Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Eltingaleikur á samfélagsmiðlum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 3 tbl. Húsa og híbýla 2021

Margir muna vel eftir fyrsta barnaherberginu sínu og eiga eflaust góðar minningar tengdar þessu fyrsta rými sem við eignumst ef svo má að orði komast. Ein af mínum fyrstu minningum úr æsku er einmitt úr herberginu mínu sem ég bjó í til tæplega fjögurra ára aldurs og deildi með eldri bróður mínum. Þar voru tvö rúm og ein hansahilla, hvítir veggir, grátt teppi og dót í kassa á gólfinu, síðan flutti ég í Fossvoginn þar sem ég eignaðist mitt eigið herbergi. Þetta var árið 1972 og litirnir eftir því, appelsínugular gardínur, brúnt skrifborð, mynstrað gulleitt teppi og blátt rúm sem pabbi hafði smíðað fyrir mig, þá var sko ekkert IKEA. Ég flutti nokkrum sinnum á milli herbergja með tilheyrandi breytingum og svo á endanum var tveimur litlum herbergjum slegið í eitt sem ég flutti í á unglingsárunum. Þá valdi ég húsgögn úr við og basti, hengdi þurrkuð blóm og strá í loftið og appelsínugular gardínurnar höfðu vikið fyrir hvítum. Síðasta herbergið sem ég átti á meðan ég bjó enn í foreldrahúsum var töluvert stærra og þar var allt hvítt, bleikt og krómað með hraunuðum veggjum og öll húsgögnin voru úr IKEA fyrir utan tvo stóla.

Flestir ganga í gegnum nokkur tímabil hvað barna- og unglingaherbergi varðar og í þeim er tíska eins og öðru, eðlilega. Börn eru engin undantekning þegar kemur að því að vilja hafa fínt og notalegt í kringum sig. Í raun sækja þau oft í hlýlegt umhverfi, hver man til dæmis ekki eftir því að hafa leikið sér í litlum skotum, undir stiga eða borði, nú eða í heimagerðu teppahúsi fullu af púðum og ábreiðum. Margir byrja líka sín fyrstu skref í því að hafa áhrif á umhverfi sitt með því að færa húsgögn eða breyta uppröðun í herberginu sínu. Fjöldi þeirra viðmælenda sem við höfum rætt við í gegnum árin hér í Húsum og híbýlum hafa nefnt að áhugi þeirra á heimili og hönnun hafi kviknað í æsku þegar þeir voru að breyta og raða í herberginu sínu. Þannig má segja að barnaherbergin leggi að vissu leyti grunninn að framtíðarheimilinu og því brýnt að börn fái snemma á lífsleiðinni að taka þátt í að skreyta og hanna sín rými. Þannig öðlast þau öryggi og eru líklegri til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir ómengaðar af ákveðnum miðlum þar sem margir herma gagnrýnislaust eftir öðrum.

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og það er eðlilegt að verða fyrir áhrifum og sækja sér hugmyndir víða að en hvers vegna þarf fullorðið fólk að apa upp eftir öðrum eins og raun ber vitni og sést töluvert á samfélagsmiðlum? Ég veit ekki svarið því mér finnst mun eftirsóknarverðar að reyna að skapa sérstöðu. Auðvitað eru alltaf einhverjir straumar og tíska í gangi sem við verðum fyrir áhrifum af en allt of margir hreinlega stela hugmyndum frá öðrum og taka jafnvel kredit fyrir. Það sem er enn leiðinlegra er að allt verður einhvern
veginn keimlíkt og óspennandi. Að auki drepur þessi hermistíll niður hinapistl raunverulegu sköpunargáfu sem við fæðumst flest með þó að mismikil sé. Þekktur innanhússarkitekt hér í bæ vakti máls á þessu vandamáli nýlega og ég fagna allri umræðu hvað eftirhermur og hugmynda- og hönnunarstuld varðar og ég held að við þurfum að vera óhrædd við að gagnrýna þetta „hermitrend.“ Hver nennir til dæmis eina ferðina enn að horfa á mynd á Instagram af höndum að halda á kakóbolla? Kennum börnunum okkar betri siði og hættum að „apa“ upp eftir öðrum, skógurinn er fullur af áhugaverðum dýrum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -