Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Fjölmiðlar við dauðans dyr

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlar á Íslandi, sem ekki eru á framfæri ríkissjóðs, eru margir hverjir við dauðans dyr. Ástæðan er ekki eingöngu veiran skæða sem geisar þessa dagana. Öðru fremur er það samkeppni einkamiðla við íslenska ríkið sem veldur. Langvarandi samkeppni við fyrirtæki sem hefur nær endalaus fjármuni hefur staðið um áratugi og er lamandi. Almenningur í landinu er með nauðungaráskrift að Ríkisútvarpinu. Peningarnir fara mikið til í framleiðslu á afþreyingu í beinni samkeppni við fjölmiðla sem ýmist verða að treysta á eigin rekstur eða efnahag eigenda sinna. Rök þeirra sem vilja veg Ríkisútvarpsins sem mestan eru gjarnan þau að stofnunin gegni menningarlegu hlutverki og tryggi almannavarnir. Aðeins lítill hluti framleiðslunnar í sjónvarpshluta RÚV getur flokkast undir boðlega menningu. Þar er sumpart um að ræða jötu fyrir gæðinga stofnunarinnar sem misfara sumir með dagskrárvald.

Stór hluti þess sem kallast getur menning er á Rás 1, sem sannarlega hefur verið öflug á því sviði. Rás 2 byggir aftur á móti að miklu leyti á innihaldslitlu skvaldri og gjafaleikjum þar sem peningar utan úr bæ ráða stundum umfjöllun. Enginn munur er á Rás 2, Bylgjunni eða öðrum útvarpsstöðvum í þessum efnum. Gjarnan er gert út á síbylju og froðu sem skilur fátt eftir en er fín afþreying í sjálfu sér. Séð og heyrt ljósvakans. Engin ástæða er fyrir ríkið til að halda úti samkeppni við afþreyingarmiðla á frjálsum markaði. Á þetta hefur verið bent árum saman en án þess að ráðamenn hafi brugðist við og leiðrétt rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Á meðan ríkið lemur á frjálsum fjölmiðlum með þessum hætti vaknar sú spurning af hverju það fari ekki í samkeppni við aðrar greinar í samfélaginu svo sem matvörubúðir. Ríkið selur jú áfengi en bannar íslenskum fjölmiðlum að auglýsa það. Af hverju stofnar ríkið ekki ísbúð eða veipsjoppu? Svarið er augljóst. Það er ekki við hæfi og reksturinn yrði ekki gæfulegur. Það er raunar hinn almenni vandi RÚV. Rekstrarleg ábyrgð er ekki til staðar og reksturinn míglekur.

Á undanförnum árum hefur það gjarnan verið undantekning ef hinir frjálsu fjölmiðlar hafa skilað hagnaði í rekstri sínum. Það lýsir hinni hörmulegu stöðu betur en flest annað. Þeir sem standa sig allra best í rekstri eru við núllið og eiga ekkert inni til að mæta ófyrirsjáanlegum erfiðleikum.

Ríkisútvarpið með fjármuni íslenska ríkisins að hefur lengst af verið í gríðarlegu tapi. En þar er ástæðan fyrst og fremst óráðsía í rekstri sem þrífst vegna þess að ekki er kallað eftir ábyrgð. Báknið hefur nánast endalaust getað sótt peninga í sjóði almennings. Þegar reynt var að koma böndum á stofnunina var gripið til þess að selja lóðir og húsnæði stofnunarinnar. Peningarnir fóru í að greiða niður skuldir og halda áfram að framleiða og sýna dagskrá sem að mestu leyti er í samkeppni við fjölmiðla sem ekki eiga slíkan bakhjarl sem íslenska ríkið er.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið á lofti því falska flaggi að hann standi með frelsi einstaklingsins og hamli gegn ríkisrekstri. Flokkurinn hefur samt sem áður verið hýsill fyrir Ríkisútvarpið. Flokkurinn hefur verið ráðandi í fyrirbærinu um árabil og gætt þess vandlega að koma sínu fólki að jötunni. Á vakt flokksins hefur stofnunin blásið út í stað þess að vera sett inn í þann ramma sem eðlilegur getur talist. Hræsnin hefur verið nær algjör.

Boðberar frelsisins stóðu gegn því að frelsið yrði tryggt

- Auglýsing -

Á seinasta ári boðaði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra að ríkið myndi leggja til fjárshagslegan stuðning við frjálsa fjölmiðla. Vel útfærðar hugmyndir ráðherrans virtust njóta víðtæks stuðnings og boðuðu ljós í myrkri íslenskra fjölmiðla. Ekki er ljóst hvað síðan gerðist að tjaldabaki en Alþingi náði ekki að afgreiða málið og leysa þannig að hluta til krísuna. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa staðið í vegi fyrir framgangi málsins. Boðberar frelsisins stóðu gegn því að frelsið yrði tryggt. Óli Björn Kárason, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, þekkir betur en flestir hversu erfitt er að reka fjölmiðla. Hann hefur skilgreint sig lengst til hægri á litrófi stjórnmálanna og skapað sér þá ímynd að hann sé umfram annað talsmaður einkaframtaks og frelsis. Nú virðist staðan vera sú að hann sé á góðri leið með að stöðva það réttlætismál sem tryggt gat bættar lífslíkur frjálsra fjölmiðla og rétt af samkeppni sem annars er vonlítil. Hann og flokksbræður hans eiga enn tækifæri til að leggjast á árarnar og blása lífi í íslenska fjölmiðla.

Einkareknu fjölmiðlarnir eru flestir á gjörgæslu eins og staðan er núna. Ríkisútvarpið dafnar aftur á móti sem aldrei fyrr. Full sjónvarpsdagskrá er á RÚV 2 til viðbótar gömlu sjónvarpsrásinni. Útvarpið á morgnana er komið í sjónvarpið með tilheyrandi kostnaði sem enginn virðist þurfa að standa skil á. Allt í krafti fjármuna almennings og í samkeppni við einkaaðila. Vefur Ríkisútvarpsins blæs út sem aldrei fyrr í samkeppni við fjölmiðla sem þurfa að standa á eigin fótum í vonlausri baráttu við ríkið eða deyja drottni sínum.

Lausnin á vanda hinna einkareknu fjölmiðla felst ekki síst í því að koma skikk á rekstur Ríkisútvarpsins. Stofnunin á að fara af auglýsingamarkaði og banna skal kostanir á efni. Rás 2 er betur komin í höndum einkaaðila. Skerpa þarf á menningarlegu hlutverki RÚV með því að efla þann hluta dagskrárinnar. Engin ástæða er til þess að stofnunin framleiði sápuóperur eða annað léttefni. Aðrir geta séð betur um það. Þarna eru miklir fjármunir sem eðli málsins samkvæmt ættu fremur að renna til aðila sem bera í raun ábyrgð á rekstri fjölmiðla sinna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður að hjálpa menntamálaráðherra sínum við að koma málinu í gegn

- Auglýsing -

Ef Óli Björn og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum ætla að standa í vegi fyrir því að einkaframtakið lifi í fjölmiðlaheiminum verða aðrir að grípa í taumana. Neyðin blasir við. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður að hjálpa menntamálaráðherra sínum við að koma málinu í gegn, með tilstilli stjórnarandstöðunnar ef með þarf. Það þarf víðtæka samstöðu til að tryggja að fjölmiðlun á Íslandi fái þrifist og eigi sér lífsvon. Veiran má ekki verða afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Í næstu kosningum kann að verða tímabært að refsa þeim sem veifað hafa röngu flaggi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -