Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Allur heimurinn er okkur opinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 42. tölublaði Vikunnar.

Flest börn kannast líklega við að lesa um eða sjá einhvers staðar myndir af einhverjum ótrúlegum stað á jörðinni. Þau uppgötva smám saman að veröldin er mun stærri og fjölbreyttari en þau áttu von á og alls staðar er að finna einhver undur. Síðar á ævinni dúkka kannski upp á Facebook eða á fréttamiðlum myndir af þessar ólýsanlegu fegurð úti í hinum stóra heimi og aftur horfir einstaklingurinn heillaður á þennan undrastað og hugsar með sér; einhvern tíma ætla ég að fara þangað. Oft gleymist þetta aftur en í einhverjum tilfellum situr ímyndin föst í höfðinu og af og til vaknar aftur draumurinn um að stíga þar niður fæti, snerta gróðurinn, draga að sér andrúmsloftið og njóta til fulls þeirrar dásamlegu fegurðar sem jörðin okkar býr yfir. Það eru hins vegar ábyggilega fleiri sem aldrei fara en hinir sem stökkva fremur en hrökkva. Í þeim hópi er Helga Bergmann.

Eitt sinn sat hún við tölvuna og sá auglýsta ferð um stærsta helli í heimi. Henni fannst þetta of spennandi til að sleppa því og skellti sér ein af stað. Þetta var krefjandi ferðalag um frumskóg og neðanjarðarveröld. Ekki hver sem er getur tekist á við slíkt og Helga undirbjó sig með því að ganga á Esjuna. Hún þjáist af liðagigt og þarf að hvíla sig suma daga en er dugleg að hreyfa sig þess á milli. Líklega myndu ekki allir telja það þess virði að tína af sér blóðsugur í skógarþykkninu og síga í belti 200 m niður í iður jarðar en að mati þessarar ævintýrakonu er þetta hluti af upplifuninni.

Helga hefur unun af ferðalögum og vill upplifa heiminn á nýstárlegan máta. Hún hefur kafað, stokkið úr fallhlíf, flogið með þyrlu, klifrað, gengið og siglt. Næst á dagskrá hjá henni er að fljóta um Dauðahafið og feta í fótspor Jesú. Hún lýsir stórkostlegri upplifun af því að fljúga yfir Himalayafjöll, veiða pírenafiska í Amazon og klifra upp í aldagamalt hof í Sikkim. En þetta eru bara nokkur dæmi af þeim fjölmörgu ævintýrum sem Helga hefur leyft sér að upplifa. Auðvitað kostar þetta fórnir. Meðan börnin voru lítil hafði hún stundum samviskubit gagnvart þeim og fannst hún vanrækja þau. Þegar kennarinn þeirra benti henni á að þvert á móti væri hún að skapa þeim einstaka fyrirmynd hætti hún því. Nú er hún orðin amma og barnabörnin alast upp við að heimurinn allur er þeim opinn og hægt að njóta þess að skoða hann alla ævi. Næst þegar ég rekst á mynd af stórkostlegum stað mun ég horfa öðruvísi og kannski bóka ferð í stað þess að hugsa; þangað væri gaman að koma, einhvern tíma.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -