Sunnudagur 16. júní, 2024
7.8 C
Reykjavik

Aðstandendur fólks með geðrænan vanda geta ekki borið ábyrgð á batanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, réttarfélagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.

Oft eru aðstandendur óöryggir hvenær og hvernig þeir eigi að grípa inn í þegar þeir sjá að ástvinur þeirra er að veikjast eða hefur minnkað virkni óeðlilega mikið. Hafa verður í huga að inngrip aðstandenda verður alltaf að fara eftir eðli vandans og alvarleika. Mikilvægt er að einstaklingar með geðrænan vanda fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. En hugmyndir þess veika og aðstandenda til hvaða bragðs skuli taka geta verið afar mismunandi.

Stundum upplifa aðstandendur úrræðaleysi og að þeir séu einir í baráttunni. Á sama tíma og þeir eru helteknir af ótta yfir því að ástvinur þeirra sé að veikjast, gæti veikst meira, sé í hættu og hafa áhyggjur af framtíðarhorfum. Þessar hugsanir geta orðið allsráðandi og þá er hætta á að þær fari að hafa áhrif á flesta þætti daglegs lífs fólks. Í hjálparleysinu fara aðstandendur stundum að leggja allt í sölurnar til að bjarga málunum. Það getur verið fullkomlega eðlilegt að festist í slíku mynstri en á sama tíma getur það verið ógagnlegt.

Hvenær verður stuðningur að stjórnsemi? Því er í raun fljótt svarað, stjórnsemi er ekki stuðningur. Ef sá veiki upplifir mikla stjórnsemi er líklegt að hann upplifi skilningsleysi, afskiptasemi og yfirgang frá aðstandendum. Slíkt getur ýtt undir óöryggi hjá þeim veika, honum getur fundist sem honum sé ekki treystandi, hann sé ómögulegur, sé byrði á fjölskyldu og eykur líkur á að gjá myndist þar á milli.

Flest viljum við hjálpa þegar einhverjum sem okkur þykkir vænt um líður illa. En oft og tíðum eru það ekki skrefin sem aðstandendur taka í veikindaferlinu sem skipta mestu máli heldur þau skref sem sá veiki tekur. Sem leiðir okkur að því að aðstandendur geta ekki borið ábyrgð á bata þess veika. Hins vegar er stuðningur aðstandenda á þessum tíma afar mikilvægur.  Því getur verið gagnlegt fyrir aðstandendur að kortleggja þann stuðning sem þeir vilja bjóða þeim veika og hvað þeir ætli ekki að gera.

Mikilvægt er fyrir aðstandendur að huga að eigin heilsu og öðrum í fjölskyldunni en sporna við að málefni þess veika heltaki líf fjölskyldunnar. Þá er gagnlegt að passa upp á álag og svefn, stunda einhverja hreyfingu, fara út á meðal fólks og koma sér upp áhugamál. Ef ekki er hugað að þessum þáttum eru aðstandendur í aukinni áhættu að veikjast vegna álagsins sem þessu fylgir.

- Auglýsing -

Gagnlegt getur verið að fá ráðgjöf hjá heilbrigðisstarfsfólki sem hefur þekkingu á þessum málum til að minnka líkur á að það gerist. Á stofnunum þar sem sá veiki er með heilbrigðisþjónustu er oft hægt að óska eftir fjölskylduráðgjöf eða sækja námskeið fyrir aðstandendur.

Þegar aðstandendur fá góðan stuðning er það einnig mikilvægur stuðningur fyrir þann veika.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -