Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Ást

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Henry Alexander, heimspekingur

Síðastliðið vor tók ég þátt í skemmtilegri upptöku vegna sjónvarpsþátta um ástarsambönd. Upptakan var ánægjuleg reynsla enda alltaf gaman að taka þátt í verkefnum þar sem vandað er til verka, fagfólk virðist í hverri stöðu og mikið er lagt í framleiðsluna.

Persónulega stóð ég í þeirri meiningu að um væri að ræða þáttaröð þar sem fókusinn væri á skilnaði enda flestar spurningar sem beindust til mín um margs konar siðferðileg álitamál og viðhorfsbreytingar til þeirra. En það er gaman að sjá afraksturinn kominn í sýningar í sjónvarpi og að sjónarhornið sé ástin í öllu sínu veldi. Sjálfur hef ég væntanlega að mestu leyti lent á gólfinu eftir klippiborðið en það er áhugavert að sjá hversu mikið af öflugu fagfólki víða úr samfélaginu hefur gefið sér tíma til þess að ræða efnið. Einnig gefur það þáttunum aukið gildi hversu mikið af pörum er reiðubúið að ræða persónuleg mál.

Þótt lítið sé að lokum notað af því sem maður segir við þáttagerðarmenn er alltaf gott að fá tækifæri til að ræða hluti við áhugasamt fólk. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að hafa fengið tilefni til að hugleiða hversu ótrúlega mikið siðferðileg viðhorf okkar til ólíkra sambúðarforma hafa breyst á undanförnum áratugum. Og það eru ekki einungis viðhorf til mismunandi sambúðarforma sem hafa tekið stakkaskiptum. Blessunarlega hafa viðhorf til ólíkrar kynhneigðar og kynvitundar mildast til muna og særandi siðvöndun þegar kemur að þessum málum á miklu undanhaldi. Vissulega heyrast þó enn raddir þeirra sem telja sig vita hvernig einstaklingum er best að haga lífi sínu í nafni góðs siðgæðis. Byggja slíkar raddir oft á umvöndun um að einstaklingar krefjist allt of mikils frelsis sér til handa.

Það er góð lexía fyrir þá sem fást við siðfræði að fara reglulega yfir hvernig siðferðileg viðmið taka stöðugum breytingum og að breytingarnar hafa átt sér stað vegna baráttu fólks fyrir auknum mannréttindum. Tiltölulega mikil sátt hefur myndast um margt það sem áður þótti ámælisvert og samfélagið hneykslaðist ótæpilega á. Mér finnst ekki ólíklegt að þessi þróun til frekara siðferðilegs umburðarlyndis muni halda áfram á næstu árum og að mörg þeirra samlífsforma sem nú þykja kannski á jaðri þess að vera ásættanleg verði viðurkenndari. Mér þykir að minnsta kosti erfitt að sjá hvaða siðferðilegu rök standi gegn mörgu því sem mér sýnist vera í deiglunni nú um stundir. Við munum sjá fleiri einstaklinga lýsa því yfir að þeir hneigist bæði kynferðislega að sjálfum sér og séu sjálfum sér nógir varðandi sambúð. Og á hinum endanum munu fleiri reyna opnari sambönd og jafnvel sambúðarform með nokkrum einstaklingum.

En er ég þá að mæla fyrir því að ekkert kunni að vera siðferðilega ámælisvert þegar að ástarlífi okkar kemur? Þvert á móti. Þótt maður efist um hvaða hald sé í raun og veru í ólíkum siðferðilegum reglum samfélagsins þegar kemur að þessum málum þá held ég að enn megi finna nokkrar meginreglur sem alltaf hafa átt við. Meginreglur sem munu alltaf vera jafn mikilvægar. Að beita nauðung og ofbeldi verður eins rangt og alltaf. Virðingarleysi fyrir manneskjum er ávallt jafn meiðandi. Barn hefur rétt til foreldris sama hvaða mynd heimilislífið tekur á sig. Svona mætti lengi telja. Siðferðilegt umburðarlyndi leiðir ekki til afstæðis og tómhyggju um siðferðileg gildi. En það gæti leitt til opnara samfélags þar sem fyrst og fremst er reynt er að huga að andlegri velferð borgara.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -