Mánudagur 29. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Sjóslysin og afleiðingar þeirra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svava Jónsdóttir blaðamaður skrifaði bókina HEIMTIR ÚR HELJU. RÆTT VIÐ 12 SKIPBROTSMENN sem kom út í vetur. Hún tók viðtöl við 12 sjómenn sem voru skipverjar á bátum eða skipum sem fórust. Í sumum tilfellum voru mennirnir í sjónum í nokkra klukkutíma jafnvel innan um fljótandi gáma og í öðrum tilfellum komust þeir um borð í björgunarbáta og voru þar jafnvel í marga klukkutíma áður en hjálp barst. Í einu tilfellinu lágu látnir skipsfélagar í botni bátsins. Mennirnir segja frá sjóslysunum og því sem tók við en andlega áfallið varð þess valdandi til dæmis að einn vildi síðar klára það sem sjónum tókst ekki að klára, svo má nefna þunglyndi, örorku í um 20 ár, geðhvarfasýki og neyslu.

Hér er brot úr nokkrum viðtölum:

„Það er svo skrýtið. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir kraftinum í brotunum. Ég gleymi ekki þessu broti sem ég lenti þarna í; krafturinn var svo mikill og svo gífurlegur af þessu broti sem ég lenti í sem þeytti mér út í haf og dembdi mér á bólakaf af svo miklum krafti að kinnarnar á mér flöksuðu á leiðinni niður. Ég var í flotgalla og ég vissi að hann kæmi mér upp aftur og ég var mjög rólegur á þessum tíma.

Svo þaut ég niður í hafdýpið. Það hægðist meira og meira á mér og ég fór svo að fara hægt upp þangað til ég var kominn upp á yfirborðið. Ég man nú ekki til þess að ég hafi sopið neinar hveljur. Ég hafði passað mig á að vera með kjaftinn á mér lokaðan og ekki reynt að anda neitt. Það fyrsta sem ég gerði var að líta í kringum mig og þá sá ég látinn mann í sjónum. Við reyndum svo að draga hann svo til okkar. Strákarnir voru byrjaðir að festa sig saman með því krækja sig saman; við vorum eins og slanga í sjónum.“

(Valdimar Hallur Sigþórsson – Dísarfelli)

- Auglýsing -

„Ég bara hugsaði með mér að ég yrði við stýrið á meðan verið væri að bjarga áhöfninni og svo þegar allir voru eiginlega farnir þá fór ég að hugsa um að kannski væri best að koma sér sjálfur. Þá sá ég að minn tími væri kominn þannig að ég gæti farið að hugsa mér til ferðar.“ Það var enginn tími til að fara í flotgalla og var hann í skyrtu og buxum. „Ég byrjaði að klöngrast niður að næsta þilfari og svo niður á þilfarið þar fyrir neðan sem var náttúrlega ekki þilfar; skipið lá á hliðinni. Gólfið var eins og veggur. Ég gekk á lúgunni. Svo fór ég niður á dekk með einhverjum ósköpum en náttúrlega datt nokkrum sinnum og veltist um í sjónum. Það var ekki mjög kalt. Það var það góða við það að sjórinn var ekki mjög kaldur; hann var svolítið varmur þannig að manni var ekkert kalt á því að busla í sjónum. Ég hélt mér í handriðið sem var á stiga. Ég var rennandi blautur. Ég fór nokkrum sinnum í kaf með skipinu og svo kom það upp aftur. Ég hef farið í kaf allavega þrisvar til fjórum sinnum. “

Einn maður á sökkvandi skipi.

„Svo kom allt í einu niður taug úr þyrlunni og ég greip í hana og tókst mér að halda henni þannig utan um mig að þeir hífðu mig upp.“

- Auglýsing -

Skipstjóranum var bjargað. Karlinum í brúnni.

„Þegar ég var kominn í þyrluna og sestur aftast í hana kom flugstjórinn til mín og sagði mér að þeir væru búnir að ná öllum og mér létti.“

(Gunnar Scheving Thorsterinsson – Tungufossi.)

„Öldurnar kaffærðu okkur og ég hugsaði stundum um hvort eg ætti bara að sleppa. Þetta var alveg búið fyrir mér. Ég sá engan bát neins staðar. Við vissum ekkert hvort neyðarkall hefði borist, björgunarbáturinn var sprunginn, við vorum bara klæddir í venjuleg föt og samkvæmt öllu þá áttum við að deyja úr ofkælingu.

Mér skilst að við höfum verið í sjónum upp undir tvo tíma en fyrir mér er þetta heil ævi eða nokkrar sekúndur. Ég missti þarna allt sem heitir tímaskyn. Ég man bara að við vorum þarna. Ég er ekki trúaður maður en ég bað til Guðs um hjálp og ég hugsaði líka um að mamma mín ætti bara mig og hún væri að fara að missa son sinn í sjóinn.“

(Hilmar Þór Jónsson – Bjarma.)

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -