Höfundur / Pawel Bartoszek
„Fáðu þér sjónvarp.“ Það var ráðið sem pabbi minn, tungumálafræðingurinn, gaf mér þegar ég flutti í skiptinám til Þýskalands. Ég entist ekki lengi í Þýskalandi. En tveimur árum síðar flutti ég til Danmerkur. Og fékk mér sjónvarp. Það hjálpaði.
Sektarkenndarsamfélagið okkar hefur alla tíð átt í brösugu sambandi við blessað sjónvarpið. Við höfum tamið okkur að tala mikið um hvað sjónvarpið sé slæmt: Heilalaust gláp, lágmenning, leti. En minna hefur verið rætt um kosti sjónvarps. Sjónvarp er til dæmis frábær kennari, ekki síst þegar kemur að tungumálum.
Sjónvarpið verður aldrei þreytt eða óþolinmótt. Sjónvarpið heldur áfram að tala þig þótt þú skiljir það ekki. Það sýnir „kennsluefni“ sem snertir flesta þætti mannlífsins. Það sýnir þér teiknimyndir, lætur þig hlæja, kennir þér á dómskerfi Bandaríkjanna, segir þér hvað sé að gerast í samfélaginu þínu, hendir í þig íþróttaviðburðum og lætur þig vita hvort það verði kalt á morgun og hvort það muni rigna.
Líklegt er að versnandi læsi hefur núll að gera með vask á bækur og mun meira með það að gera að börn almennt horfa miklu minna á textað efni en áður. Krakkar horfa annaðhvort á talsett efni eða bara eitthvert dót í símanum. Þau eru ekki jafnþvinguð til að lesa á talhraða og áður.
Svipað gildir um máltöku barna af erlendum uppruna. Pólskir og litháískir krakkar sem koma heim úr leikskólanum horfa frekar á barnaefni á tungumáli foreldranna en íslenskt sjónvarp. Það hjálpar þeim auðvitað að viðhalda foreldramálinu, sem er frábært, en kallar kannski á breyttar áherslur í skólakerfinu. Í veruleika þar sem stór hluti barna og starfsfólks hefur ekki íslensku að móðurmáli er það kannski skárri hugmynd en margir halda að planta börnum fyrir framan Svamp Sveinsson í íslensku útgáfunni, dágóðan hluta úr degi.