Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Vantar þig þrælfínar hugmyndir fyrir heimilið?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vantar þig ferskar hugmyndir og innblástur fyrir heimilið? Þá er þetta myndasafn eitthvað fyrir þig. Hér má sjá brot út áhugaverðum innlitum sem birst hafa á síðum Húsa og híbýla undanfarið.

Frístandandi baðkerið í stofunni hjá Hildi Ársælsdóttur sem við heimsóttum í upphafi árs 2018 er svo eftirminnilegt að við verðum að hafa það með enda frábær og fjörleg hugmynd. Blöndunartækin fara líka út fyrir boxið flott og stíllinn á heimilinu gefur fullt af góðum hugmyndum.
Glerveggir með járnramma eru að verða áberandi lausn til að skilja að rými á nettan og fallegan hátt. Steyptir veggir eru því ekki alltaf hentugasta lausnin, sérstaklega ekki ef rýmið er lítið. Suðulist smíðaði glerjárnsvegginn á Hverfisgötu en Sólveig Andrea innanhússarkitekt teiknaði hann.
Blómaskreyting yfir rúminu er rómantísk og öðruvísi hugmynd. Tökum náttúruna alla leið inn í svefnaherbergi.
Innbyggðar hirslur sem minna á Tetris-leikinn. Fjórir opnir skápar og margir lokaðir sem geyma meðal annars þvottavél og þurrkara. Þetta er hugmynd sem gæti snarvirkað þar sem skápapláss er lítið. Þessi var sérsmíðaður hjá Heggi.
Sonja Björk innanhússarkitekt og vöruhönnuður var frumleg þegar hún útfærði þennan flotta vegg heima hjá sér. Öðruvísi hugmynd sem má útfæra alls konar.
Þurrkuð blóm sem börnin tína úti í náttúrunni getur verið fallegt að setja í ramma og þessir rammar eru sérstaklega fallegir undir blóm.
Tískugúrúinn og ljósmyndarinn Helgi Ómars geymir hjólið sitt inni en falleg hjól fegra bara heimilið og fá mann eflaust til að hjóla meira; stöðug áminning þegar það blasir við manni.
Grænar plöntur eru tískutrend sem hefur lifað góðu lífi undanfarin tvö ár og mun lifa áfram. Plöntur rokka!
Hér eru þrír litir í aðalhlutverki; rauður, bleikur og mintugrænn ásamt þeim hvíta. Flott hugmynd fyrir litaglöðu týpurnar að velja saman sína uppáhaldsliti sem tóna saman og leyfa þeim að njóta sín saman í eldhúsinu til dæmis eins og hér. Baðherbergið eða allt heimilið í sama litaþemanu gæti líka komið hressandi út.
Það er allt hægt í dag og ef þú átt fallega ljósmynd sem þú vilt að njóti sín á heimilinu er kannski góð hugmynd að gera eitthvað í líkingu við þetta. Svæfandi augnaráð hests er fallegt að sjá fyrir svefninn.
Í þessari forstofu spilar allt fallega saman og glervasarnir á veggnum, sem voru keyptir í TIGER, eru falleg hugmynd og það má setja hvað sem er í þá; blóm, banana eða bara hvað sem er!
Hvítar og einlitar flísar eru klassískt val en að blanda saman ólíkum flísum í sama rými er móðins í dag og arfasmart. Hér eru ekki sömu flísar á gólfi og vegg og auk þess er efri partur veggjarins skreyttur með veggfóðri.
Einn litaglaðasti stigi landsins er á milli Pablo Discobar og Burro. Hálfdan Pedersen sá um hönnunina og þessi blanda hjá honum er algjört konfekt. More is more!

Myndir / Ljósmyndarar Birtíngs, Helgi Ómars og Minarc

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -