Fimmtudagur 10. október, 2024
1.6 C
Reykjavik

Eftir storminn syngja fuglarnir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við lifum á tímum sem eiga sér engin fordæmi í nútímanum. Allsherjarfrost blasir við í samfélaginu. Skyndilega er stór hluti þjóðarinnar fastur heima hjá sér í sóttkví eða vegna þess að skólar, vinnustaðir og stofnanir eru lokaðar. Alls kyns takmarkanir mæta fólki í daglegu lífi.

Allar þjóðir heimsins glíma við sama vandamál sem snýr bæði að heilsufari almennings og efnahag þjóðanna. Þetta er tvöföld vá sem stjórnvöld glíma við með mismunandi hætti. Á Íslandi hefur okkur borið gæfu til þess að láta sérfræðinga á sviði heilbrigðismála ráða ferðinni í stað þess að misvitrir stjórnmálamenn nýti sér ástandið til að slá pólitískar keilur. Ekki er ágreiningur um að landlæknir, sóttvarnalæknir og embætti ríkislögreglustjóra hafa sýnt festu og skynsemi gegn vágestinum. Daglegir og yfirvegaðir upplýsingafundir hafa skapað nauðsynlega ró hjá þjóðinni.

Enginn veit hve lengi ástandið mun vara. Þess vegna er áríðandi að þeir sem heima sitja komi sér upp rútínu og njóti lífsins í skugga veirunnar. Í stað hefðbundinna skemmtana þarf fólk að leita inn á við. Við eigum fallega náttúru sem býður upp á útivist af öllu tagi. Fjöllin fela í sér áskorun rétt eins og flatlendið. Flestir geta brugðið á leik þegar staðan er sú að tími er það eina sem við eigum nóg af. Heima fyrir er tilvalið að grípa í spil eða aðra afþreyingu sem ekki gefst tækifæri til að stunda þegar öll hjól samfélagsins snúast á fullri ferð. Ef við viljum sjá eitthvað gott í þessu ástandi þá er rétt að nefna mál þar sem manngæska og náungakærleikur koma við sögu. Fólk að syngja á svölum fyrir nágranna sína. Miskunnsamir samverjar sem bjóðast til að hjálpa þeim sem eiga ekki heimangengt. Afgreiðslukonan í apótekinu í Hveragerði sem býðst til þess að koma lyfjum heim til fólks og jafnvel moka snjó af tröppum þess í leiðinni. Fólkið sem í sjálfboðavinnu færir hinum innilokuðu mat og nauðsynjar. Allir þeir sem sýna öðrum kærleika og bjóða fram hjálparhönd.

Aðalatriðið nú er að sýna æðruleysi í aðstæðum sem enginn mannlegur máttur ræður við. Rose Kennedy glímdi við þann harm að tveir synir hennar voru myrtir og sá þriðji fórst í stríði. Haft var eftir henni að eftir storminn syngja fuglarnir og manneskjan ætti að gera það sama. Við erum í auga stormsins en hann mun lægja eins og alltaf og fuglarnir hefja söng sinn. Þá verðum við vonandi búin að læra að meta þau lífsins gæði sem veiran hefur ýtt til hliðar í bili. Ástandið nú undirstrikar það að tilvera okkar er hverful. Fátt er annað víst í þessu lífi en að við fæðumst og við deyjum. Nú nálgast vorið og með tímanum endalok þeirrar styrjaldar sem við neyðumst til að heyja til að sigrast á veirunni.

„Látum stríðið við veiruna verða okkur til góðs.“

Stjórnvöld standa andspænis því að gera almenningi sem léttbærast að komast í gegnum þetta tímabil. Eðlilegt er að létta fólki sem kostur er að komast af fjárhagslega. Frysta þarf afborganir af lánum og fella niður allar greiðslur sem mögulegt er. Borgaralaun verða að koma til þar sem tekjubrestur hefur orðið. Ríkið verður umfram allt að veita þegnunum það skjól sem mögulegt er við aðstæður sem enginn gat séð fyrir og enginn gat ráðið við. Frammistaða stjórnmálamanna í eftirleiknum skiptir miklu máli. Látum stríðið við veiruna verða okkur til góðs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -