Leiðari úr 4. tölublaði Mannlífs
„Að glíma við sjálfsvíg ástvinar er öðruvísi en allt annað,“ segir Birgitta Jónsdóttir í viðtali í Mannlífi dagsins um hvarf föður síns og seinna eiginmanns síns, sem báðir frömdu sjálfsvíg. Birgitta gagnrýnir harðlega að ekki skuli vera við lýði neinir ákveðnir verkferlar varðandi aðstoð við ástvini þeirra sem fremja sjálfsvíg og kallar eftir breytingum á því.
Hún er ekki ein um þá kröfu. Meistaraverkefni Elínar Árdísar Björnsdóttur við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri síðastliðið vor er rannsókn á reynslu foreldra af stuðningi í kjölfar þess að missa barn í sjálfsvígi og þar kemur fram að þeir sem hún ræddi við hafa sömu reynslu og Birgitta. Það er ekkert ákveðið verklagsferli innan heilbrigðisþjónustunnar þegar kemur að stuðningi við aðstandendur í slíkum málum. Slíka aðstoð verða aðstandendurnir að sækja sjálfir, en eins og fram kemur bæði í máli Birgittu og viðmælenda Elínar í fyrrnefndri rannsókn er fólk í þessari stöðu í svo miklu áfalli að það er ekki fært um að sækja sér faglega hjálp. Þar þarf heilbrigðiskerfið að koma til og veita aðstandendum upplýsingar og aðstoð við að komast í réttar hendur til að fá þann stuðning sem nauðsynlegur er. Það er ekki boðlegt árið 2020 að skilja fólk eftir í lausu lofti á þessum tímapunkti. Og þótt hjálp sé vissulega í boði ef fólk leitar eftir henni að eigin frumkvæði hlýtur það að teljast eðlileg krafa að fundnar verði leiðir til að gera áfallahjálp að föstu atriði í meðhöndlun slíkra mála.
„Með opnari umræðu og afléttingu skammarinnar sem sjálfsvíg eru enn umvafin getum við lagt okkar af mörkum við að létta byrði aðstandenda þeirra sem falla fyrir eigin hendi.“
Óhjákvæmilega skýtur sú hugmynd upp kollinum við lestur þessara reynslusagna að skorturinn á aðstoð við aðstandendur tengist því að sjálfsvíg eru enn feimnismál og umræðan um þau í skötulíki, eins og Birgitta lýsir vel í viðtalinu. „Það talar enginn um þetta en nánast alltaf þegar ég tala um þetta kemur í ljós að sá eða sú sem ég er að tala við hefur átt einhverja ástvini sem hafa framið sjálfsvíg en það hefur verið falið. Enn þá er sem sagt ekki samfélagslega samþykkt að tala um þessa hluti og það bara gengur alls ekki lengur,“ segir hún og óhætt að taka undir það. Með opnari umræðu og afléttingu skammarinnar sem sjálfsvíg eru enn umvafin, getum við lagt okkar af mörkum við að létta byrði aðstandenda þeirra sem falla fyrir eigin hendi og í framhaldinu gert kröfuna um bætta þjónustu við þá að almennri kröfu, ekki einkamáli þeirra sem málið snertir með beinum hætti. Það er ekki þeirra einkamál hvernig samfélagið kemur fram við þá sem verða fyrir þeirri sorg að missa ástvin á þennan hátt, það er mál sem snertir okkur öll, réttlætismál sem ekki ætti að þurfa að ítreka. Lögum þetta.