Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Hamingja og hægeldun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari út 2 tbl. Gestgjafans.

Allmörg ár hefur þemað í öðru tölublaði Gestgjafans verið svokallaður vetrarmatur enda febrúar og mars oft kaldir og vindasamir mánuðir. Þessi tegund matargerðar samanstendur af kraftmiklum og kolvetnaríkum réttum og oft kemur ostur við sögu. Pottréttir, bökur, ofnréttir, heimabökuð brauð og bakkelsi passar mjög vel inn í þessa gerð matar sem á ensku gengur einna helst undir samheitinu „comfort food“. Það er eins og líkaminn leiti í mat sem gefur okkur góða og næringarríka orku bæði fyrir líkama og sál, því það er einhver huggun í því að fá sér bragðmikinn og góðan pottrétt í hlýjunni inni á meðan norðangarrinn hamast á gluggunum fyrir utan. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað bráðinn ostur og heimabakað brioche-brauð geta gert fyrir andlegu hliðina. Ég meina, ef maður verður ekki hamingjusamur við að borða nýdjúpsteiktan camembert-ost, hvað þá? Uppskriftir að þessari gerð matar krefjast oft tíma og nosturs enda margir pottréttir hægeldaðir og brauð þarf jú að lyfta sér.

Sumum finnst allt sem tekur tíma vera fráhrindandi og enn aðrir hætta við þegar þeir sjá langan lista af hráefni í uppskriftum en góðir hlutir taka oft tíma, það er bara þannig. Ein algengasta spurningin sem ég hef fengið í gegnum árin varðandi mat er sennilega þessi: „Áttu ekki einhverja ógeðslega góða, fljótlega, einfalda og ódýra uppskrift?“ og stundum fylgir líka með að hún þurfi að vera holl. En þarf allt að vera fljótlegt? Undanfarið hef ég merkt ákveðna breytingu í hugsunarhætti fólks og margir eru farnir að gefa sér meiri tíma í ýmsa hluti eins og gönguferðir, lestur og matreiðslu. Afþreying sem fer á dýptina eins og vandaðar sjónvarpsþáttaraðir og hlaðvörp njóta æ meiri vinsælda. Hver hefði trúað því fyrir 15 árum síðan að útvarpsþættir (hlaðvörp) yrðu jafnvel vinsælli en sjónvarp og því lengri þáttur því betra, fólk vill gæði og dýpt. Þetta er góð breyting, að mínu mati, og hana getum
við eflaust þakkað blessuðum faraldrinum. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði
nokkuð gott.

Þeir sem ætla að leggjast í eldamennsku á vetrarmat ættu að hafa að leiðarljósi að því lengur sem pottrétturinn fær að krauma á hellunni því bragðbetri verður hann og hráefnið mýkra. Í raun er vetrarmatur alls ekki flókinn þótt hráefnislýsingarnar séu oft langar og tíminn á hellunni geti verið drjúgur, því eftir að búið er að koma hráefninu í pottinn eða inn í ofn þá eldar hann sig sjálfur. Við þurfum því lítið annað að gera en að njóta þess að finna húsakynni okkar fyllast af dásamlegum matarilmi á meðan við lesum góða bók eða hlustum á hlaðvarp. Bara að passa að vera ekki svo niðursokkin að rétturinn brenni við á hellunni og annað heyrnartólið skoppi ekki út í pottinn eins og kom ekki fyrir neinn sem ég þekki, alveg satt.

Sjá einnig: Næringarríkur og djúsí matur fyrir líkama og sál

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Eina fagtímaritið um mat og vín á Íslandi

Gestgjafinn

Tryggðu þér áskrift á 1.790 kr. á mánuði eða kauptu stakt blað á 1.890 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -