Þriðjudagur 18. júní, 2024
7.7 C
Reykjavik

Hermistíll og hálfgerð klisja

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sumir þola ekki janúar á meðan öðrum finnst þessi mánuður alltaf marka nýtt og spennandi upphaf. Ég er á báðum áttum hvorum hópnum ég tilheyri, mér finnst í senn gott að kveðja jólin og umstangið í kringum þau á sama tíma og mér finnst dálítið drungalegt þegar jólaljósin slokkna og glingrið er sett niður í kassa. Janúar er samt sem áður boðberi nýrra tíma og kannski sér í lagi nýs upphafs, það er eitthvað svalt við að geta skilið gamlar syndir og sukk eftir og byrjað með hreint borð. Margir lofa sjálfum sér bót og betrun og
setja sér háleit og metnaðarfull markmið. Ein vinkona mín setti sér svo óraunhæf markmið í mörg ár að hún var farin að kvíða nýju ári löngu áður en það gekk í garð og svo leið henni illa út allan janúar þangað til hún sprakk á eigin markmiðum og upplifði sig heldur misheppnaða. Hvert er þá markmiðið með markmiðunum? Ætti takmark okkar ekki að vera að gera meira af því sem veitir okkur hamingju, er það þá ekki gott markmið í sjálfu sér?

Híbýli okkar skipta sköpum á þessum kalda og dimma árstíma og fátt er notalegra
en að kúra undir teppi við kertaljós og mallandi pottrétt á hellunni. Það hefur aldeilis sannað sig á COVID-tímum að Íslendingar hreinlega elska að gera fínt heima hjá sér og þeir fylgjast vel með tískustraumum í hönnunar- og húsgagnaheiminum. Margir fylgjast líka vel með því sem nágrannarnir gera sem sést kannski einna helst á því að sumir hlutir eru nánast inni á öllum íslenskum heimilum. Auðvitað eru alltaf tískustraumar í öllu og það er fullkomlega eðlilegt en það er kúnst að vera nútímalegur og fylgjast með án þess að heimilið verði eins og hálfgerð klisja og samansafn af vinsælum tískuhlutum. Samfélagsmiðlarnir hafa sína kosti og galla eins og með svo margt en neikvæða hliðin á þeim er að margir elta og apa upp eftir öðrum og fyrir vikið verður til ákveðinn hermistíll og sum heimili verða keimlík. Ég verð þó að geta þess að mér finnst mörg íslensk heimili algerlega einstök bæði hvað varðar fegurð og frumleika og sum þeirra hafa einmitt prýtt síður Húsa og híbýla. Eitt það skemmtilegasta er hversu mikið af íslenskri list er að finna heima hjá Íslendingum.

Hefð er fyrir því í fyrsta tölublaðinu okkar að fara yfir tískustrauma, eða trendin eins og margir segja orðið, liðins árs og skoða hvað sé í kortunum á því næsta og óhætt að segja að fjölbreytileikinn í ár sé mikill; náttúrulegir brúnir tónar, ávalar línur, náttúrusteinar, grófur leir, endurnýting og vandaður efniviður sem stenst tímans tönn eru meðal þess sem við munum sjá í verslunum. Gamlir hlutir eru í tísku og meira að segja hugtakið ömmustíll hefur skotið upp kollinum en vinsælt er að gera upp gamla hluti og blanda við nýja. Eitt er víst að gaman er að spá í hvert vindarnir munu feykja okkur árið 2021, hvort sem er í veðri, pólitík, ferðalögum eða hönnun. Eftir árið 2020 veitir okkur ekki af góðri andlegri og líkamlegri innspýtingu í upphafi nýs árs hvort sem hún er í formi bólusetningar, tja, eða bólstrunar.

Sjá einnig: Trendin fyrir 2021 skoðuð, spennandi innlit, viðtöl og fróðleikur

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -