýsing -

Sjarminn sem fylgir erfðagripum

Fagurfræðin er Írisi ofarlega í huga þegar kemur að því að innrétta heimilið. Hún segir að sér finnist skemmtilegast að blanda saman gömlu og nýju og að hlutir sem hún hafi fengið gefins séu þýðingarmeiri fyrir hana. „Það gerðist þegar ég bjó í Noregi, mér finnst gaman að nýta gamalt og blanda því við nýtt. Borðstofuborðið okkar og stólarnir eru frá ömmu og afa Fannars.

Við gerðum borðstofusettið upp, afi minn sprautulakkaði borðið svart og amma hjálpaði okkur að pússa og mála stólana. Afi er afar hjálpsamur og handlaginn, hann hjálpaði mér meðal annars að búa til ljós í eldhúsið ásamt því að gera sófaborð eftir mínum hugmyndum þar sem við fundum ekki hið eina rétta í verslunum,“ segir hún.

Mér finnst gaman að nýta gamalt og blanda því við nýtt

- Auglýsing -

Hansahillan í stofunni hafði verið á verkstæði hjá ömmu og afa Írisar ansi lengi áður en hún fékk nýtt hlutverk heima hjá unga parinu, ásamt gömlum skálum og vösum sem eru í miklu uppáhaldi hjá Írisi. „Ég er líka ansi stólasjúk, eins og sést, ég elska þessa gömlu stóla og finnst þeir hafa svo mikinn sjarma,“ segir hún.

Uppáhaldshönnuðir Írisar eru Louis Poulsen, Georg Jensen og Arne Jacobsen en hver ætli sé uppáhaldshluturinn á heimilinu? „Ætli það sé ekki spegillinn sem afi smíðaði fyrir mig ásamt Georg Jensen-kertastjakanum og vasanum í stofunni sem ég fékk í afmælisgjöf,“ segir Íris. Henni þyki skemmtilegt að blanda þessu saman, ekki halda sér í einum stíl.

„Ég er ein af þeim sem geymi alltaf eitthvað af dóti í kassa og skipti svo út annað slagið.“

Texti / Svava Marín Óskarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -